Allar tilraunir til að telja kjósendum trú um að forsetaembættið sé eitthvað annað en það er samkvæmt stjórnlögum landsins eru dæmdar til að misheppnast.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Í ár eru 120 ár frá því að þingræði kom til sögunnar hér á landi. Í tilefni af 100 ára afmælinu árið 2004 ákvað forsætisnefnd alþingis að standa að ritun bókar um sögu þingræðis hér og kom hún út hjá Forlaginu árið 2011.

Í inngangsorðum bókarinnar, sem geymir ritsmíðar eftir ýmsa fræðimenn, segir að um þetta „grundvallareinkenni stjórnskipunarinnar“ hafi „ótrúlega lítið verið fjallað í íslenskum fræðaskrifum“. Bent er á að umræður um stöðu alþingis í stjórnskipuninni m.a. eftir hrunið 2008 hafi „sýnt að þingræðið er spennandi og oft á tímum umdeilt í samtímanum“. Það hafi „mikil áhrif á aðra þætti stjórnskipunar ríkisins“.

Þetta er rifjað upp hér þegar gengið er til almennra kosninga um forseta lýðveldisins á 80. afmælisári þess og frá því að fyrsti forsetinn, Sveinn Björnsson, var valinn. Hann var ekki kjörinn í almennri kosningu heldur á hátíðarfundi sameinaðs alþingis á Lögbergi við Almannagjá á Þingvöllum 17. júní 1944.

Þá var rætt hvaða skipan ætti að hafa við kjör forseta framvegis og varð niðurstaðan að hann skyldi valinn á þann hátt sem við síðan þekkjum, það er í einni umferð í almennri kosningu.

Að forseti sé þjóðkjörinn hróflar ekki við þingræðisreglunni um að við stjórnarmyndanir bindi meirihluti alþingis hendur forseta við val á forsætisráðherra og þeim sem skipa ráðherraembætti. Þá getur forseti ekki einn og óstuddur rofið þing og boðað til kosninga. Til þess þarf atbeina forsætisráðherra.

Undir lok bókarinnar Þingræði á Íslandi – samtíð og saga segir Þorsteinn Magnússon, stjórnmálafræðingur og aðstoðarskrifstofustjóri alþingis, að miðað við hlutverk þingsins sé eðlilegra að tala um „hlutverk þingvaldsins“ en um handhafa löggjafarvaldsins þar eð löggjafarvaldið sé aðeins einn þáttur þess valds sem alþingi hafi samkvæmt stjórnarskránni. Aðrir þættir þingvaldsins séu ekki síður mikilvægir, þ.e. fjárstjórnarvaldið, eftirlitsvaldið og landsstjórnarvaldið.

Í löggjafarvaldinu felst stjórnarskrárvaldið. Vorið 2009 var gerð alvarleg tilraun til að svipta alþingi stjórnarskrárvaldinu og fela það sérstöku stjórnlagaþingi. Þingmenn stóðu gegn því en af tilrauninni spratt nokkrum misserum síðar skjal sem varð þekkt undir heitinu „nýja stjórnarskráin“ og breyttist í lokin í einhvers konar gjörning og kröfur á götum úti án þess að nokkrum væri að fullu ljóst hvað í plagginu stóð. Ólafur Ragnar Grímsson, þáv. forseti, beitti sér af hörku gegn því.

Það er á valdi alþingismanna að gera breytingar á stjórnarskránni, meðal annars í þá veru að afnema almennt kjör forseta Íslands og færa kosninguna að nýju inn í þingsalinn. Engar hugmyndir eru uppi um slíka breytingu. Ekki kæmi þó á óvart að kosningabaráttan sem lýkur í dag hafi vakið marga til umhugsunar um framtíð forsetaembættisins. Því hefur oftar en einu sinni verið hreyft í opinberum umræðum að það sé í raun óþarft tildurembætti. Hér er ekki tekið undir það.

Nú þegar rétt 20 ár eru frá því að Ólafur Ragnar Grímsson beitti í fyrsta sinn synjunarvaldi gegn lögum tala ýmsir forsetaframbjóðendur eins og þeir séu í framboði gegn alþingismönnum eða jafnvel sjálfu alþingi. Það sé hlutverk forseta að tala um fyrir þingmönnum og takist honum ekki að fá þá á sitt band með umvöndunum geti hann hótað að beita valdi sínu til að leggja ágreining sinn við þingheim undir dóm kjósenda.

Forseta Íslands er hvergi falið slíkt vald. Það er fyrst og síðast hlutverk stjórnarandstöðu á alþingi að veita meirihluta þar og þar með ríkisstjórninni aðhald. Forseti hefur hvorki umboð né heimild til að verða eins konar staðgengill stjórnarandstöðu.

Í fyrrnefndri bók um þingræðið bendir Þorsteinn Magnússon réttilega á að eftirlitið með meirihluta á þingi og þar með framkvæmdavaldinu sé og hafi fyrst og fremst verið á hendi stjórnarandstöðunnar. Hann segir:

„Þau skörpu skil sem skapast milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu í meirihlutaþingræði þýða því að það kemur fyrst og fremst í hlut þingmanna stjórnarandstöðu að hafa eftirlit með handhöfum framkvæmdavaldsins og veita ríkisstjórn pólitískt aðhald.“

Í vikunni sagði löglærður höfundur í stuðningsgrein hér í blaðinu að ríkisstjórnir hefðu komist upp með alls kyns lagafrumvörp í skjóli þess trausts að forsetinn sem héldi á neitunarvaldi lagasetninga mundi ekki beita þessu valdi sínu.

Forseta Íslands er hvergi ætlað slíkt pólitískt aðhald. Þorsteinn Pálsson, fyrrv. forsætisráðherra, segir á dv.is í vikunni að tilhneiging virðist vera til að „nota úrelt og óskýr ákvæði stjórnarskrárinnar til þess að breyta forsetaembættinu smám saman á þann veg að á Bessastöðum sitji einstaklingur sem leiði ríkisstjórnina eins og foreldri barn“. Í stjórnarskránni sé hins vegar hvergi að finna fót fyrir því að forsetaembættið hafi teljandi málefnalega þýðingu fyrir fólkið í landinu.

Um leið og undir þessi orð er tekið skal fullyrt að allar tilraunir til að telja kjósendum trú um að forsetaembættið sé eitthvað annað en það er samkvæmt stjórnlögum landsins séu dæmdar til að misheppnast.

Forseti Íslands vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni við innsetningu í embættið. Mörg orð sumra frambjóðenda um það sem þeir ætla að gera nái þeir kjöri benda hins vegar til virðingarleysis fyrir stjórnarskránni og ákvæðum hennar. Loforðin falla einfaldlega dauð við embættistöku nema heitið þar sé marklaust. Við slík svik stæði hnípin þjóð í vanda.