Við Stonehenge Kolbrún, Eiríkur og dætur á ferðalagi á Englandi 2023. Elsta barnið, Kolbjörn, var ekki með í för.
Við Stonehenge Kolbrún, Eiríkur og dætur á ferðalagi á Englandi 2023. Elsta barnið, Kolbjörn, var ekki með í för.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kolbrún Hrafnkelsdóttir fæddist 1. júní 1974 og ólst upp á Hrauni í Ölfusi. Foreldrar Kolbrúnar eru garðyrkjubændur og voru lengst af meðal stærstu gulrófnaframleiðenda landsins, einnig voru þau með stórt fjárbú með föðurforeldrum hennar, tók Kolbrún virkan þátt í bústörfunum á uppvaxtarárunum

Kolbrún Hrafnkelsdóttir fæddist 1. júní 1974 og ólst upp á Hrauni í Ölfusi. Foreldrar Kolbrúnar eru garðyrkjubændur og voru lengst af meðal stærstu gulrófnaframleiðenda landsins, einnig voru þau með stórt fjárbú með föðurforeldrum hennar, tók Kolbrún virkan þátt í bústörfunum á uppvaxtarárunum.

„Ég var svo heppin að alast upp í sveitinni, en þar bjuggu einnig afi og amma. Ég byrjaði oftast um helgar í fjárhúsunum með afa og þar voru umræðuefnin fjölbreytt, afi hafði sterkar skoðanir og var ótrúlega fróður. Ég vil meina að ég hafi erft forvitnina frá honum.“

Á Hrauni er fjölbreyttur búskapur, sand- og grjótnámur, veiði, sölvatekja, hrossarækt og skógrækt. Foreldrar Kolbrúnar búa enn á Hrauni og hún hefur alla tíð haft sterkar taugar til sveitarinnar. „Ég vil flytja aftur heim sem fyrst, við erum komin með fallegt byggingarland á jörðinni sem við erum að skipuleggja. Það verður gaman að flytja aftur í Ölfusið.“

Eftir að grunnskólagöngu í Hveragerði lauk lá leiðin í Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem Kolbrún útskrifaðist af eðlisfræðibraut og síðan sem lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands árið 2000. Á næstu árum vann Kolbrún við grunnrannsóknir á sviði lyfjaþróunar og ónæmisfræði bæði á Íslandi og einnig í Hollandi á meðan eiginmaður hennar stundaði nám í Rotterdam. Kolbrún fór í MBA-nám við Háskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan árið 2007. Hún byrjaði að vinna sem hópstjóri á þróunarsviði Actavis meðan á náminu stóð og stýrði þar stóru umbótaverkefni. Teymið samanstóð af alþjóðlegum hópi sérfræðinga sem vann að fjölda verkefna víða um heim.

Kolbrún er stofnandi lyfjafyrirtækisins Florealis sem markaðssetur jurtalyf og heilsuvörur, aðallega á Norðurlöndunum. Florealis var stofnað árið 2013 og hún var forstjóri félagsins fyrstu 10 árin og er nú í stjórn þess. Kolbrún hefur verið mjög virk í málefnum nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar á Íslandi og komið að fjölbreyttum verkefnum á því sviði. Hún hefur verið leiðbeinandi frumkvöðla, setið í stjórn Samtaka sprotafyrirtækja og Viðskiptaráðs Íslands, situr í varastjórn Samtaka iðnaðarins og í Vísinda- og nýsköpunarráði sem vinnur að stefnumótun og samhæfingu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar á Íslandi. „Ég er einnig í stjórn tveggja vaxtarfyrirtækja sem er mjög gefandi og skemmtilegt.“

Kolbrún starfar sem verkefnastjóri grænna iðngarða í Ölfusi, vaxtarmöguleikar á svæðinu eru miklir og þar hefur átt sér stað öflug atvinnuuppbygging og nýsköpun undanfarin ár.

„Það eru miklar breytingar varðandi hugmyndafræði og nálgun á uppbyggingu iðnaðarsvæða, sem gerir þetta svið mjög spennandi. Sterk sjálfbær atvinnuuppbygging er grunnur áframhaldandi hagsældar og góðs mannlífs. Ég er fædd og uppalin í Ölfusi og finnst mjög spennandi að fá tækifæri til að vinna að frekari framþróun og atvinnuuppbyggingu á svæðinu.“

Kolbrún er lífsglöð, félagslynd og vill hafa nóg fyrir stafni. Hún hefur mikinn áhuga á tónlist, spilar sjálf á píanó og byrjar morgnana yfirleitt á að aðstoða dætur sínar sem hafa stundað suzuki-tónlistarnám frá unga aldri. Ræktunaráhugann hefur hún frá foreldrum sínum, hún leigir land fyrir matjurtaræktun, en auk þess eyðir hún miklum tíma í sínum eigin garði sem hún hefur unnið að mestu leyti sjálf frá grunni.

Kolbrún hefur mikinn áhuga á textíl, hún er nýkomin með vefstól, prjónar, saumar, vinnur úr ull og saumar út. Fyrir rúmu ári kláraði hún íslenska riddarateppið sem er þriggja fermetra veggmynd með hinum skemmtilega gamla íslenska fléttusaumi. „Það gefur mér mest að vinna verkefni sem tengjast menningarverðmætum okkar eða náttúrunni.“

Kolbrún er náttúrubarn og hefur gaman af því að ganga í náttúru Íslands, fjölskyldan fer mikið á svigskíði, en síðan hún byrjaði í golfi hefur það tekið yfir. „Golfið býður upp á svo margt, það er tæknilega erfitt sem er stöðug áskorun og auk þess er þetta er frábær leið til að vera í streitulausu umhverfi í náttúrunni með skemmtilegt og lífsglatt fólk í kringum mig,“ segir Kolbrún með bros á vör.

Fjölskylda

Eiginmaður Kolbrúnar er Eiríkur Magnús Jensson, f. 23.11. 1973, framkvæmdastjóri fjármálasviðs í Kviku banka. Þau gengu í hjónaband 27.12. 1998 og eru búsett í Þingahverfi við Elliðavatn í Kópavogi.

Foreldrar Eiríks voru hjónin Herborg Húsgarð lífeindafræðingur, fædd í Syðri-Götu í Færeyjum 18.2. 1932, d. 23.1. 1991, og Jens Tómasson jarðfræðingur, fæddur í Hnífsdal 22.9. 1925, d. 24.10. 2012.

Börn Kolbrúnar og Eiríks eru Magnús Kolbjörn, f. 25.6. 1996, Anna Húsgarð, f. 18.6. 2009, og Sigríður Edda, f. 18.11. 2010.

Systur Kolbrúnar eru Steinunn Hrafnkelsdóttir, f. 9.2. 1972, BA í sálfræði, og Brynja Hrafnkelsdóttir, f. 29.9. 1982, skógarskordýrafræðingur.

Foreldrar Kolbrúnar eru hjónin Sigríður Gestsdóttir, f. 8.5. 1953, og Hrafnkell Karlsson, f. 10.7. 1949, bændur á Hrauni í Ölfusi.