Klara J. Óskarsdóttir fæddist í Reykjavík 23. ágúst 1934. Hún lést á heimili sínu á Hrafnistu við Brúnaveg 12. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Óskar Gíslason ljósmyndari, fæddur 15. apríl 1901, d. 25. júlí 1990, og Edith Sofie Bech, f. 1. október 1911, d. 6. desember 1992. Systkini Klöru voru í aldursröð: Alvar, f. 14. maí 1933, d. 14. ágúst 2016, Sigríður, f. 21. júní 1940, Óskar, f. 9. október 1943, d. 13. ágúst 1953, Randý, f. 30. júní 1948, d. 29. ágúst 1952, Óskar, f. 11. desember 1954, og Óli Kyrrigerd, f. 26. febrúar 1957.

Klara eignaðist átta börn: Edith Randý, f. 1953, maki Jón Sigurðsson, þau eiga tvö börn, Guðbrandur Ívar, f. 1956, einhleypur, tvö börn, Rut Bech, f. 1957, maki Arnar Geirdal, þau eiga saman þrjú börn, Hjördís Bech, f. 1960, maki Guðni B. Sigurðsson, fimm börn, Þórdís, f. 1961, maki Steinar B. Helgason, fimm börn, Karl Þórhalli, einhleypur, fjögur börn, Sigga Bech, f. 1963, einhleyp, þrjú börn og Jóhanna Bech, einhleyp og á tvö börn.

Leiðir móður okkar og föður skildi þegar hún var 38 ára. Í framhaldi fer hún út á vinnumarkaðinn þar sem hún starfaði lengst af hjá lyfjafyrirtækinu G. Ólafsson og síðar hjá lyfjafyrirtækinu Pharmaco.

Hún hafði mikið dálæti á tónlist og var söngelsk og söng oft meðan hún eldaði sunnudagsmatinn.

Mömmu hafði áður dreymt um að vera leikkona og hafði mikinn áhuga á leiklist og öllu tengdu leikhúsi.

Hún hafði einstaklega gaman af því að fara í leikhús og á tímum hér áður voru hæg heimatökin þegar Ævar Kvaran frændi hennar bauð henni á leiksýningar.

Móðir okkar bar mikla umhyggju fyrir íslenskri tungu og þreyttist seint við að leiðrétta málfar barna sinna. Hún var mikill bókaunnandi og var alltaf lesandi þegar færi gafst enda voru veggirnir hjá henni þaktir bókum þar sem bókahillurnar náðu frá gólfi til lofts.

Útför hennar fór fram í kyrrþey.

Elsku yndislega fallega mamma mín, ég get ekki lýst þeim söknuði og sársauka að vera búin að missa þig og geta ekki átt með þér fleiri stundir. Þú varst svo stór partur af lífi mínu og munt verða það áfram. Elsku mamma mín, tómarúmið sem situr eftir er óendanlega mikið og sárt. Ég veit að þú ert umvafin ástvinum í Draumalandinu.

Það er svo margs að minnast og margt sem kemur upp í huga minn. Þú varst kletturinn og ljósið í lífi mínu, einstök kona og móðir,sterk, gefandi, ástrík með ríka réttlætiskennd. Elsku fallega mamma mín, þú kiknaðir aldrei undan þunga lífsins þó svo hann bankaði á dyrnar hjá þér oftar en einu sinni. Þú brostir þínu yndislega hlýlega fallega brosi alveg sama hvað. Þú hélst vel utan um okkur systkinin og sást til þess að okkur vantaði aldrei neitt. Þú prjónaðir og saumaðir á okkur öll þau föt sem okkur vantaði. Þú stoppaðir ekki þar, þú klipptir á okkur hárið eins og veraldarvön hárgreiðslukona. Þú naust þess að sitja í kringum okkur barnahópinn þinn og spjalla um hitt og þetta. Það var alltaf gleði og hlátur sem ríkti þegar við sátum öll við borðið sem Ívar bróðir smíðaði fyrir þig í eldhúsið á Vatnsstígnum.

