Löng sprunga myndaðist þegar áttunda eldgosið á Reykjanesskaga hófst á miðvikudag. Gosið er það kraftmesta frá því að hrinan hófst, en fljótt dró þó úr kraftinum. Miklir bólstrar stigu til himins þegar hraunið fór í grunnvatn.
Löng sprunga myndaðist þegar áttunda eldgosið á Reykjanesskaga hófst á miðvikudag. Gosið er það kraftmesta frá því að hrinan hófst, en fljótt dró þó úr kraftinum. Miklir bólstrar stigu til himins þegar hraunið fór í grunnvatn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Rúta valt á Rangárvallavegi í Fljótshlíð. Um borð voru 27, sem allir voru fluttir á sjúkrahús. Er leið á vikunna voru þeir á batavegi og höfðu allir verið útskrifaðir nema þrír

25.5.-31.5.

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Rúta valt á Rangárvallavegi í Fljótshlíð. Um borð voru 27, sem allir voru fluttir á sjúkrahús. Er leið á vikunna voru þeir á batavegi og höfðu allir verið útskrifaðir nema þrír.

Valsmenn urðu Evrópubikarmeistarar eftir sigur á gríska liðinu Olympiacos í Aþenu á laugardag. Leikið var heima og heiman. Í lok leiks var staðan jöfn eftir viðureignirnar tvær og réðust úrslit í vítakeppni. Þeir eru fyrsta íslenska félagsliðið til að verða Evrópumeistari í hópíþrótt í sögunni.

Jafnt var í forsetaslagnum samkvæmt könnun Prósents á fylgi frambjóðenda vikuna 21.-26. maí. Samkvæmt henni var Halla Hrund Logadóttir efst (21%), Halla Tómasdóttir kom þar á eftir (20,2%) og fast á hæla þeirra Katrín Jakobsdóttir (20,1%). Að teknu tilliti til skekkjumarka mátti segja að þær væru hnífjafnar. Skammt undan lónaði Baldur Þórhallsson (16,9%), en fylgi Jóns Gnarrs hafði látið undan síga (11,4%).

Sambýlisfólk fannst látið á heimili sínu í Bolungarvík á mánudag. Helgi Jensson lögreglustjóri Vestfjarða sagði ekkert benda til að saknæmur atburður hefði átt sér stað.

Til stendur að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis skoði lagalega óvissu um áfengissölu á netinu. Ekki er víst að óvissan minnki við það.

Parísarhjól mun rísa á Miðbakka í Reykjavík í byrjun júní.

Ekki er gert ráð fyrir þyrlupalli í drögum nýrrar viðbyggingar við Sjúkrahúsið á Akureyri og þyrlupallur Landspítalans við Hringbraut á að vera í Nauthólsvík. Viðar Magnússon þyrlulæknir segir þetta bagalegt þar sem hver mínúta skipti máli þegar lent er með sjúkling í lífshættu.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra hyggst kanna hvort fýsilegt sé að stofna þjóðgarð í Þórsmörk.

Efling og bæjarstarfsmannafélögin innan BSRB hafa vísað kjaradeilum sínum til sáttasemjara.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál á að skera úr um aðgang fjölmiðla og almennings að upplýsingum úr kerfinu. Dráttur hefur orðið á að niðurstöður berist frá nefndinni og hefur erindi sem Morgunblaðið leitaði úrlausnar um dankast síðan í janúar 2023.

Vegagerðin bauð út hönnun borgarlínu á 3,7 km kafla á Suðurlandsbraut.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði að pólitísk afstaða sín til netverslunar með áfengi væri sú að hún væri sjálfsögð og eðlileg viðbót við ÁTVR. „Þeir sem hafa áhuga á að stunda viðskipti með þessa vöru verða að fá betri svör frá löggjafanum um þær reglur sem um þetta eiga að gilda,“ sagði Bjarni. Stjórnendur Hagkaups hafa sagst ætla að hefja netverslun með áfengi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra sagðist ánægður með að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hygðist athuga netsölu áfengis og bætti við að auglýsingar netverslana með áfengi væru grafalvarlegt mál.

Múlalundi verður ekki lokað, heldur verður starfsemin endurskipulögð með það að markmiði að ríkið komi með fjárstuðning á ný. Múlalundur er vinnustofa SÍBS og rekinn í því skyni að skapa störf fyrir fólk með skerta starfsorku.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skar loks úr um beiðni frá Morgunblaðinu eftir að hafa haft hana til umfjöllunar í eitt og hálft ár. Árlega eru miklar fúlgur fjár endurgreiddar vegna rannsókna og þróunar. Mikil leynd hvílir yfir því hverjir fá þessar endurgreiðslur nemi þær lægri upphæð en 77 milljónum. Niðurstaðan var að sú leynd ætti fullan rétt á sér og hvorki Morgunblaðinu né almenningi kæmi við hvert féð rynni. Á síðustu sex árum hafa 37,4 milljarðar króna verið veittir og upplýst um 17,2 milljarða.

