Katrín Sigurjónsdóttir
Katrín Sigurjónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjávarútvegurinn er sterk atvinnugrein í Norðurþingi, bæði á Raufarhöfn og Húsavík. Hann skiptir miklu máli fyrir atvinnulíf á þessum stöðum, styrkir hafnirnar og skilar tekjum til samfélagsins,“ segir Katrín um hlutverk greinarinnar í sveitarfélaginu

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Sjávarútvegurinn er sterk atvinnugrein í Norðurþingi, bæði á Raufarhöfn og Húsavík. Hann skiptir miklu máli fyrir atvinnulíf á þessum stöðum, styrkir hafnirnar og skilar tekjum til samfélagsins,“ segir Katrín um hlutverk greinarinnar í sveitarfélaginu.

Það liggur því í augum uppi að sjómenn gegna mikilvægu hlutverki í samfélögunum á svæðinu. „Störf sjómanna eru gríðarlega mikilvæg bæði nú og áður. Fiskveiðar hafa verið ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar og skapa miklar útflutningstekjur í þjóðarbúið. Sjómenn færa oft miklar fórnir vegna langra og erfiðra túra, á meðan missa þeir af dýrmætum tíma með fjölskyldum sínum. Á móti hafa þeir oft á tíðum þokkalegar tekjur, sem vegur upp á móti áðurnefndum fórnarkostnaði.“

Katrín telur starf sjómanna almennt mikils metið „og viðurkennt að í þessi störf þurfa að veljast jaxlar með gott úthald. Enda þurfa þeir að hafa sterk bein til að halda út langa og stranga túra, oft í leiðinlegum veðrum. Strandveiðin hefur líka yfir sér ákveðinn ævintýrablæ og gaman að sjá lífið í höfnum landsins þegar það tímabil er á fullu. Sem betur fer hafa útgerðarfélög undanfarin ár lagt fjármuni í að uppfæra skipakost og bæta aðbúnað sjómanna og það er til mikillar fyrirmyndar.“

Alger landkrabbi

Spurð hver merking sjómannadags sé í hennar huga svarar hún: „Ég er alin upp í sveit og þekkti ekki til hátíðarhalda vegna sjómennsku í barnæsku minni. Þegar ég flutti norður voru alltaf mikil hátíðarhöld á sjómannadaginn enda sjómannadagurinn hátíðisdagur allra sjómanna og fjölskyldna þeirra. Mér finnst tilhlýðilegt að heiðra sjómenn á þessum degi með því að draga fána að húni og sækja guðsþjónustu helgaða sjómönnum þar sem lagður er krans að minnismerki um sjómenn.“

Sjálf segist hún ekki hafa reynslu af sjómennsku. „Ég er alger landkrabbi og verð auðveldlega sjóveik, t.d. bara við að liggja á vindsæng í sundlaug. Þannig að ég held að ég myndi verða sett fljótt í land ef ég reyndi sjómennsku.“

Eiginmaður Katrínar, Haukur Snorrason, hefur hins vegar nokkra reynslu af sjósókn, útskýrir hún. „Hann hefur stundað margvísleg sjómannsstörf í gegnum tíðina, aðallega áður en við kynntumst. M.a. við netaveiðar, snurvoð, hörpuskel, rækjutroll, hrefnuveiðar, handfæraveiðar, línuveiðar og síldarnót. Eftir að við stofnuðum fjölskyldu ætlaði hann áfram á sjó. Við tókum hins vegar sameiginlega ákvörðun um að þó launin væru góð þá væri fórnarkostnaðurinn vegna fjarvista frá fjölskyldu ekki þess virði og hann kom alfarið í land. Hann skreppur samt stöku sinnum á sjóstöng og færir björg í bú. Sonur okkar hefur tekið nokkra túra á togara en hann vinnur núna við sjávarútveginn í landi. Hin börnin tvö hafa ekki farið á sjó og ekki ég heldur, nema rétt til skemmtunar.“

„Þetta er hátíðisdagur“

Dagskrá verður í tilefni sjómannadags að venju að sögn Katrínar. „Á Húsavík hefur verið sjómannadagsmessa og lagður krans að minnisvarða sjómanna. Það hefur oft verið skemmtileg dagskrá á sjómannadaginn á Raufarhöfn. Sigling, grill við höfnina og dæmigerðir sjómannadagsleikir eins og reiptog á milli sjómanna og landkrabba og keppni í sjómanni, hátíðarkaffi, og svo er endað á glæsilegu sjómannadagsballi í félagsheimilinu Hnitbjörgum.

Ég fór á þessa frábæru hátíð í fyrra og það var mjög gaman og góð þátttaka heimafólks í þeim viðburðum sem voru í boði. Þetta er hátíðisdagur.“