Elsku fallega mamma mín, þú varst okkur ekki bara sem móðir, heldur líka sem vinur. Ég get ekki stjórnað þeim tárum sem renna stanslaust niður þegar ég hugsa til þín, elsku fallega mamma mín, og um þann dýrmæta tíma sem við áttum saman. Þú vannst alltaf í lausnum og horfðir ekki á hlutina sem vandamál, allt væri hægt að leysa. Nánast daglega kíkti ég til þín í te og notalegt spjall í Daló. Þú hélst áfram að halda utan um barnahópinn þinn á fullorðinsárum okkar og gerðir það vel með stuðningi, visku, gjafmildi, góðu fordæmi og ótakmarkaðri ást og trilljón samverustundum sem við getum glaðst yfir að fá að minnast nú þegar þú ert farin frá okkur. Mamma var alltaf til staðar fyrir okkur öll og rétti fram höndina til hjálpar óspurð. Mamma ferðaðist mikið með okkur innanlands sem utanlands, þó svo hún væri orðin fótalúin síðustu árin, þá lét hún það ekki stoppa sig. Mamma flutti inn á Hrafnistu í Laugarás árið 2020. Hún hélt áfram að ferðast með okkur innanlands, sem við gerðum reglulega. Daglegar heimsóknir fékk mamma frá okkur, Rut, Jóhönnu, Siggu, Ívari og Klöru Lind þar til hún fór í draumalandið. Stundum var farið á kaffihús, ísbíltúr út á land o.fl.

Þegar mamma mín skildi við sagði hjúkrunarfræðingurinn við okkur: „Ef allir væru eins og þið þá væri heimurinn miklu betri.“ Viljum við þakka fyrir hlýleg orð í okkar garð. Við viljum þakka fag- og starfsfólki Hrafnistu í Laugarási fyrir hlýja og góða umönnun á þeim tíma sem elsku mamma okkar bjó þar. Þegar elsku mamma mín veiktist, þá vorum við, ég Rut, Ívar, Jóhanna, Sigga og Klara Lind, hjá henni dag og nótt þar til hún kvaddi þennan heim í ró og friðsæld.

Ég elska þig óendanlega mikið og mun ást þín og ljósið þitt fylgja mér til enda veraldar, elsku mamma mín. Böndin munu aldrei rofna. Takk fyrir allt. Hvíl í friði, elsku yndislega fallega mamma mín.

Þín ástkær dóttir,

Hjördís Bech.

Ég kynntist Klöru tengdamömmu minni snemma árs 1992. Klara var kletturinn í fjölskyldunni og miðjupunkturinn í hópnum í augum barna sinna, maka þeirra og barnabarna. Hún tók þátt í lífi okkar sem var okkur mjög mikils virði og öllum til gleði. Það var alltaf stungið upp á því að tengdamamma kæmi með þegar farið var hvort sem var út á land, í sumarbústað eða til útlanda. Stundum kom hún með hugmyndir eða tillögu um ferðir eða annað. Hún var ekki bara móðir barna sinna heldur líka vinur þeirra sem var einstakt og ákaflega dýrmætt fyrir okkur öll.

Fallegt og hlýlegt heimili Klöru var alltaf opið fyrir stórfjölskyldu hennar, enda var heimilið hennar eins og stoppistöð, fullt af fjöri og gleði. Yfirleitt var einhver úr fjölskyldunni í heimsókn hjá tengdamömmu þegar við komum til hennar. Hún tók alltaf vel á móti öllum. Það sem einkenndi Klöru var að hún var hlý, kærleiksrík, gefandi, full af visku, glaðvær með ríka réttlætiskennd og algjör friðarsinni.

Í þessum stóra barnahópi þurfti hún stundum að stilla til friðar. Hún gætti þess ávallt að vera hlutlaus og tók aldrei afstöðu með neinu barna sinna. Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um Klöru, hún kiknaði samt aldrei þegar lífið reyndist henni erfitt. Hún var natin, hjartahlý og ákveðin. Hún var mikill bókaunnandi enda las hún fjölda bóka. Hún elskaði að ferðast og var einstaklega fær í að teikna. Hún var mjög fær í íslenskunni og alltaf hægt að leita til hennar þegar á þurfti að halda.

Það var alltaf gaman að spjalla við Klöru yfir tebolla og auðvitað vildi hún alltaf setja eitthvað á borðið til að narta í í leiðinni. Klara fékk greinilega ljósmyndaáhugann í arf frá föður sínum, því hún skilur eftir sig þúsundir mynda af fjölskyldunni sem við fáum að njóta og rifja upp, góðar, skemmtilegar og yndislegar minningar sem við öll áttum með Klöru sem er ómetanlegt nú þegar hún er farin inn í draumalandið.

