Eftir snarpa kosningabaráttu er komið að kjósendum

Það er alltaf ákveðinn hátíðarbragur yfir kjördegi. Þá er eins og detti á logn eftir gjörningaveður kosningabaráttunnar.

Frambjóðendur og fylgismenn þeirra sem staðið hafa í eldlínunni vita að þeir hafa gert sitt til að ná til fólks og virkja það. Þeir hefðu kannski viljað hnykkja á einu atriði og koma öðru betur til skila, en vita að nú er það í höndum kjósenda hvernig fer og á kjördag eiga þeir að fá að gera upp við sig í friði hvernig þeir ætla að verja atkvæði sínu.

Embætti forseta er ekki valdamikið og í kosningabaráttunni hafa ýmsar ranghugmyndir komið fram um völdin sem því fylgja.

Þar með er hins vegar ekki sagt að það sé þýðingarlaust. Forsetinn skiptir máli í huga flestra Íslendinga og þegar mikið liggur við skiptir framganga hans máli.

Lýðræðið kann að virðast sjálfsagður hlutur í huga Íslendinga, en svo er alls ekki. Víða um heim er þrengt að lýðræðinu. Sums staðar eru umbúðir lýðræðis notaðar eins og leiktjöld fyrir einráða leiðtoga. Annars staðar er enginn þykjustuleikur og einræðið grímulaust. Lýðræðið má ekki verða svo sjálfsagt að það gleymist.

Þátttaka í kosningum hefur farið minnkandi á Íslandi, jafnt kosningum til Alþingis sem forseta. Mest var þátttakan árið 1968 þegar Kristján Eldjárn var kosinn forseti. Þá gengu 92,2% kosningabærra manna að kjörborðinu.

Fyrir fjórum árum var þátttakan aðeins 66,9%. Það er þó ekki alveg að marka því að þátttaka hefur alltaf verið minni þegar um hefur verið að ræða mótframboð gegn sitjandi forseta. Sú var ekki raunin fyrir átta árum þegar Guðni Th. Jóhannesson var kosinn forseti og kosningaþátttaka var 75,7%.

Oft hefur verið vitnað til orða Winstons Churchills – sem reyndar kvaðst vera að vitna til hins fornkveðna – að lýðræðið væri versta hugsanlega form stjórnskipunar fyrir utan reyndar öll hin formin sem reynd hefðu verið í tíma og ótíma.

Þess vegna er kjósandinn ekki bara að styðja sinn frambjóðanda með því að nýta atkvæðisréttinn, hann er að sjá lýðræðinu fyrir súrefni.