MBA-nám Aðilar frá Barcelona á Camp Nou með nemendum. Þar var farið yfir hversu mikilvæg liðsheildin er.
MBA-nám Aðilar frá Barcelona á Camp Nou með nemendum. Þar var farið yfir hversu mikilvæg liðsheildin er.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á meðal þess sem bíður MBA-nemenda við Háskóla Íslands (HÍ) á næstu önn er að spila fótbolta við liðsmenn stórveldisins Barcelona á Spáni. „MBA-námið er í samstarfi við IESE-viðskiptaháskólann í Barcelona

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Á meðal þess sem bíður MBA-nemenda við Háskóla Íslands (HÍ) á næstu önn er að spila fótbolta við liðsmenn stórveldisins Barcelona á Spáni.

„MBA-námið er í samstarfi við IESE-viðskiptaháskólann í Barcelona. Þar taka nemendur námskeiðið „Listin að leiða“ sem snýst um það hvernig þú færð samstarfsfólk þitt til að fara allt sem einn hópur í sömu átt. Námskeiðið fer að mestu leyti fram í húsakynnum IESE og þeirra færustu kennarar sjá um kennsluna. Námskeiðið fer líka fram á Camp Nou, leikvangi Barcelona, þar sem leikmenn liðsins og aðilar sem tengjast því kynna fræðin á bak við heilsteypt lið og hvernig ná megi betri árangri sem teymi. Námskeiðið endar síðan í skemmtilegum fótboltaleik með liðsmönnum stórveldisins og okkar nemendur eru afar stoltir nái þeir að skora,“ segir Ásta Dís Óladóttir, stjórnarformaður Viðskiptafræðistofnunar HÍ, sem fer fyrir Executive MBA-námi skólans.

Notið mikilla vinsælda

Ásta Dís segir í samtali við Morgunblaðið að MBA-nám við HÍ hafi frá upphafi notið mikilla vinsælda en boðið hefur verið upp á námið frá árinu 2000. Hún segir það vera hagnýtt meistaranám sem opnað hafi nýjar dyr fyrir marga einstaklinga í atvinnulífinu. Þá kveðst Ásta finna fyrir miklum áhuga á náminu.

„Við erum að kynna námið markvisst þessar vikurnar, taka á móti fólki á kynningarfundi og hitta áhugasama í kaffi þar sem við förum yfir málin. Nú standa yfir viðtöl við áhugasama einstaklinga, en umsóknafresturinn er til 5. júní nk. Þetta er alltaf skemmtilegur tími, einn hópur að klára og nýir einstaklingar að sækja um. Margir eru á ákveðnum krossgötum í lífinu og langar að breyta til og þó nokkrir aðilar sem eru með eigin rekstur vilja nýta námið og tengslanetið sem þeir öðlast til þess að stækka og útvíkka reksturinn,“ útskýrir Ásta Dís.

Spurð hvernig námið í HÍ sé frábrugðið öðru MBA-námi sem boðið er upp á hér á landi segir Ásta Dís að HÍ sé eini háskólinn sem býður upp á vottað MBA-nám á íslensku.

„Við kennum öll okkar námskeið á íslensku en námskeiðið í IESE er eðlilega á ensku. Nemendur eru mjög ánægðir með þetta. Þeir segja að þeir nái betur að fara á dýptina hverju sinni. Við kennum aðra hverja helgi á föstudögum og laugardögum sem þýðir minni fjarveru frá vinnu og fjölskyldu,“ segir hún.

Hentar með fullri vinnu

MBA-námið gerir miklar kröfur til einstaklinga en það hentar afar vel með fullri vinnu að sögn Ástu.

„Við leggjum áherslu á að þróa leiðtogahæfileika og persónulega færni hvers og eins. Við þjálfum okkar fólk í að þekkja og skilja hvaða þættir skipta máli og hvernig má koma þeim í verk. Þá vinna nemendur fjölmörg raunverkefni úr eigin starfi. Því eru margir vinnuveitendur tilbúnir að styðja fólk í MBA-nám í Háskóla íslands, þar sem það gagnast fyrirtækjunum beint.“

Ásta Dís bætir við að sjálfstraust nemenda aukist verulega í náminu. Öll áherslan sé á einstaklinginn og hvernig viðkomandi geti náð betri árangri.

„Þá viljum við virkja frumkvöðlakraftinn í hverjum og einum og fjölmargir nemendur okkar hafa gert viðskiptaáætlanir tengt sínum störfum eða til þess að stofna eigin fyrirtæki að námi loknu.“

Námið í HÍ hefur þróast í takt við breytingar í samfélaginu en grunnurinn í MBA-námi er sá sami alls staðar, að sögn Ástu. Þar á hún við námskeið sem snúa að fjármálum, stjórnun, reikningshaldi og markaðsmálum.

„Námið okkar er vottað af AMBA, alþjóðlegum samtökum sem votta MBA á heimsvísu. Rúmlega 300 skólar í heiminum hafa þá vottun en aðeins tveir hér á landi. Það er gæðastimpill.“

Ásta segir að MBA-námið í heild taki þó alltaf einhverjum breytingum og áherslan í Háskóla Íslands er að hennar sögn á sjálfbærni og stafræna þróun.

„Það birtist með einum eða öðrum hætti í öllum okkar námskeiðum. Næsta vor mun nýtt námskeið verða kennt sem snýr að því hvernig stjórnendur og leiðtogar geta nýtt gervigreindina sem best í sínu starfi. Þannig að við erum alltaf á tánum.“

Deila reynslu

Ásta Dís segir að kennarar séu margir hverjir í fremstu röð í íslensku samfélagi, en hópurinn samanstandi af kennurum úr HÍ og sérfræðingum úr atvinnulífinu. Þá segir hún að fjölmargir stjórnendur og sérfræðingar komi að hverju námskeiði. Þeir deili sinni reynslu af viðfangsefninu sem gefi nemendahópunum mjög mikið.

„Við erum svo heppin að hafa einstakt fagráð sem við leitum reglulega til með ýmis mál sem tengjast náminu,“ segir hún en í fagráðinu sitja Sveinn Sölvason forstjóri Emblu, Sigurlína Ingvarsdóttir fjárfestir og stjórnarkona, Orri Hauksson forstjóri Símans og Sigríður Benediktsdóttir lektor við Columbia-háskóla í New York.

Um inntökuferlið sem nú stendur sem hæst segir Ásta að mesta vinnan þar sé að velja inn einstaklinga sem saman mynda rétta hópinn.

„Það er áskorun að setja saman góðan nemendahóp og það fá ekki allir inngöngu. Við viljum að hópurinn sé fjölbreyttur og þar sé fólk með góða og fjölbreytta reynslu því nemendur læra ekki síður hver af öðrum í náminu. Þess vegna bendum við fólki sem er að velta fyrir sér að fara í MBA-nám hjá okkur á að námið er einstakt tækifæri til að byggja upp tengslanetið. Það er ekki bara hópurinn sem er í þínum bekk heldur kynnist hópurinn árinu á undan og árinu á eftir í gegnum ýmsa viðburði og námskeið, auk þess að kynnast kennurunum afar vel,“ segir Ásta að lokum.