Klara var alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd óbeðin, það var eins og hún fyndi á sér ef eitthvað var. Hún var mjög næm á líðan barna sinna enda ekki skrítið þar sem tengslin voru mikil, djúp og sterk. Klara var einstök kona, tengdamamma sem ég mun aldrei gleyma. Ég var heppinn að fá bestu tengdamömmuna. Það toppar hana engin þegar litið er til þess hversu góð, réttlát og gefandi hún var. Hún sýndi öllum fullan skilning, var góður hlustandi og skilningsrík.

Elsku Klara, tengdamamma mín, ég á ekki til nógu mörg lýsingarorð til að lýsa hversu einstök manneskja þú varst.

Takk fyrir allt, allt það sem þú gerðir fyrir okkur, fyrir að vera allt það sem þú varst fyrir okkur öll, börnin þín, maka þeirra og barnabarnabörnin þín. Kletturinn í lífi okkar. Minning þín mun lifa í hjarta mínu á meðan ég lifi.

Þín verður sárt saknað.

Hvíl í friði, elsku Klara mín.

Þinn tengdasonur,

Guðni Birgir
Sigurðsson.

Elsku amma mín, þín verður sárt saknað. Það sem er mér svo dýrmætt er að hafa fengið tækifæri til að kveðja þig áður en þú fórst. Ég minnist margra góða samverustunda heima hjá þér og okkur. Þú tókst alltaf hlýlega á móti okkur með fallega brosi þínu og knúsi. Það var alltaf mannmargt heima hjá þér í Dalalandinu, mikið fjör og mikið hlegið og oft sungið eða sönglað. Þú hafðir nóg af ýmsu dóti fyrir okkur krakkana til að leika okkur með. Við lágum oft á gólfinu að lita, teikna eða spila og stundum við borðið, okkur fannst þó best að sitja á gólfinu með allt dótið. Ég man eftir því þegar þú varst að baka eða elda þá söngst þú oft á meðan. Þó svo fallega heimilið þitt væri ekki stórt þá hafðir þú alltaf pláss og tíma fyrir alla. Það var alltaf gott að koma til þín, elsku amma, þú brostir alltaf svo blýtt og alltaf tilbúin að finna eitthvað handa okkur að gera. Þú gantaðist oft við okkur sem við hlógum að. Þú varst alltaf með eitthvað á borðinu handa okkur. Mér fannst alltaf best að fá mjólk og mjólkurkex sem ég borðaði með bestu list, dýfði kexinu í mjólkurglasið. Sumarbústaðaferðirnar sem við fórum með þér, mömmu, Rut, Jóhönnu, Siggu og mökum þeirra ásamt öllum krökkunum eru mér einnig eftirminnanlegar ferðir. Þegar ég hugsa til baka þá var oft mikil læti í okkur krökkunum en þú lést það ekki á þig fá. Elsku amma, þú sýndir okkur alltaf skilning, ást og þolinmæði. Þú varst besta amma í heimi.

Þegar þú fluttir inn á Hrafnistu þá tókst þér að gera litla heimilið þitt svo vistlegt og hlýlegt. Allar fjölskyldumyndirnar á veggnum hjá þér, bækurnar þínar og öll myndaalbúmin sem ég þreyttist aldrei á að skoða. Ég man eftir því þegar þú fóst út á flugvöll að sækja mömmu og þegar mamma og þú voruð sest inn í bílinn og ég rétt búin að opna afturhurðina, þá keyrðir þú af stað og ég hélt í opna hurðina og hljóp með bílnum. Við vorum öll í áfalli yfir þessu, við gátum séð spaugilegu hliðina á þessu eftir á og hlógum reyndar af því. Elsku amma mín, það er ótal margt yndislegt og skemmtilegt sem ég gæti ryfjað upp en það færi í meira en heila bók. Elsku amma mín, minning þín verður ljósið í lífi mínu og bið ég Guð um að gæta þín þar sem þú ert í draumalandinu. Hvíl í friði, elsku amma mín.

Þinn

Benjamín Aron Bech Guðnason.

