Sjóvá styrkti smíði nýrra björgunarskipa um meira en 140 milljónir króna. Þrjú ný skip hafa verið tekin í notkun.
Sjóvá styrkti smíði nýrra björgunarskipa um meira en 140 milljónir króna. Þrjú ný skip hafa verið tekin í notkun. — Ljósmynd/Arnór Arnórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í ljósi langrar sögu Sjóvár velta eflaust margir fyrir sér hvort mikið sé um nýsköpun og þróun í tryggingabransanum. Heiður Huld segir ekki margar byltingarkenndar breytingar í greininni en þróunin sé þá stöðug, sérstaklega þar sem áralöng starfsemi …

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Í ljósi langrar sögu Sjóvár velta eflaust margir fyrir sér hvort mikið sé um nýsköpun og þróun í tryggingabransanum. Heiður Huld segir ekki margar byltingarkenndar breytingar í greininni en þróunin sé þá stöðug, sérstaklega þar sem áralöng starfsemi á þessi sviði hefur skilað ítarlegum gögnum sem nýtast til greiningar á því sem betur má fara í öryggismálum.

„Við kunnum sjótryggingar og erum með öflugt teymi viðskiptastjóra sem sérhæfa sig í útgerðum – stórum sem smáum – og hvernig umhverfið er fyrir þær. Við getum ekki séð að slysum sé endilega að fækka á sjó en alvarlegum slysum – þessi stóru líkamstjón með örkuml og jafnvel dauða – þau eru orðin sjaldgæf.

Það hefur orðið töluverð endurnýjun í skipaflotanum og í tengslum við það átt sér stað mikil þróun á sviði aðbúnaðar sjómannsins og allri aðstöðu um borð. T.a.m. er allur vélbúnaður orðinn fullkomnari og meiri sjálfvirknivæðing í vinnslunum sem kallar á aðra tegund tryggingarverndar en áður,“ segir hún og vísar til hinna miklu verðmæta um borð svo sem róbóta og ýmiskonar véla- og tækjabúnaðar.

Öryggismenningin afgerandi

Hún segir mestu breytinguna á sviði öryggis- og tryggingamála í sjávarútvegi vera bætta öryggismenningu.

„Sú kynslóð sjómanna sem nú sækja mest sjóinn setur í forgang að vera með skýrar verklagsreglur og skýra öryggismenningu. Þegar allir eru samstiga í þessu, bæði stjórnendur útgerða og sjómenn, þá næst að vinna eftir skaðaminnkandi verklagi. Það er líka okkar reynsla að þegar næstumslys verða og sjómenn tilkynna atvik í framhaldinu, og það er brugðist við, skilar það virkari öryggismenningu. Það er valdeflandi fyrir alla að taka þátt við slíkar aðstæður.“

Spurð hvað sé mikilvægasta forvörnin sem Sjóvá hefur unnið að svarar Heiður Huld:

„Við eigum samtöl við stjórnendur útgerðanna og þá getum við oft rætt greiningar á slysum, þá sjáum við oft einhverjar ákveðnar tilhneigingar, til dæmis að það sé oft verið að detta í ákveðnum stiga eða eitthvað þess háttar. Þetta eru gagnlegustu forvarnirnar því þá vinnum við með upplýsingar um það sem er raunverulega að eiga sér stað um borð og geta þá lausnir til að verjast slysum verið sniðnar að hverri útgerð og jafnvel hverju skipi. Að þessu vinnum við stöðugt í samstarfi við útgerðirnar.“

Ólíkar þarfir

Hvað er verið að tryggja þegar útgerð er annars vegar?

„Þetta fer mikið eftir stærð og verðmæti flotans sem verið er að tryggja. Það er mikilvægt að húftryggja skip, með húftryggingu er verið að tryggja skipið fyrir tjóni ef það verður fyrir skemmdum og tryggja fyrir skemmdum sem það getur valdið á öðrum skipum eða t.d. innviðum eins og bryggjum. Við þetta bætast tryggingar sem tryggja áhöfnina fyrir slysum á sjó og síðan er verið að tryggja veiðarfæri og aflann um borð.“

Gríðarlegur munur getur hins vegar verið eftir útgerðarflokkum hvert umfang trygginga sé enda mikill munur í stærð og verðmæti skipa og báta og ekki síst fjölda í áhöfn.

