Arnar Þór Jónsson
Arnar Þór Jónsson
Á slíkum tímum höfum við þörf fyrir sjálfstæða einstaklinga og sjálfstæða hugsun. Annars getum við ekki verið sjálfstæð þjóð.

Arnar Þór Jónsson

Í dag er hátíðisdagur því Íslendingar fá nú að velja sjöunda forseta lýðveldisins. Forseti er ekki aðeins þjóðhöfðingi heldur ein meginstoð stjórnskipunarinnar og gegnir þannig lykilhlutverki í því að varðveita sjálfstæði þjóðarinnar, verja hagsmuni almennings, tilveru okkar og frelsi. Lýðræðisbarátta – og sjálfstæðisbarátta – okkar tíma snýst um að verja innviði og auðlindir þjóðarinnar gagnvart ásælni peningavaldsins og ofurefli kerfisins. Í þessu samhengi erum við öll samherjar þegar kemur að því að verja grunnstoðir velsældar og almannahags gagnvart firringu í formi vélmenningar og tölvuvæðingar, þar sem mennskan er gengisfelld, þar sem hópar eru settir í forgrunn en einstaklingarnir hverfa áhrifalausir í fjöldann, þar sem hinn mannlegi þáttur tilverunnar á sífellt erfiðara uppdráttar andspænis fjöldaframleiðslu, skrifstofubákni, valdahyggju, tæknivæðingu, afskræmingu náttúru og gengisfellingu þess sem okkur er dýrmætast. Hvernig stuðlum við að jafnrétti í slíkum heimi? Hvernig verjum við sakleysið og hreina náttúru? Hvernig verja einstaklingarnir sjálfstæði sitt í slíku umhverfi og smáþjóðir fullveldi sitt?

Á slíkum tímum höfum við þörf fyrir sjálfstæða einstaklinga og sjálfstæða hugsun. Annars getum við ekki verið sjálfstæð þjóð. Sem sjálfstætt ríki á Ísland að vera fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi eftir því sem við á og hafa rödd, en ekki vera þögull og óvirkur farþegi eða strengjabrúða. Sem fullvalda ríki á Ísland ekki að leyfa erlendum ríkjum, ríkjasamböndum eða stórfyrirtækjum að ráðskast með auðlindir okkar og innri málefni íslenska lýðveldisins. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar eiga sjálfir að mæta þeirri ábyrgð og valdi sem þeim hefur verið falið, ekki afhenda hlutverk sitt embættismönnum eða sérfræðingum sem svara ekki til lýðræðislegrar ábyrgðar.

Allt vald þarf að tempra og það á ekki síst við um löggjafarvaldið. Í því samhengi hefur forseti stjórnskipulegar heimildir og stundum beinlínis skyldur til að veita Alþingi aðhald og eftirlit. Embættismenn hafa ekkert umboð til þess að ganga gegn eða breyta þeim lýðræðislegu forsendum sem að framan eru nefndar. Sú freisting er ávallt fyrir hendi og því rétt og skylt að viðhalda vökulli varðstöðu gegn því að menn seilist ótilhlýðilega til valds og áhrifa.

Við Íslendingar höfum margt að verja, sem fyrri kynslóðir hafa fært okkur að gjöf: Landið okkar, hreina náttúru, dýrmætar auðlindir, tungumálið, bókmenntir, sögu, menningu, frelsi okkar sjálfra og fullveldi Íslands. Á þessum stoðum hvílir hagsæld okkar nú og möguleikar okkar til framtíðar. Til að verja allt þetta megum við ekki verða ofurseld ólýðræðislegu, ómanneskjulegu kerfi. Manngildið verður ekki metið út frá framleiðslu og framleiðni.

Ég býð mig fram til að leiða þjóðina af braut alhæfinga, tillitsleysis og ofríkis, frá stjórnarfyrirkomulagi þar sem valdið kemur að ofan, því hið raunverulega vald býr hjá fólkinu, í grasrót samfélagsins. Ég treysti Íslendingum til að marka sína eigin braut á grunni frjálsrar hugsunar og sjálfstæðrar skoðanamyndunar. Til þess þurfum við upplýsingar, ekki valdboð, frjálslyndi en ekki fyrirmæli „stóra bróður“. Nú sem aldrei fyrr þurfum við að nýta hugvit og frumkvæði, hæfileika og framtak hvers einasta Íslendings, fremur en áætlanir og útreikninga seinvirks stjórnkerfis.

Verði ég kjörinn forseti lýðveldisins mátt þú, kæri lesandi, treysta því að ég mun virða sérhvern einstakling, frelsi hans og dýrmæti, þjóna íslensku samfélagi, verja yfirráðarétt Íslendinga yfir auðlindum okkar og vaka yfir landi okkar og þjóð.

Ég treysti því að þú nýtir kosningarétt þinn, samfélagi okkar til framdráttar og Íslandi til heilla.

Höfundur er forsetaframbjóðandi.