Uppruni sköpunar er alltaf sjálfsmiðaður. Ég hanna lykt sem mér finnst góð. Sama með tónlistina; ég sem eitthvað sem ég fíla sjálfur og ef aðrir fíla hana er það bara bónus,“ segir listamaðurinn Jón Þór Birgisson.
Uppruni sköpunar er alltaf sjálfsmiðaður. Ég hanna lykt sem mér finnst góð. Sama með tónlistina; ég sem eitthvað sem ég fíla sjálfur og ef aðrir fíla hana er það bara bónus,“ segir listamaðurinn Jón Þór Birgisson. — Morgunblaðið/Arnþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við erum í tónlist af því að við elskum það sem við erum að gera og það nærir okkur. Það gefur mér tilgang að skapa eitthvað með vinum mínum úr engu. Það er nóg.

Í Hafnarhúsinu er fólk á þönum; listamenn, sýningarstjórar og iðnaðarmenn. Ekki að undra því þegar blaðamann bar að garði í byrjun vikunnar var unnið hörðum höndum að uppsetningu nýrra sýninga sem verða opnaðar um helgina og eru hluti af Listahátíð.

Í þremur sölum Listasafns Reykjavíkur sýnir listamaðurinn Jón Þór Birgisson innsetningar sem reyna á fleiri skilningarvit en sjónina. Jónsa, sem flestir þekkja úr Sigur Rós, er fleira til lista lagt en tónlist. Hann hefur undanfarin ár unnið þvert á listmiðla en hann sækir innblástur til náttúrunnar og flæðis líkamans. Heimar hans, bjartir eða myrkir, eru fullir af hljóði og ilmi, reyk og mistri.

Eins konar heimsendailmur

Jónsi hefur í nógu að snúast í safninu en gefur sér tíma fyrir blaðamann. Hann byrjar á að leiða hann í gegnum sali safnsins; fyrst um stóra salinn á neðri hæðinni og Jónsi útskýrir verkið.

„Hérna verða fimmtíu hátalarar á veggjum og myrkur inni, en smá ljós. Ég legg áherslu á röddina og hér verður mistur og ilmur í loftinu. Eins konar heimsendailmur, hvað sem það þýðir,“ segir Jónsi og hlær.

Eftir að hafa skoðað salina á efri hæð, sem þennan dag voru alsettir snúrum, tækjum og tólum, förum við á kaffistofu listasafnsins, með útsýni yfir haf og fjöll. Þar er tilvalið að setjast niður með Jónsa og fá hann til að segja betur frá list sinni og lífi.

Ekkert að ota okkar tota

Jónsi segist snemma hafa fundið hjá sér þörf fyrir að skapa, og ekki einungis á sviði tónlistar.

„Ég var alltaf að teikna og mála sem barn og það var það eina sem mér fannst skemmtilegt í skóla. Ég fékk alltaf tíu í þeim fögum en ekki í öðru,“ segir hann en Jónsi prófaði fyrst að læra á klassískan gítar en leiddist það mjög.

„Pabbi gaf mér svo rafmagnsgítar og þá fór ég að spila þungarokk,“ segir hann og það varð ekki aftur snúið.

Á unglingsárunum náði tónlistin yfirhöndinni og var Jónsi í ýmsum hljómsveitum áður en hann stofnaði Sigur Rós með félögum sínum þegar hann var um tvítugt.

„Nú er Sigur Rós orðin þrítug. Við erum enn að túra en erum orðnir svo gamlir að túrarnir eru rólegri og þægilegri en áður. Við ætlum á túr í haust með strengjasveit og endum svo í Hörpu,“ segir hann en þeir stefna á túr um Bandaríkin og Norðurlöndin sem lýkur með þrennum lokatónleikum í Hörpu í desember. Þar munu þeir spila lög af nýju plötunni Átta í bland við eldra efni.

„Það getur verið erfitt á túrum en þegar það er gaman er gaman,“ segir Jónsi og segist taka velgengninni með stóískri ró.

„Við erum jarðtengdir og höfum aldrei látið velgengnina stíga okkur til höfuðs. Við erum lítið í fjölmiðlum og erum ekkert að ota okkar tota. Við höfum aldrei verið með okkar andlit á plötuumslögum heldur viljum að tónlistin tali sínu máli. Við erum í tónlist af því að við elskum það sem við erum að gera og það nærir okkur. Það gefur mér tilgang að skapa eitthvað með vinum mínum úr engu. Það er nóg.“

Í leit að fullkominni lykt

Við snúum okkur aftur að þessu nýja listformi Jónsa sem hófst ef til vill með grúski í ilmum.

„Ég hef verið að „ilmvatnast“ í fimmtán ár eða svo. Ég elska lykt en þoli ekki ilmvötn; þau eru öll hrikaleg. Mig langaði að búa til mína eigin lykt og ég byrjaði að safna ilmolíum og blanda þeim saman,“ segir Jónsi sem kafaði djúpt ofan í fræðin; alla leið ofan í mólikúlin sem finnast í ilmi.

