Blómafólk Frá vinstri: Ellen Ingibjörg Grétarsdóttir, Sigríður Sigurðardóttir og Þorvaldur Snorrason. Göfugt að rækta garðinn, sagði Birtíngur.
Blómafólk Frá vinstri: Ellen Ingibjörg Grétarsdóttir, Sigríður Sigurðardóttir og Þorvaldur Snorrason. Göfugt að rækta garðinn, sagði Birtíngur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skærir litir eru vinsælir í sumarblómum ársins. Á garðyrkjustöðinni Flóru við Heiðmörk í Hveragerði var til þeirra jurta sáð í janúar síðastliðnum en áður hafði eigandinn Þorvaldur Snorrason litið sem snöggvast til tískustrauma heimsins

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Skærir litir eru vinsælir í sumarblómum ársins. Á garðyrkjustöðinni Flóru við Heiðmörk í Hveragerði var til þeirra jurta sáð í janúar síðastliðnum en áður hafði eigandinn Þorvaldur Snorrason litið sem snöggvast til tískustrauma heimsins. „Ég hef gjarnan til hliðsjónar hvaða litir eru sérstaklega kynntir á sýningum í París og Mílanó. Í fyrrahaust sá ég að bleiki og skærrauði liturinn kæmu sterkir inn. Einnig blái liturinn. Samkvæmt þessu pantaði ég fræ og hóf vorverk,“ segir Þorvaldur.

Brugðið fyrir í bláu

Stjúpur og fjólur er alltaf vinsælustu sumarblómin og af þeim eru keypt kynstrin öll. Einnig taka margir blóm eins og tóbakshorn, skrautnál, silfurkamb og snædrífu, svo eitthvað sé nefnt. Úrvalið er mikið og hér er aðeins fátt eitt nefnt af blómaúrvalinu í Flóru. „Okkar stærsti markaður er Reykjavíkursvæðið; fólk þaðan kemur gjarnan hingað austur til þess að kaupa sumarblómin,“ segir Þorvaldur, sem með sínu fólki hefur rekið Flóru síðastliðin átta ár. Hann hefur þó starfað við garðyrkju mun lengur.

Forsetaframbjóðendurnir Halla Hund Logadóttir og Katrín Jakobsdóttir hafa gjarnan sést bláklæddar. Þær eru því í þeirri tísku sem kynnt var í frönsku höfuðborginni og víðar í fyrrahaust. Baldri Þórhallssyni hefur einnig séð bregða fyrir í bláu.

„Þetta með bláa litinn er auðvitað ekki strangvísindaleg nálgun hjá mér. En vissulega færist aðeins til milli ára hvaða litir eru vinsælastir. Fyrir tveimur árum vildi enginn gul sumarblóm en núna eru þau eftirsótt, sama hver tegundin er,“ tiltekur Þorvaldur, sem segir sumarvertíðina í Flóru nú komna á fullt. Vetrarstarfi skóla sé að ljúka og þá komi sumarkrakkarnir til vinnu. Alls verða um 20 manns við vinnu í sumar á garðyrkjustöðunni þar sem heimasala er stór hluti af rekstrinum. Þar eru blómin áberandi, en einnig eru þar ræktuð og seld tré og runnar, kálplöntur og fleira.

Sending á Ísafjörð

„Veðrið að undanförnu hefur verið ágætt og þá fer fólk gjarnan að vinna í garðinum sínum. Markmið margra er einmitt að hafa komið öllu í stand fyrir 17. júní og fyrir því finnum við vel í sumarblómasölu. Svo taka sveitarfélögin alltaf mikið af blómum frá okkur til þess að setja niður á opnum svæðum og í bæjargörðum. Einmitt í dag erum við að ganga frá stórri sendingu til Ísafjarðarbæjar. Í þeim pakka eru margar tegundir blóma í öllum litum,“ segir Þorvaldur.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson