Næstu laugardaga fer fram íbúakosning í Húnabyggð og Skagabyggð um sameiningu sveitarfélaganna. Kosningu lýkur 22. júní. Sveitarstjórnarlög kveða á um að sveitarfélög með færri en eitt þúsund íbúa skuli hefja formlegar sameiningarviðræður við annað…

Næstu laugardaga fer fram íbúakosning í Húnabyggð og Skagabyggð um sameiningu sveitarfélaganna. Kosningu lýkur 22. júní.

Sveitarstjórnarlög kveða á um að sveitarfélög með færri en eitt þúsund íbúa skuli hefja formlegar sameiningarviðræður við annað eða önnur sveitarfélög eða skila áliti um stöðu sveitarfélagsins og getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum. Í Húnabyggð voru 1.264 íbúar í janúar á þessu ári en aðeins 86 í Skagabyggð.

Hagsmunir unga fólksins

Erla Jónsdóttir oddviti Skagabyggðar segir að Skagabyggð sé ekki stjórnsýslulega sjálfbært sveitarfélag. Segir hún þó fleira hanga á sameiningarspýtunni en lítill íbúafjöldi og ákvæði sveitarstjórnarlaga. Fyrirhugaðar kosningar séu á grunni valkostagreiningar sem unnin var í sveitarfélaginu af starfshópi foreldra barna að tólf ára aldri úr fimm fjölskyldum. Sameiginleg niðurstaða fjögurra af fimm í starfshópnum var að undirbúa og kjósa um viðræðurnar. Kosningaaldur miðast við 16 ár, sem er lægsti heimili kosningaaldur samkvæmt sveitarstjórnarlögum. „Unga fólkið skipaði starfshópinn og við teljum unga fólkið hafa langmestra hagsmuna að gæta um okkar framtíðarskipan,“ segir Erla og bætir því við að eðlilegt sé að þau sem eldri eru fylgi skoðunum unga fólksins. Það sé sérstakt að fólk sem komið er á efri ár setji sig á móti viðræðum um sameiningu, sér í lagi ef fella á sameiningu sem unga fólkið leggur til án þess að þurfa að axla ábyrgð á að sitja í næstu sveitarstjórn sjálft. Vísar hún þar til þess að þeim sem komnir eru á eftirlaunaaldur ber ekki skylda til að taka sæti í sveitarstjórn.

Lofar vegaframkvæmdum

Innviðaráðuneytið hefur gefið sveitarfélögunum loforð sitt um umtalsverðar vegaframkvæmdir á svæðinu eftir sameiningu. „Til að sameinast um góða niðurstöðu teljum við mjög mikilvægt að hafa fengið vilyrði um þessar framkvæmdir frá ráðuneytinu,“ segir Erla, sem hvetur íbúa til þátttöku í kosningunni og að hlusta á unga fólkið. olafur@mbl.is