„Ef við tökum dæmi af rósarilmi, þá er sú olía búin til úr hundrað til fimm hundruð lyktarmólikúlum,“ segir Jónsi og hefur einangrað mólikúlin svo hann geti hannað lykt alveg frá grunni.

Jónsi er svo áhugasamur um ilmi að blaðamaður verður fljótt ringlaður af flóknum upplýsingum um hvernig hanna eigi góðan ilm.

„Þetta eru rosa vísindi og erfið. Þetta er erfiðasti skóli sem ég hef farið í gegnum og mér finnst ég enn ekki vita nóg,“ segir hann og segir erfitt að nálgast upplýsingar um fræðin, enda vilja ilmvatnsfyrirtæki heimsins ekki deila sínum leyndarmálum með umheiminum. Jónsi þurfti því að prófa sig áfram og rekast á veggi.

„Fyrst var ég bara að þessu fyrir mig. Uppruni sköpunar er alltaf sjálfsmiðaður. Ég hanna lykt sem mér finnst góð. Sama með tónlistina; ég sem eitthvað sem ég fíla sjálfur og ef aðrir fíla hana er það bara bónus,“ segir Jónsi sem hefur eytt löngum stundum í að blanda saman ilmolíum í leit sinni að hinni fullkomnu lykt.

„Ég er með vinnuherbergi í LA þar sem ég bý þar sem ég er með þúsundir ilmolía og ilmmólikúla í litlum glösum og prófa mig áfram. Þetta er orðið mjög vísindalegt og ég vigta allt og skrái allt niður,“ segir Jónsi, en hann á og rekur nú íslensku ilmgerðina Fischersund í Reykjavík ásamt systrum sínum Lilju, Sigurrós og Ingu, auk annarra. Í ilmgerðinni Fischersundi má finna ilmvötn, ilmkjarnaolíur, ilmkerti, reykelsi og hreinar snyrtivörur og er allt þar handgert úr bestu mögulegu hráefnum.

Að koma inn í þá verslun er sérstök upplifun, það getur blaðamaður vottað.

„Lilja systir var mjög forvitin að sjá hvað ég væri að gera með þessar ilmblöndur og vildi endilega stofna búð,“ segir Jónsi og nefnir að mikil saga og miklar pælingar séu á bak við hvern ilm. Oft hannar Jónsi ilm sem minnir á æskuna eða jafnvel er sótt í ilm forfeðranna sem sátu við bálköst, enda er reykjarlykt í sérlegu uppáhaldi hjá honum.

„Ég er ekki ánægður með neitt sem ég geri og segi oft hvað varðar ilmina að þetta sé „bottomless pit of disappointments“ því ég er búinn að gera þúsundir af prufum. Ef maður setur einum dropa of mikið í ilm, sem í eru kannski fimmtíu innihaldsefni, er allt ónýtt og maður þarf að byrja upp á nýtt. Þetta er mjög „frústrerandi“ ferli en ég held áfram. Maður verður að vera heltekinn af þessu og maður verður að elska þetta,“ segir hann og brosir.

Ertu búinn að finna hinn fullkomna ilm?

„Nei, ég er ekki búinn að finna bestu lyktina, en með hverjum mistökum er einhver lærdómur.“

Allt sem ég geri er svart eða hvítt

Af hverju fluttir þú til LA?

„Ég var búinn að búa á Íslandi í yfir fjörutíu ár og sjá fjölda borga í heiminum á túrum en hafði aldrei búið erlendis. Ég hafði oft verið í LA að gera tónlist við kvikmyndir og leist vel á. Þar er alltaf sól og gott veður, algjör andstæða við Ísland. Mig langaði bara í hita og sól; að sólin skini inn í mitt litla hjarta og vermdi mig aðeins,“ segir hann og brosir.

„Nú á ég hús í LA og þarna byrjaði þessi listsköpun. Ég hafði umgengist mikið listamenn á Íslandi, en í LA var ég svolítið einn með sjálfum mér, án fjölskyldu og vina, og þá gafst meiri tími og meiri friður til að spá og spekúlera. Ég er mikill einfari,“ segir Jónsi og segist njóta lífsins í borg englanna.

„Ég á þarna lítinn og góðan hóp af vinum, flestir listamenn,“ segir Jónsi, sem vinnur að sjálfsögðu enn með Sigur Rós sem í dag skipa, auk hans, þeir Georg Holm og Kjartan Sveinsson.

Spurður um frægðina segist hann ekki hafa upplifað sig sem frægan og aldrei sóst eftir því. Í LA sé hann alls ekki þekktur úti á götu og falli því í fjöldann þar sem honum líður best.

„Það er mjög þægilegt. Þetta er fullkomið svona,“ segir Jónsi og er sáttur við að búa í LA, en segist vel geta hugsað sér að eiga afdrep á Íslandi, jafnvel úti á landi.

Í LA fór Jónsi að huga að annarri list en tónlist og eitt leiddi af öðru.

