Björn Leví Gunnarsson
Björn Leví Gunnarsson
Hatrömm gagnrýni finnst víða í samfélagsumræðunni. Fólk grípur til óviðeigandi orða til þess að lýsa tilfinningum sínum. Þessa dagana beinist slík gagnrýni að forsetaframbjóðendum sem eru ásakaðir um allt á milli þess að hafa framið landráð til þess að vera elíta

Hatrömm gagnrýni finnst víða í samfélagsumræðunni. Fólk grípur til óviðeigandi orða til þess að lýsa tilfinningum sínum. Þessa dagana beinist slík gagnrýni að forsetaframbjóðendum sem eru ásakaðir um allt á milli þess að hafa framið landráð til þess að vera elíta. Hörð gagnrýni finnst víða í umræðunni. Fólk notar stór orð eins og óboðlegt, ósiðlegt, ólöglegt og spilling – með réttu eða röngu.

Gefum okkur eitt augnablik að það sé tilefni til þess að gagnrýna verk einhverra frambjóðenda. Hvað gerist þegar við sjáum harða eða hatramma gagnrýni? Margir eiga það til að hrökkva í vörn. Að finnast gagnrýnin óhófleg – sérstaklega hatramma gagnrýnin. Það er skiljanlegt. Fólk kemur yfirleitt vinum sínum til varnar. Ef fólki líkar almennt vel við þann gagnrýnda (eða jafnvel illa við gagnrýnandann), þá vill það frekar leiða gagnrýnina hjá sér – án þess að athuga hvort tilefni sé til gagnrýninnar.

Það getur gerst að reynt sé að gera harða gagnrýni að hatrammri gagnrýni. Fólk ásakað um hatur fyrir að nota stór orð. Þó að það sé ekki einu sinni að nota það stór orð. Málefnaleg gagnrýni verður erfið í slíkum aðstæðum, þar sem fylgjendur eins frambjóðanda snúa vörn í sókn og ásaka gagnrýnendur um að vera með alls kyns annarlegar hvatir eða hatur. Málefnaleg umræða verður mjög erfið í slíku umhverfi og það er mjög erfitt að vinda ofan af henni til þess að komast á einhvern málefnalegan grundvöll.

Hvað er þá til ráða? Til að byrja með þurfum við ákveðinn skilning á því að fólk sem velur að nota stór orð og jafnvel hatrömm orð er að lýsa tilfinningum sínum. Vissulega eru tröll þarna inni á milli sem eru bara að rugla í fólki – en alla jafna er fólk bara að tjá ósíaðar skoðanir sínar. Slík hávær mótmæli ættu að vera vísbending um að tilefnið sé alvarlegt. Vegna þess að því meira sem er gengið á þolinmæði fólks, því fleiri mótmæla með þeim mun meira afli.

Það er gott að staldra við og ígrunda – er tilefni gagnrýninnar það alvarlegt að það sé skiljanlegt að fólk missi stjórn á skapi sínu? Það gerir háværustu gagnrýnina auðvitað ekki málefnalega, en er hún skiljanleg? Er skiljanlegt að fólk verði reitt þegar það sér ráðherra selja hluta af ríkisfyrirtækjum til fjölskyldu sinnar, sem dæmi? Já. Réttlætir það fúkyrði? Nei.

Sem samfélag kunnum við ekki nægilega vel á gagnrýna samfélagsumræðu á tímum samfélagsmiðla. Við erum ekki góð í því að nálgast lýðræðislegar áskoranir á málefnalegan hátt – aðallega af því að við eigum í erfiðleikum með gagnrýni sem okkur finnst vera of mikil á einhvern hátt. Við eigum það nefnilega til að hrökkva í meðvirknigírinn og kvarta yfir því að fólk noti orð sem okkur mislíkar.

Með það í huga greiði ég vonandi næsta forseta Íslands atkvæði mitt.

Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is