Brislingur nýtist í lýsi og mjöl en er einnig vinsæll til manneldis. Ráðgjöf um hámarksafla á komandi vertíð hefur lækkað um 48% frá yfirstandandi vertíð.
Brislingur nýtist í lýsi og mjöl en er einnig vinsæll til manneldis. Ráðgjöf um hámarksafla á komandi vertíð hefur lækkað um 48% frá yfirstandandi vertíð. — Ljósmynd/Havforskningsinstituttet
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sandsílastofninn í Norðursjó hefur verið stórlega ofmetinn og var gefin út ráðgjöf umfram tilefni þrátt fyrir varfærni við útgáfu upphafsráðgjafar um hámarksveiði. Þetta segja vísindamenn norsku hafrannsóknastofnunarinnar, Havforskningsinstituttet

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Sandsílastofninn í Norðursjó hefur verið stórlega ofmetinn og var gefin út ráðgjöf umfram tilefni þrátt fyrir varfærni við útgáfu upphafsráðgjafar um hámarksveiði. Þetta segja vísindamenn norsku hafrannsóknastofnunarinnar, Havforskningsinstituttet.

Í mars tilkynnti norska stofnunin að upphafsráðgjöf fyrir sandsíli í nroskri lögsögu yrði 19 þúsund tonn fyrir árið 2024 og var það lægsta upphafsráðgjöf í áratug, en endanleg ráðgjöf fyrir árið 2023 var 60 þúsund tonn og náði hún 250 þúsund tonnum 2020.

Upphafsráðgjöfin byggðist á ralli sem farið var í desember og sýndi sú mæling mjög slaka nýliðun sem hafði afgerandi áhrif á ráðgjöfina. Sögðu vísindamenn stofnunarinnar upphafsráðgjöfina upp á 19 þúsund tonn mjög varfærna nálgun og að líkur væru á að endanleg ráðgjöf yrði mun hærri.

Bergmálsmælingar í apríl sýndu hins vegar mun minna af sandsíli á öllum mælingarstöðvum og tilkynnti stofnunin í lok maí að ráðgjöfin myndi ekki breytast, auk þess var lagt til að veiði yrði aðeins leyfð á hluta af einu af fimm veiðisvæðum. Í tilkynningunni segir að þrátt fyrir varfærni hafi ráðgjöfin ekki verið nægilega íhaldssöm og er bent á að norska hafrannsóknastofnunin hefði lagt til að upphafskvótinn yrði skertur en það sé ekki hægt þar sem gildandi reglugerðir gera ekki ráð fyrir kvótaskerðingu á miðju veiðitímabili.

Þó segjast vísindamenn ekki hafa áhyggjur. „Fiskiskipaflotinn upplýsir að lítill afli fæst og að hann einbeiti sér frekar að öðrum tegundum. Það verða því ekki nærri því veidd 19 þúsund tonn,“ er haft eftir fiskifræðingnum Epen Johnsen.

Brislingur einnig höllum fæti

Það er ekki aðeins sandsílastofninn sem stendur höllum fæti og tilkynnti Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) í vor að ráðgjöf fyrir brisling í Norðursjó, Skagerrak og Kattegat myndi lækka um 48%. Ráðlagður hámarksafli fyrir tímabilið júlí 2024 til júní 2025 nemur því aðeins 75.321 tonni.

„Ráðgjöf um hámarksafla fyrir brisling lækkar vegna lélegrar nýliðunar árið 2023. Það leiðir til þess að hrygingarstofninn 2024 varð minni,“ segir fiskifræðingurinn Cecilie Kvamme í færslu á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.

Brislingur lifir ekki í meira en tvö til þrjú ár og er vinsæll á matseðli annarra sjávardýra. „Þar sem um skammlífan stofn er að ræða er stærð stofnsins breytileg upp og niður í takt við nýliðun. Stærð stofnsins getur því verið nokkuð breytileg frá ári til árs,“ útskýrir Kvamme.

Áhrif á laxeldið?

Bæði sandsíli og brislingur eru tegundir sem hafa verið nýttar mikið í lýsisgerð og framleiðslu fiskimjöls. Hinn mikli samdráttur í útgefnum heimildum í tegundum getur því haft áhrif á hráefni sem stendur afurðastöðvum til boða. Við þetta bætist lækkun ráðgjafar mikilvægra uppsjávarstofna eins og makríls og norsk-íslenskrar síldar. Má einnig nefna loðnubrest á Íslandi.

Þó vegur á móti nánast þreföldun loðnukvótans í Barentshafi og mikil aukning í ráðlögðum hámarksafla í kolmunna.

Lýsi og fiskimjöl eru mikilvæg fyrir framleiðslu fóðurs fyrir laxeldi og hefur verð á þessum vörum farið hækkandi undanfarna áratugi í takt við vöxt greinarinnar á heimsvísu. Það er því mikilvægt að nægt hráefni fáist úr sjó til að anna eftirspurn fóðurframleiðenda. Ef langvarandi lág ráðgjöf verður í fleiri uppsjávarstofnum á sama tíma má því gera ráð fyrir að þrýstingur verði á fóðurverð, en fóður er stærsti kostnaðarliður laxeldisfyrirtækja.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson