Birkir Guðlaugsson þjónustustjóri og Steinar Már Sveinsson sölustjóri Lavango. Á komandi árum verður megináherslan á þarfir viðskiptavina innanlands.
Birkir Guðlaugsson þjónustustjóri og Steinar Már Sveinsson sölustjóri Lavango. Á komandi árum verður megináherslan á þarfir viðskiptavina innanlands.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verkefnastaðan er góð og útlit fyrir ágætis vöxt á komandi árum hjá vinnsluvélaframleiðandanum Lavango. Það var Kristján Karl Aðalsteinsson sem stofnaði félagið árið 2014 og hefur Lavango m.a. skapað sér gott orðspor fyrir sérsmíði af ýmsum toga…

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Verkefnastaðan er góð og útlit fyrir ágætis vöxt á komandi árum hjá vinnsluvélaframleiðandanum Lavango. Það var Kristján Karl Aðalsteinsson sem stofnaði félagið árið 2014 og hefur Lavango m.a. skapað sér gott orðspor fyrir sérsmíði af ýmsum toga fyrir sjárútveg, fiskeldisfyrirtæki og aðra matvælaframleiðendur. Starfsmennirnir eru í dag um 80 talsins og fer hönnun og smíði fram bæði á Íslandi og hjá starfsstöð Lavango í Litháen en auk þess að smíða eigin vinnslutæki og taka að sér smíðaverkefni fyrir aðra er Lavango með umboð fyrir danska vatnshreinsilausnafyrirtækið Ultraaqua, Elpress og fleiri.

Steinar Már Sveinsson er sölustjóri Lavango og segir hann miklar vonir bundnar við þá uppbyggingu sem fram undan er hjá íslenskum fiskeldisfyrirtækjum. Líkt og fjölmiðlar hafa greint frá er fjöldi stórra fiskeldisverkefna á teikniborðinu og munu þau kalla á stórframkvæmdir og fjárfestingu í alls kyns búnaði til að ala, slátra og verka fiskinn. „Meðal þess sem fiskeldisstöðvarnar munu þurfa er afkastamikill og áreiðanlegur vatnshreinsibúnaður en við önnumst bæði sölu, uppsetningu og viðhald búnaðar frá Ultraaqua,“ útskýrir Steinar.

Skiptir miklu fyrir rekstraröryggi og gæðamál í fiskeldi að allt vatn sem tekið er inn í eldisstöðvarnar sé vandlega hreinsað af skaðlegum örverum en Steinar segir að jafnvel þegar vatn er sótt í uppsprettur neðanjarðar sé hreinsunar þörf og er t.d. nær allt drykkjarvatn á Íslandi hreinsað áður en því er beint inn á kerfið og dælt áleiðis til heimilanna. „Örverur geta borist í vatnsból með ýmsum leiðum og gert óskunda í fiskeldi, en viðskiptavinurinn hefur töluvert svigrúm til að ákveða hve öfluga hreinsun þarf á hverjum stað. Við geislun neysluvatns er t.d. algengt að miða við 40 mj/cm2 sem m.a. gerir út af við E. coli-bakteríur,“ útskýrir Steinar og bætir við að við vatnshreinsunina séu notaðar sérstakar perur en geislunin frá þeim er það sem drepur örverurnar. „Hreinsunartækni Ultraaqua er vottuð til notkunar í fiskeldi af Norsku dýralæknasamtökunum og gæði hreinsunarinnar tryggð út líftíma peranna en í flestum tilvikum duga perurnar í tvö ár. Við mælum með reglubundnu fyrirbyggjandi viðhaldi og þeir þjónustusamningar sem við gerum við kaupendur kveða á um að perum sé skipt út áður en líftíma þeirra lýkur svo að lágmarka megi líkurnar á röskun. Þá þarf að framkvæma reglubundnar mælingar á tærleika vatnsins og stilla geislunina í samræmi við flæði vatns í gegnum hreinsibúnaðinn.“

Er gaman að segja frá því að Ultraaqua framleiðir vatnshreinsibúnað bæði fyrir stærstu eldisfyrirtæki og litlar vatnsveitur og eru minnstu hreinsitækin um 70 cm á lengd. „Þau tæki sem notuð eru í fiskeldisstöðvum og öðrum stöðum þar sem þörf er á mikilli afkastagetu eru hins vegar álíka löng og þriggja sæta sófi og í kringum 60 cm í þvermál,“ upplýsir Steinar.

