Framkvæmdir Í lok mars var tekið til við að reisa nýja varnargarða innan þeirra sem þá þegar höfðu risið.
Framkvæmdir Í lok mars var tekið til við að reisa nýja varnargarða innan þeirra sem þá þegar höfðu risið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margt bendir til þess að kvikuhólfið sem fætt hefur hraunrennslið upp í gegnum sprungur á Sundhnúkagígaröðinni fyllist hægar nú en áður. Það er vísbending um að atburðirnir sem skekið hafa Grindavík á síðustu mánuðum séu að renna sitt skeið

Spursmál

Stefán Einar Stefánsson

ses@mbl.is

Margt bendir til þess að kvikuhólfið sem fætt hefur hraunrennslið upp í gegnum sprungur á Sundhnúkagígaröðinni fyllist hægar nú en áður. Það er vísbending um að atburðirnir sem skekið hafa Grindavík á síðustu mánuðum séu að renna sitt skeið. Þetta er mat dr. Ármanns Höskuldssonar, eldfjallafræðings og rannsóknaprófessors. Hann er gestur Spursmála þar sem sjónum er beint að nýjustu jarðhræringunum á Reykjanesskaga, sem hófust með kröftugu gosi í hádeginu á miðvikudag.

Bendir Ármann á að gosið hafi byrjað af meiri krafti en fyrri gos og að magnið sem komið hafi upp í gegnum gossprunguna hafi numið 1.000-1.300 rúmmetrum á sekúndu þegar mest lét. Nú sé flæðið um 1-2% af af því og geri í raun lítinn óskunda.

Taki við nýjum spýjum

Spurður út í ógnina gagnvart Grindavík segir hann að núverandi gos sé ekki líklegt til að valda skakkaföllum þar en hins vegar sé ekki útilokað að það komi til frekari jarðhræringa og að kraftmikið hraunrennsli geti brotið sér leið að núverandi varnargörðum sem reistir hafa verið bænum til varnar og jafnvel komist yfir þá. Þess vegna segir hann að nýir varnargarðar, sem nú þegar er tekið til við að reisa innan þeirra sem fyrst voru hlaðnir, muni geta gert gæfumuninn. Þeim sé ætlað að taka við spýjum sem mögulega finni sér farveg yfir upprunalegu garðana sem sums staðar eru lægri en hraunbreiðan sem hlaðist hefur upp í fyrri gosum.

Ármann segir að hraunið sem runnið hafi í vikunni hafi farið hratt yfir.

„Kvikan getur runnið ansi hratt. Hún er ekki eins þunnfljótandi og vatn en hún er þó þunnfljótandi og ef við höfum nægilega mikið magn þá er hún ansi fljót að fara yfir. Í sumum rásunum er þetta rúmlega 10 metrar á sekúndu og þegar maður segir það þá þýðir það að 100 metra hlaupari fer 100 metrana á níu komma eitthvað sekúndum, hraðasti maður gerir það ekki nema í 10 sekúndur.“

Aðeins í 100 metra

Þannig að Usain Bolt hefði komist undan þessu?

„Já, ef hann hefði bara þurft að hlaupa 100 metra, en ef hann hefði þurft að fara 200 metra þá hefði þetta nartað í hælana á honum.“

Segir Ármann að þetta gerist þó aðeins þar sem hraunið kemst í rásir. Ef dreifingin verður meiri út frá gosinu, hægi hratt á flæðinu.

Kerfið er í fullum gangi

Stefnir í atburði til áratuga

Ármann segir að þótt margt bendi til þess að nú taki að hægja flæði í kvikuhólfið undir Sundhnúkagígum sé ljóst að eldstöðvakerfið á svæðinu sé komið í gang og að vænta megi atburða sem teygi sig um Reykjanesið. Þeir muni vara áratugum saman. Það útiloki á sama tíma ekki að jarðhræringar geri vart við sig á fleiri stöðum, m.a. í Krýsuvík en einnig í Bláfjöllum og við Hellisheiði þar sem vart hefur orðið aukins jarðhita, m.a. undir þjóðveginum sem liggur um svæðið.

Hann bendir á að mikill lærdómur safnist nú upp í tengslum við atburðina sem skekið hafa svæðið í kringum Svartsengi og Grindavík á síðustu mánuðum og að mikilvægt sé að nýta hann til þess að bregðast við þegar aðrar eldstöðvar muni gera vart við sig.