„Strandveiðimennirnir eru með öðruvísi iðgjaldastrúktúr og iðgjöld þeirra eru yfirleitt föst og í þeim gert ráð fyrir takmarkaðri sjósókn, bæði í húf- og áhafnatryggingum. Á meðan eru stóru útgerðirnar með þessi stóru skip sem hlaupa á hundruðum milljóna eða jafnvel milljörðum auk víðtækari trygginga af ýmsu tagi, svo sem hagsmuna-, afla- og veiðarfæratrygginga og eru þá með fleiri en eina áhöfn á hverju skipi og gera út allan ársins hring.

Samtalið snýst um þetta, að kynna sjómönnum og útgerðum hvað er í boði og hvað útgerðirnar vilja í raun og veru kaupa mikla vernd,“ útskýrir Heiður Huld.

Ný björgunarskip

Auk þess að tryggja sjávarútveginn og vinna í samstarfi við útgerðir um forvarnir hefur Sjóvá einnig aukið öryggi sjófarenda með beinum hætti, en félagið styrkti Landsbjörg um 142,5 milljónir króna til smíða á nýjum björgunarskipum.

Fyrsta nýja björgunarskipið, Þór, kom til Vestmannaeyja í lok árs 2022. Annað björgunarskipið, Sigurvin, var afhent á Siglufirði í ársbyrjun 2023 og það þriðja, Jóhannes Briem, kom til Reykjavíkur í lok árs 2023.

„Með þessu eykst öryggi sjómanna gríðarlega. Viðbragðstíminn er margfalt minni og svæðið sem skipin ná að sinna er miklu stærra,“ segir Heiður Huld og vísar til þess að skipin séu með allt að 30 sjómílna ganghraða og búin nútímatæknibúnaði svo sem hitamyndavél og botnsjá. Hafa þau þegar sannað gildi sitt og er fjórða skipið nú í smíðum. „Við hjá Sjóvá erum afar stolt af því að geta stutt við þetta umfangsmikla og mikilvæga verkefni félaga okkar hjá Landsbjörg en nýju björgunarskipin tryggja stóraukið öryggi, bæði á sjó og landi.“

Fylgt sjósókn í meira en öld

Sjóvá fagnaði hundrað ára afmæli sínu 2018 og segir um sögu félagsins á vef þess: „Sjóvátryggingarfélag Íslands var stofnað þann 20. október 1918. Á þessum árum sveið fólki nokkuð að hér á landi væri ekki starfandi innlent al-mennt vátryggingafélag, en þegar Sjóvá var stofnað störfuðu hér allmörg erlend vátryggingafélög í gegnum umboðsskrifstofur.

Stofnun Sjóvátryggingarfélags Íslands hf. var fyrsta skrefið sem stigið var hér á landi af einstaklingum, til að reka sjálfstætt, innlent tryggingahlutafélag. Stofnendur þess voru aðilar sem töldu nauðsynlegt að færa verslun og viðskipti inn í landið og veita erlendu félögunum innlenda samkeppni.

Eins og nafn félagsins ber með sér var fyrsta markmið þess að taka að sér sjóvátryggingar, bæði skipatryggingar og farmtryggingar. Smám saman færði félagið þó út kvíarnar og varð fljótlega alhliða vátryggingafélag.

Rætur Sjóvár má rekja til stofnunar Sjóvátryggingafélagsins árið 1918 og síðar Almennra trygginga sem stofnaðar voru 1943. Þau félög sameinuðust í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. árið 1989. Samnefnt félag var svo stofnað á grunni þess fyrrnefnda árið 2009 og er það í daglegu tali nefnt Sjóvá.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson