Matthías Sveinsson fyrir framan nýja framleiðsluhúsið. Eins og sést á myndinni er byggingin engin smásmíði.
Matthías Sveinsson fyrir framan nýja framleiðsluhúsið. Eins og sést á myndinni er byggingin engin smásmíði. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tímamót eru fram undan í sögu bátasmiðjunnar Víkingbáta í Hafnarfirði því nú er verið að leggja lokahönd á nýtt og betra húsnæði sem mun gera fyrirtækinu kleift að sinna fleiri og stærri verkefnum. Matthías Sveinsson er framkvæmdastjóri Víkingbáta…

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Tímamót eru fram undan í sögu bátasmiðjunnar Víkingbáta í Hafnarfirði því nú er verið að leggja lokahönd á nýtt og betra húsnæði sem mun gera fyrirtækinu kleift að sinna fleiri og stærri verkefnum.

Matthías Sveinsson er framkvæmdastjóri Víkingbáta og segir hann að í nýja húsnæðinu sé bæði hátt til lofts og vítt til veggja en risavaxnar hurðir eru á byggingunni svo að hægur vandi er að koma stærri smíði inn og út úr verksmiðjurýminu, en ólíkt eldri aðstöðu félagsins er nýja húsnæðið á hafnarsvæðinu og mun það auðvelda sjósetningu til muna.

„En við stefnum að því að útvíkka sjóndeildarhringinn og taka að okkur fjölbreyttari verkefni fyrir sjávarútveg og landeldi,“ segir Matthías og bendir á að á teikniborðinu sé mikil uppbygging í landeldi sem muni kalla á smíði stórra og sterkbyggðra kera, auk þess að starfsemi eldisfyrirtækjana mun útheimta afkastamikinn dælubúnað, lagnaleiðir og stýringar. „Við höfum þegar reynslu af smíðaverkefnum af þessum toga og steyputm t.d. lagnir fyrir túrbínur Reykjanesvirkjunar fyrir tveimur árum og getum steypt úr nánast öllum efnum sem viðskiptavinurinn biður um.“

850 smábátar í íslenska flotanum

Víkingbátar eru ungt fyrirtæki, stofnað af framsýnum athafnamönnum árið 2013. Kjarnastarfsemin byggist þó á eldri grunni en félagið hefur sérhæft sig í smíði Sóma- og Víkingbáta sem fyrst komu á markaðinn snemma á 9. áratugnum. „Það urðu kaflaskil með smíði trefjaplastsbáta en það var Bátasmiðja Guðmundar sem upphaflega smíðaði Sómabátana og Samtaka var með framleiðslu Víkingbátanna á sinni könnu,“ útskýrir Matthías. „Smám saman þróuðust þessi fley í hraðfiskibáta og með dagakerfinu fundu þeir sér sess sem handfærabátar.“

Hafa íslensku trefjaplastsbátarnir farið víða og segir Matthías að Víkingbátar hafi m.a. selt báta til Grænlands, Færeyja og Noregs og viti hann til þess að bátar þessarar gerðar hafi verið í notkun í Frakklandi, Skotlandi og meira að segja í Suður-Ameríku.

Stofnun Víkingbáta tengdist m.a. tilkomu strandveiðikerfisins og segir Matthías að árin þar á undan hafi smáum plastbátum farið fækkandi hér á landi enda átt sér stað samþjöppun í greininni sem ýtti undir fjárfestingu í stærri skipum. Um svipað leyti hljóp mikill vöxtur í fiskeldi í sjó og skapaðist þá eftirspurn eftir heppilegum fiskeldisbátum. „Í dag er áætlað að um 850 smábátar af ýmsum gerðum séu í landinu en þar af eru 80 línubátar sem eru á sjó allt árið um kring og 35 bátar í fiskeldi, en strandveiðiflotinn er í kringum 700 bátar.“

Jafnvel ef eftirspurnin eftir fleiri bátum héldist þá er flotinn svo stór að bara endurnýjunarþörfin ætti að duga til að tryggja fína verkefnastöðu hjá skipasmiðjum eins og Víkingbátum. „Plastbátur sem vel er hugsað um ætti hæglega að endast í 20 til 30 ár en þeir bátar sem eru í mestri notkun hugsa ég að nýtist í um 15 ár áður en huga þarf að endurnýjun, en samt er hægt að gera endalaust við plastið ef því er að skipta.“

Þurfum að búa í haginn fyrir orkuskipti

Plástbátarnir eru í stöðguri þróun og segir Matthías að orkuskiptin verði næsta skref. „Þróunarstarf er þegar í gangi, hér og þar, en framleiðendur reka sig á að rafknúinn bátur eða tvinnbátur kostar í augnablikinu 40-70% meira en bátur með hefðbundna aflrás.“

Matthías segir orkuskiptin þó greinilega handan við hornið og ekki seinna vænna fyrir stjórnvöld og hagsmunaaðila að undirbúa hafnarinnviði svo að þar skapist ekki flöskuháls. Þannig megi t.d. reikna með að tryggja þurfi aðgang að öflugri hraðhleðslu við bryggju fyrir jafnt stóra sem smáa báta og eins ætti að huga að samræmi í hönnun, frágangi og vali á hleðslubúnaði, og orkuskiptaverkefnum forgangsraðað.“

Þegar tekist hefur að leysa hönnunarvandann væntir Matthías þess að það verði uppgrip hjá bátasmiðum enda gera bæði stjórnvöld og neytendur ríka kröfu um að minnka kolefnisspor sjávarútvegsins. „Til mikils er að vinna og má nefna í þessu samhengi að bara olíunotkun þeirra fiskeldisbáta sem hafa bæst við flotann á síðustu árum er um þrjár milljónir lítra árlega og koltvísýringslosun þeirra á við 4.000 fólksbíla.“

„Eins og smækkaður togari“

Matthías er að vonum stoltur af nýjustu smíði Víkingbáta en um er að ræða glænýja hönnun sem fengið hefur nafnið Víkingur BT30. Fyrsta fley þessarar gerðar hefur fengið nafnið Háey I, er gert út frá Raufarhöfn og er í eigu GPG Seafood ehf.

„Það má segja að þetta skip sé smækkuð mynd af stórum togara. Allur aðbúnaður um borð er eins og best verður á kosið og t.d. sérklefi fyrir hvern áhafnarmeðlim, og við höfum náð að koma fyrir miklu magni af sérsmíðuðum búnaði sem hingað til hefur aðallega sést í stærri bátum.

Hönnun og stærð Háeyjar er sniðin að krókaaflamarkskerfinu og segir Matthías að skipið hafi reynst mjög vel við veiðar en hönnunin bjóði upp á ýmsa möguleika. „Nýlega var sett reglugerð sem leyfir okkur að breikka þessa hönnun svo að báturinn stækkar úr 30 brúttótonnum í 45 svo fremi að aflrásin sé að lágmarki 50% knúin með grænni orku. Stækkunin fæli í sér að breikka bátinn úr 5,5 metrum í 6,7 og dýpka hann um leið, og er þá gríðarlega mikið pláss fyrir ballest sem gæti t.d. samanstaðið af rafhlöðum. Nú þegar eru um 8 tonn af ballest í bátnum sem mætti skipta út fyrir rafhlöður af svipuðum þunga.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson