Warsha segir nemendur Sjávarútvegsháskóla SÞ öðlast á Íslandi þekkingu sem styrkir þá í faglegu rannsóknar- og stefnumótunarstarfi í sínu heimalandi.
Warsha segir nemendur Sjávarútvegsháskóla SÞ öðlast á Íslandi þekkingu sem styrkir þá í faglegu rannsóknar- og stefnumótunarstarfi í sínu heimalandi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það á eflaust við um marga lesendur að flesta daga ársins gætu þeir miklu frekar hugsað sér að vera í góða veðrinu suður á Fídjí en í slyddu, snjókomu og rökkri uppi á Íslandi. Warsha Singh, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, hlær þegar…

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Það á eflaust við um marga lesendur að flesta daga ársins gætu þeir miklu frekar hugsað sér að vera í góða veðrinu suður á Fídjí en í slyddu, snjókomu og rökkri uppi á Íslandi. Warsha Singh, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, hlær þegar blaðamaður spyr hana hvað hún var eiginlega að hugsa að ferðast alla leið frá sólríku paradísareyjunni í Kyrrahafinu til að setjast að á Íslandi. Sagan hófst þegar hún fékk áhuga á lífríki sjávar sem unglingur:

„Að menntaskóla loknum afréð ég að leggja stund á háskólanám í sjávarlíffræði heima á Fídjí, þar sem ég er fædd og uppalin. Í framhaldinu fékk ég starf hjá sjávarútvegsráðuneytinu þar og í gegnum þá stöðu bauðst mér að sitja námskeið hjá Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi,“ segir Warsha sem kom fyrst til Íslands árið 2005.

Að námskeiðinu loknu sneri Warsha aftur til Fídjí og starfaði þar um skeið við Suður-Kyrrahafsháskólann, en bauðst svo námsstyrkur og skólapláss hjá Háskóla Íslands þar sem hún lauk mastersgráðu í umhverfisfræðum og síðar doktorsgráðu í gerð vistfræðilíkana. Hún tók líka að sér kennslustörf hjá Sjávarútvegsháskólanum og gekk að lokum til liðs við Hafrannsóknastofnun árið 2018.

„Og einhvers staðar á leiðinni kynntist ég íslenska manninum mínum og við eignuðumst barn á meðan ég var í doktorsnáminu. Hann starfar við að gera tæknibrellur fyrir kvikmyndir og fluttum við um skeið til Los Angeles en snerum aftur til Reykjavíkur þar sem hann fékk starf hjá íslensku kvikmyndagerðarfyrirtæki,“ útskýrir Warsha.

Oft virðist fólk frá sólríkum og heitum löndum eiga erfitt með að aðlagast aðstæðum á Íslandi en það átti ekki við um Wörshu. „Á Fídjí er sumar allt árið um kring, en mér finnst betra að vera á stað þar sem ólíkar árstíðir skiptast á. Myrkrið yfir vetrarmánuðina hefur aldrei truflað mig en það tók meira á að venjast löngum sumardögunum. Heilt á litið var það lítill vandi fyrir mig að aðlagast Íslandi þó að ég hafi ekkert sérstaklega gaman af því þegar úti er mikið rok, hvað þá þegar vindurinn blæs framan í mig köldum snjóflygsum.“

Warsha minnir á að það geti líka kallað á aðlögun fyrir Íslending að venjast lífinu á sólríkri eyju þar sem pálmatrén teygja sig til himins og ljósbláar öldur hafsins gæla blíðlega við hvítar sandstrendur. „Þegar ég fór með manninn minn til Fídjí vildi hann endilega fara í göngutúr um miðjan dag og skoða sig um, en ég reyndi að sannfæra hann um að það væri ekki góð hugmynd. Í svona heitum löndum er fólk yfirleitt ekki mikið á ferli þegar sólin er hæst á lofti og eftir að hafa arkað um í steikjandi hita í tuttugu mínútur sá maðurinn minn að það væri kannski betra að bíða með gönguferðina þar til sólin væri sest,“ segir Warsha glettin.

Aðrar aðstæður sem kalla á annars konar kerfi

Störf Wörshu hjá Hafró snúa einkum að ástandi íslenska loðnustofnsins og segir hún að frá sjónarhóli fræðimannsins sé lífríkið í hafinu umhverfis Íslands á margan hátt áhugaverðara rannsóknarefni en þær sjávarlífverur sem synda og svífa um heitt og sólríkt Kyrrahafið. Nýting veiðistofna er líka með allt öðrum hætti á Fídjí en á Íslandi en hægt að yfirfæra sumt af því sem íslenskir fræðimenn hafa lært um ábyrga stjórnun fiskveiða. „Túnfiskur er einna verðmætastur af þeim afla sem sjómenn á Fídjí færa í land en fiskinn veiða þeir á mjög stóru hafsvæði og er veiðunum stýrt af fjölþjóðlegum samtökum. Er því um allt annars konar verkefni að ræða en sjálfbæra nýtingu stofna innan íslensku fiskveiðilögsögunnar, en samt margt sem reynsla Íslendinga getur kennt íbúum Fídjí s.s. um öflun og úrvinnslu gagna.“

Þá byggist sjávarútvegur á Fídjí að stórum hluta á smábátum sem halda út til veiða daglega og koma með lítinn afla að landi sem sjómaðurinn selur í sínu þorpi. „Þetta eru mikilvægar veiðar fyrir íbúana á hverju svæði sem oft lifa við eða undir fátæktarmörkum, og getur verið aðferðafræðileg áskorun fyrir rannsakendur að mæla þessar veiðar rétt og ákvarða hve góð gögn fást t.d. með stikkprufum“, segir Warsha.

Oft er það nefnt í íslenskri samfélagsumræðu að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið eigi að vera öðrum þjóðum fyrirmynd enda sýni reynslan að sú nálgun sem beitt var á Íslandi hafi leitt til ábyrgra veiða og aukinnar verðmætasköpunar. Warsha segir lausnir á borð við íslenska kvótakerfið þó greinilega ekki eiga við alls staðar enda geti aðstæður verið mjög breytilegar á milli fiskveiðiþjóða. „En hjá Sjávarútvegsháskóla SÞ er nemendum veitt fjölþætt menntun um fiskveiðar og rannsóknir á lífríki sjávar og felst virði námsins ekki síst í því að þar er beitt heildrænni nálgun og nemendur snúa heim með þekkingu í farteskinu til að halda áfram vönduðu rannsóknar- og stefnumótunarstarfi í sínu landi.“

Margt sem við eigum eftir að skilja betur

Um þau störf Wörshu sem fást við stofnmælingar og mat á ástandi uppsjávartegunda segir hún að æskilegt væri að beina meira fjármagni til rannsókna á tegundum á borð við loðnu og að margt sé enn á huldu varðandi lífsferil og hegðun stofna sem íslenskur sjávarútvegur reiðir sig á. „Því meiri gögnum sem við getum safnað saman og unnið úr, því betur getum við áttað okkur á hverju skrefi í lífsferli stofnanna og hvernig þættir í umhverfinu geta orðið þess valdandi að stofnar stækka eða minnka. Með meiri og betri gögn í höndunum mætti líka reikna með minni vikmörkum í útreikningum og þar með auknu svigrúmi til að ákvarða meiri kvóta frekar en minni.“