„Mér fannst þær aðeins vera með yfirhöndina í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik fannst mér við gjörsamlega taka yfir. Við sköpuðum okkur mikið af færum allan leikinn og hefðum átt að sigla sigri heim,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir fyrirliði við Morgunblaðið eftir jafnteflið í Ried í gær

„Mér fannst þær aðeins vera með yfirhöndina í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik fannst mér við gjörsamlega taka yfir. Við sköpuðum okkur mikið af færum allan leikinn og hefðum átt að sigla sigri heim,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir fyrirliði við Morgunblaðið eftir jafnteflið í Ried í gær.

„En fyrst og fremst er ég ótrúlega ánægð með hvernig við unnum okkur til baka úr því að fá á okkur mark svona tiltölulega snemma í svona mikilvægum leik,“ sagði Glódís.

„Ég er svekkt yfir að hafa ekki unnið. Mér finnst það segja mikið að við vildum öll þrjú stigin frá upphafi. Þetta var mikill barningur. Það er gott fyrir okkur að við eigum leik aftur við þær á þriðjudaginn,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir við Morgunblaðið.

„Dómarinn dæmdi aðeins of mikið þannig að leikurinn var ansi oft stöðvaður. Það var erfitt að fara á fullu í allar tæklingar því við vissum að hún dæmdi á litlar sakir. Þær köstuðu sér svolítið mikið niður. Við vitum af því og gerum betur á þriðjudag,“ sagði Sveindís.

„Seinni hálfleikurinn var aðeins betri en sá fyrri. Við fengum samt tvö dauðafæri í fyrri hálfleik sem við hefðum getað gert betur úr. Við erum með blóð á tönnunum fyrir þriðjudaginn vitandi að við hefðum átt að taka þrjú stig úr þessum leik. Við erum að fara á heimavöll og Laugardalsvöllur er erfiður völlur til að koma að spila á,“ sagði Alexandra Jóhannsdóttir við Morgunblaðið.