Kosningar Í kvöld eða í nótt kemur í ljós hver verður næsti forseti lýðveldisins. Nýr forseti hefur störf 1. ágúst.
Kosningar Í kvöld eða í nótt kemur í ljós hver verður næsti forseti lýðveldisins. Nýr forseti hefur störf 1. ágúst. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Alls höfðu 41.176 manns kosið utan kjörfundar í forsetakosningunum klukkan 20.20 í gærkvöldi, þegar blaðamaður Morgunblaðsins hafði samband við Ásdísi Höllu Arnardóttur, kjörstjóra hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu

Alls höfðu 41.176 manns kosið utan kjörfundar í forsetakosningunum klukkan 20.20 í gærkvöldi, þegar blaðamaður Morgunblaðsins hafði samband við Ásdísi Höllu Arnardóttur, kjörstjóra hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Utankjörfundaratkvæðagreiðslunni lauk klukkan 22. Kjörsóknin var svipuð og árið 2016, en hún var heldur meiri í síðustu forsetakosningum, árið 2020.

Ekki þykir þörf á kosningaeftirliti að mati skrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) fyrir lýðræðislegar stofnanir og mannréttindi (ODIHR). ODIHIR gaf út skýrslu með þarfagreiningu á kosningaeftirliti fyrir forsetakosningarnar. Viðmælendur skýrsluhöfunda „báru allir traust til framkvæmdar kosninganna og kosningaferilsins og getu kjörstjórna til að framkvæma kosningarnar á faglegan og gagnsæjan hátt,“ að því er segir í tilkynningu.

Miklar fylgissviptingar hafa einkennt kosningabaráttuna í ár og má það meðal annars sjá með niðurstöðum kannana Prósents. Í síðustu tveimur könnunum hefur lítill munur mælst á fylgi Katrínar Jakobsdóttur, Höllu Hrundar Logadóttur og Höllu Tómasdóttur.

Í síðustu könnuninni, sem var kynnt 30. maí, mældist Halla Tómasdóttir efst með 23,5% fylgi, Katrín með 22,2% og Halla Hrund með 22%. Baldur Þórhallsson mældist fjórði, með 14,6% fylgi. Mikið vatn hefur því runnið til sjávar síðan 27. mars þegar Baldur mældist langefstur, með 37% fylgi, 22 prósentustigum á undan Höllu Tómasdóttur sem var næst á eftir.

Baldur mældist með mest fylgi 15. apríl, 25,8%. Katrín mældist þá með 22,1% fylgi, Jón Gnarr var með 16,8% og Halla Hrund Logadóttir var þá í fjórða sæti með 10,6% fylgi. Halla Tómasdóttir var með undir 5% fylgi.

Halla Tómasdóttir mældist með 12,5% fylgi 13. maí. Halla Hrund var þá enn efst, með 26%, Katrín með 19,2% og Baldur með 17,9%. Katrín mældist efst 20. maí, með 22,1% fylgi. Halla Hrund var þá með tæp 20% skammt ofan við Baldur Þórhallsson prófessor með 18,2%. Halla Tómasdóttir mældist þá með 16,2%. anton@mbl.is