„Það byrjaði þannig að ég gerði tónlist við verk eftir Ólaf Elíasson í LA. Í kjölfarið kynntist ég galleristanum hans Ólafs og fór að ræða við hana um að það gæti verið gaman að yfirfæra tónlist og hljóð inn í galleríið,“ segir hann og þá fór boltinn að rúlla.

„Hún hefur verið hjálpsöm og þolinmóð sem hefur verið mér ómetanlegt,“ segir hann og nefnir að Ólafur Elíasson hafi haft mikil áhrif á sig sem listamann.

„Mér finnst hann frábær, bæði hans list og sem karakter. Við höfum talað mikið saman og hann er eins konar Yoda fyrir mig,“ segir hann og hlær.

Jónsi hélt svo sýningu í LA í sama galleríi og Ólafur. Innsetningin hans þar snerist um skynjun, líkt og sýningin hans hér.

„Ég var með stórt herbergi sem var bara hvítt og inni í því var ég með hljóðinnsetningu en allir hátalarar voru faldir. Allt sem ég geri er annaðhvort svart eða hvítt, en þetta verk hét Snjóblinda,“ segir hann og segir misjafnt á hvaða skynfæri hann leggur áherslu.

Að virkja öll skynfæri

Ertu með þessum verkum að taka tónlistina á annað plan?

„Í rauninni; tónlistin vekur mikil hughrif og hreyfir við manni. Þetta eru allt hljóðinnsetningar en maður sér líka eitthvað og lyktar af einhverju. Ég vil virkja önnur skynfæri en vanalega,“ segir hann og segist vilja bjóða upp á marglaga upplifun.

„Mig langar að láta fólk finna fyrir einhverju,“ segir hann og segir ekki marga nota lykt í innsetningum.

„Bæði tónlist og lykt eru ósýnileg en hreyfa samt við manni. Lykt er svo sterkt skynfæri en svolítið órannsakað og það er gaman að leika sér með það. Lykt getur vakið alls kyns minningar,“ segir hann og segir lyktarskyn sitt hafa þróast mikið með árunum í gegnum allt grúskið og tilraunirnar.

„Þetta er eins og með sönginn; maður þjálfast hægt og rólega og verður svo betri og betri. Ég hef sungið í fjörutíu ár og verð alltaf betri, þótt ég líti ekki á mig sem söngvara.“

Jónsi sækir innblástur til náttúrunnar sem hann segir koma sterkt fram í verkum sínum. Við ræðum verkið hans í Listasafni Reykjavíkur, Flóð.

„Flóð gerði ég fyrst fyrir safn í Seattle, en þegar ég vann verkið uppgötvaði ég að Seattle og Reykjavík eru eins konar systraborgir. Við eigum vonda veðrið og sjóinn sameiginlegan og smátt og smátt varð þetta að meiri dómsdagsspá. Verkið er um stóru ölduna sem kemur og tekur okkur burt einn daginn.“

Er þetta flóðið sem á að tortíma mannkyni, eins konar Nóaflóð?

„Já, þetta er mjög uppörvandi,“ segir hann og hlær.

„En í leiðinni mjög friðsælt og fallegt þótt þetta sé dómsdagsspá.“

Að hreyfa við sjálfum sér og öðrum

Ertu mikið að velta fyrir þér dauða og heimsendi?

„Ég er ekkert heltekinn af því en þegar maður eldist sér maður að lífið er rosalega stutt,“ segir Jónsi og segir endalausar hörmungarfréttir blasa við, bæði á fréttasíðum og samfélagsmiðlum.

„Allt sem er að herja á heiminn núna, eins og loftslagsbreytingar, er eitthvað sem maður upplifir í rauntíma en enginn gerir neitt. Maður upplifir bjargarleysi. Það er svolítið allt að fara til fjandans og við horfum öll á það hægt og rólega,“ segir hann og segir þessar pælingar allar tengjast verkinu Flóði.

Á efri hæðinni verða annars konar verk þar sem ljós mun leika stórt hlutverk.

„Þar verður risastór þunglyndislampi, sá stærsti í heimi, og eins verður hljóð sem er í takt við ljósið,“ segir hann og segist þekkja skammdegisþunglyndi af eigin raun, sem var þá að einhverju leyti kveikjan að verkinu.

Að ganga þar inn er eins og að fara í sólarlampa, nema mun ýktara, að hans sögn.

Koma þá allir glaðari út?

„Já, og tanaðri líka!“ segir hann og skellir upp úr.

„Fyrst ferðu og skoðar Flóðið og upplifir heimsendi og svo ferðu upp og hressir þig við,“ segir hann kíminn.

Að öllu gamni slepptu vill Jónsi bara skapa og kannski í leiðinni hafa áhrif.

„Ég get vonandi notað mína sköpun í eitthvað jákvætt. Það er það sem ég hef upp á að bjóða og kann og get. Ég vil fyrst og fremst hreyfa við sjálfum mér og ef það hefur áhrif á aðra er það bara frábært.“