Meyvant Þórólfsson
Meyvant Þórólfsson
Tíu röksemdir sem styðja að Arnar Þór Jónsson verði 7. forseti íslenska lýðveldisins.

Meyvant Þórólfsson

Eftirfarandi tíu röksemdir styðja að Arnar Þór Jónsson verði sjöundi forseti íslenska lýðveldisins:

Arnar hefur varað við kröfu ESA um bókun 35 og lítur á fyrirhugaða samþykkt hennar sem uppgjöf í hagsmunagæslu fyrir Ísland, auk þess sem aðferðafræði íslenskra stjórnvalda í því máli brjóti í bága við stjórnarskrá Íslands. Evrópurétturinn má aldrei öðlast forgang fram yfir íslensk lög.

Að hans mati hefði átt að bera þá örlagaríku stefnubreytingu íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum undir ríkisráðsfund, að taka beinan þátt í stríðsrekstri ríkis utan NATO, og varhugavert að ráðherra í ríkisstjórn Íslands geti leikið einleik í svo afdrifaríku máli. Að auki telur hann mikilvægt að stíga varlega til jarðar í afstöðu til allra stríðsátaka sem nú geisa um víða veröld.

Fólkið í landinu er hinn eiginlegi valdhafi, ekki kjörnir fulltrúar sem koma og fara. Þess vegna segist Arnar ófeiminn við að nýta málskotsréttinn, ef teflt er í tvísýnu stjórnarskrárvörðum réttindum Íslendinga, yfirráðarétti þjóðarinnar yfir eigin landi eða verið er að framselja vald eða selja auðlindir.

Arnar hefur bent á að heimurinn hafi breyst umtalsvert á þeim 30 árum sem liðin eru frá tilkomu EES-samningsins. Þess vegna komi til greina að Ísland segi sig frá honum, ef sjálfstæði landsins er ógnað vegna síbreytilegra túlkana á honum. Dyr standa eftir sem áður opnar fyrir viðskipti, menningarleg samskipti, menntun og störf.

Evrópusambandið hefur sætt gagnrýni vegna þess að ákvarðanir eru teknar af embættismönnum sem fólk hefur ekki kosið. Stefnumótun fer fram á bak við luktar dyr án þess að almenningur fái að tjá sig, skrifræði hefur aukist, stjórnarskrifstofur Evrópusambandsins eru gerðar miðlægar en ekki þingið. Arnar telur því ekki skynsamlegt að aðhyllast Evrópusambandsaðild.

Að mati Arnars verðum við að gera það upp við okkur hvort við viljum verða farþegar í regluverki Evrópusambandsins og hvort við séum sátt við að lúta kröfum embættismannakerfis Evrópusambandsins sem heggur sífellt nær sjálfstæði okkar, m.a. í orkumálum.

Arnar skilgreinir sig hvorki sem hægri- né vinstrimann í pólitík heldur baráttumann gegn hvers kyns valdboði og stendur vörð um mannréttindi og lýðræði. Hann sagði sig frá stjórnmálum þar sem hann valdi að feta ekki tilteknar flokkslínur honum á móti skapi, til dæmis í orkumálum og utanríkismálum.

Hann vill standa vörð um málefnalega og gagnrýna umræðu. Þannig geti almenningur lagt fram spurningar og málefnalega gagnrýni gagnvart aðgerðum valdhafa, jafnt í flóknum málum á borð við loftslagsvá og heimsfaraldur sem öðrum. Styðjast þarf við bestu vísindalegu þekkingu en varast að tilbiðja tilteknar vísindakenningar.

Að mati Arnars er það rökvilla að halda því fram að sjónarmið sé rétt ef meiri hluti manna styður það. Þess vegna þurfum við að verja hinn frjálsa vettvang umræðunnar og hrópa ekki fólk niður eða þagga niður í því.

Svar Arnars í Forystusætinu 16. maí síðastliðinn við þeirri undarlegu spurningu fyrirspyrjanda RÚV hvort hann yrði jafnt forseti þeirra sem væru kristnir og þeirra sem væru ekki kristnir: „Ég sem frjálslyndur maður í klassískum skilningi virði trúfrelsi og virði rétt sérhvers manns til að leita að ljósi og sannleika á sínum forsendum og ég vil ekki þvinga menn til nokkurs hlutar og allra síst til að trúa því sem þeir vilja ekki trúa.“

Höfundur er háskólakennari á eftirlaunum.

Höf.: Meyvant Þórólfsson