Oft er einfaldleikinn bestur

Líkt og vikið var að í inngangi smíðar Lavango fjölbreytt tæki fyrir fisk- og matvælavinnslu og er félagið m.a. umsvifamikið í smíði færibanda og þekkt fyrir vandaða karahvolfara. Steinar segir að sums staðar séu þjarkar notaðir til að hvolfa úr körum en hefðbundinn karahvolfari sé alla jafna ódýrari og ráðist það af aðstæðum á hverjum stað hvor lausnin er heppilegri. „Karahvolfarinn okkar er með magasíni og getur tekið við mörgum körum í einu. Hann matar síðan hráefni inn á vinnslulínuna, hvort sem um er að ræða hrogn, fisk eða eitthvað annað,“ útskýrir Steinar en hráefninu er yfirleitt hellt yfir rist sem aðskilur t.d. heilan fisk frá ískrapa. „Svo þurfa öryggisvarnir að vera í lagi og búnaðurinn t.d. þannig hannaður að engin hætta sé á að notandi búnaðarins klemmist eða slasist.“

Þegar kemur að færiböndum segir Steinar að það sé oft einfaldleikinn sem reynist best og lágmarki líkurnar á vandræðum. „Í okkar smíði höfum við leitast við að halda verði niðri s.s. með því að nýta vel það efni sem við smíðum úr. Fæturna á færiböndunum gerum við t.d. úr stálplötum sem við beygjum til og útkoman sterkir en léttir fætur sem hafa svo til sömu eiginleika og ef þeir væru úr prófíl- eða vinkilstáli, en þessi leið við að útbúa lappir er ekki síður til komin vegna þess að hönnunin auðveldar þrif umtalsvert.“ útskýrir Steinar.

Matvælageirinn þarf vandaða smíði

Spurður um ávinninginn af því að stór hluti framleiðslu Lavango fari fram í Litháen segir Steinar að viðskiptavinir njóti góðs af því að vinnuafl er ódýrara og verð á stáli lægra í Eystrasaltslöndunum en á Íslandi og þá sé auðveldara að manna lausar stöður og tryggja langan starfsaldur á litháískum vinnumarkaði. „Við seljum og afhendum vörurnar á Íslandi, setjum þær upp og aðlögum að þörfum hvers kaupanda, en það væri ekki að því hlaupið fyrir jafnstórt fyrirtæki og okkar að finna á Íslandi nógu marga menntaða iðnaðarmenn til að anna eftirspurn. Í því sambandi er rétt að muna að við smíði á búnaði fyrir matvælavinnslu er alveg sérstaklega mikilvægt að smíðin sé vönduð og hvergi að finna litlar holur, göt eða hrjúft yfirborð þar sem bakteríur geta komið sér fyrir, og búum við að afskaplega hæfum málsmiðum bæði á Íslandi og í Litháen.“

Lavango hefur í vaxandi mæli sótt á erlenda markaði og ljóstrar Steinar því t.d. upp að fyrirtækið hafi nýverið gert tilboð í smíði búnaðar fyrir sænska verkun. „En á komandi árum reiknum við samt með að megináherslan verði á íslenska markaðinn enda stór verkefni fram undan í landeldi,“ segir hann og bætir við að innlendir framleiðendur þurfi helst að gæta sín á að þeim takist að mæta innlendri eftirspurn með sjálfbærum hætti. „Fram undan er vaxtarskeið en svo mun á einhverjum tímapunkti hægjast aftur á og þá þurfa framleiðendur líka að geta staðið við allar sínar skyldur hvað þjónustu og viðhald snertir. Að áratug liðnum verður fjöldi nýrra fyrirtækja kominn á fullan skrið, ekki síst á suðvesturhorninu en raunar í flestum öðrum landshlutum líka.“