Kristján Loftsson framkvæmdastjóri Hvals segir með ólíkindum að umsókn fyrirtækisins um hvalveiðar hafi ekki verið svarað. Hún hafi legið óhreyfð í matvælaráðuneytinu í fjóra mánuði.

Hátt á fimmta tug nýrra umferðarmerkja er komið í umferð.

Icelandair tilkynnti að 82 starfsmönnum flugfélagsins hefði verið sagt upp, meðal annars vegna aukins launakostnaðar og minnkandi eftirspurnar.

Áttunda eldgosið hófst á Reykjanesskaga upp úr hádegi á miðvikudag. Gosið var kraftmeira í upphafi en fyrri gos og flokkast sem sprengigos, sem verður til þegar kvika fer í grunnvatn. Lögreglan á Suðurnesjum lýsti yfir neyðarstigi á svæðinu.

Valur varð Íslandsmeistari karla í körfubolta á miðvikudag með sigri á Grindavík 80:73 í oddaleik. Valur vann þrjá leiki í úrslitaviðureign liðanna og Grindavík tvo.

FH varð Íslandsmeistari karla í handbolta á miðvikudag með því að sigra Aftureldingu 31:27 í Mosfellsbæ. FH sigraði í þremur leikjum, en Afturelding vann einn leik.

Margrét Ágústa Sigurðardóttir tekur við starfi framkvæmdastjóra Bændasamtakanna 1. ágúst.

Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar sagði að stofunin stæði við fyrri ráðgjöf um að veiða mætti allt að 161 langreyði í sumar.

Bókasöfn í Reykjavík verða lokuð í sumar. Þau eru átta og verður lokað til skiptis þannig að öll séu ekki lokuð á sama tíma.

Tekjur af komu skemmtiferðaskipa til landsins námu í fyrra 40 milljörðum króna ef marka má greiningu Reykjavík Economics fyrir Faxaflóahafnir.

Kappræður fóru fram á fimmtudag í höfuðstöðvum Morgunblaðsins í Hádegismóum milli þeirra fimm frambjóðenda sem hafa verið efstir í skoðanakönnunum og fóru fram lífleg skoðanaskipti.

Síðasta skoðanakönnun Prósents var birt í upphafi kappræðnanna. Hún var gerð dagana 27.-30. maí. Samkvæmt henni var Halla Tómasdóttir efst (23,5%), Katrín Jakobsdóttir í öðru sæti (22,2%) og Halla Hrund Logadóttir í því þriðja (22%). Á fimmtudagsmorgun birtist könnun frá Gallup þar sem Halla Tómasdóttir og Katrín Jakobsdóttir voru efstar og hnífjafnar með 24,1% og Halla Hrund komin niður í 18,4%. Síðdegis á fimmtudag birtist einnig könnun frá Félagsvísindastofnun HÍ þar sem Katrín var efst (26,3%) og Höllurnar með rúm 18%.

Seltjarnarnesbær hefur ákveðið að Grunnskóli Seltjarnarness verði að tveimur sjálfstæðum skólum, Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla, næsta vetur.

Eftir allt uppnámið í kringum áform Landsbankans um að kaupa tryggingafélagið TM og opinber mótmæli þáverandi fjármálaráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, hafa stjórnendur bankans ákveðið að halda sínu striki. Á fimmtudag var undirritaður samningur um kaup Landsbankans á öllu hlutafé TM.

Margréti Helgu Jóhannsdóttur leikkonu voru veitt heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands þegar Gríman var afhent á fimmtudagskvöld. Margrét Helga hefur leikið yfir 200 hlutverk á ferlinum.

Leikritin Saknaðarilmur og Ást Fedru hlutu fern Grímuverðlaun hvort.

Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi verður kosið um það hvort kjósa eigi um nýtt nafn á sveitarfélaginu samhliða forsetakosningunum. Verði það samþykkt mun fara fram keppni um tillögur.

Tvítugur karlmaður, sem var saknað eftir að hafa fallið í Fnjóská á fimmtudag, fannst látinn á föstudag í ánni í Dalsmynni, norðvestan við Ártún í Grýtubakkahreppi.

Á föstudag hafði dregið talsvert úr virkni gossins sem hófst á Reykjanesi á miðvikudag. Í upphafi var hraunflæðið 1.500-2.000 rúmmetrar á sekúndu, en var komið niður í 50 rúmmetra á föstudag.