Þín verður sárt saknað, elsku amma mín. Þú fékkst fallegu vængina þína á mæðradaginn, á þínum degi. Ég var svo heppin að fá að eiga þig sem ömmu. Þú varst alltaf tilbúin að rétta fram hjálparhönd án þess að vera beðin um það. Þú fannst það alltaf á þér þegar einhver úr fjölskyldunni þarfnaðist hjálpar, börnin þín og barnabörn. Þú hjálpaðir mér að skrifa bréf til blóðföður míns á dönsku, ég skildi ekki tengiskriftina þína svo þú skrifaðir allt með stórum stöfum og ég hermdi eftir.

Elsku amma mín, þú bauðst til þess að fara með mér út til Noregs svo ég gæti kynnst blóðföður mínum. Það er mér eftirminnileg ferð og mér svo dýrmætt að hafa fengið tækifæri til að hitta föður minn þó svo ég hafi kviðið fyrir því, þá var ég samt spennt fyrir því að fara. Þú veittir mér styrk og hélst vel utan um mig í þessari ferð af þinni einstöku ástúð og hlýju. Það er engin eins falleg og göfug og þú, amma mín. Þú sást um að þýða allt það sem við töluðum um okkar á milli vegna þess að hann talar bara norsku og mjög litla ensku. Ég hefði líklegast aldrei kynnst honum ef það væri ekki fyrir allt það sem þú gerðir fyrir mig, sem er mér ómetanlegt. Síðar þegar þú, amma mín, og Jóhanna ásamt dóttur hennar Marín ákváðuð að heimsækja Ívar frænda til Þýskalands þá vildir þú endilega bjóða mér með ykkur í þessa ferð. Ég var svo spennt og ánægð að fá að fara með ykkur. Ég á svo góðar minningar frá þessari ferð. Það lýsir þér svo vel hvernig þú varst, elsku amma mín, allt það sem þú gerðir, sagðir, færðir og veittir af ómældri móður-, ömmu- og langömmuást.

Heima hjá þér komu allir saman, á litla heimilinu þínu var einhvern veginn alltaf pláss fyrir alla. Sem börn þá lágum við á gólfinu inni í svefnherberginu þínu og lituðum í litabækur eða spiluðum minnisspil. Við stálumst líka einstöku sinnum til þess að fikta í saumavélinni þinni sem mamma hefur sagt mér að þú hafir verið mjög klár á. Ég er svo heppin að hafa fengið að heyra margar sögur um þig, elsku amma mín, og á enn fleiri dýrmætar og ógleymanlegar minningar. Þú varst miðjan og kletturinn í fjölskyldu barna og barnabarna þinna.

Mér þótti svo merkilegt að þú, amma mín, hefðir leikið Álfkonuna í kvikmyndinni Síðasti bærinn í dalnum eftir Óskar langafa minn. Þú mátt sko vera stolt af þér, ég er það svo sannarlega. Ég dáist að þér sem móðir og ég er heppin þó svo ég væri bara helmingurinn af konunni/móðurinni og ömmunni sem þú varst. Við sjáumst seinna, elsku amma mín. Minning þín er ljósið í lífi mínu.

Elsku amma mín, hvíl í friði.

Þín

Edith Bech og langömmubörnin þín, Jasmine, Mikael,
Draumey, Ozavize og Oseremi.

Amma er kona sem elskaði að gera sig fína, með sína stóru fallegu skartgripi, hárið fínt og neglurnar nýlakkaðar. Alltaf með sitt fallega bros og fínan varalit. Ég man að ég skoðaði alltaf skartið hennar og málningardót og dáðist að naglalakkssafninu hennar, það varð annaðhvort bleikur eða rauður fyrir valinu hjá henni, enda fór það henni svo vel.

Amma var alltaf í léttu og góðu skapi. Mér fannst alltaf svo gaman að fylgjast með henni í eldhúsinu, syngjandi á meðan hún eldaði eða bakaði, hún var líka guðdómleg í eldamennsku og bakstri, allir elskuðu að koma til ömmu og fá gott að borða. Amma er konan sem stóð alltaf með sínum og var til staðar þegar á þurfti að halda. Allt þetta var amma og svo miklu meira til.

Amma var glettin og hafði gaman af því að gantast við barnabörnin sín og langömmubörnin. Hún faðmaði þau með hlýju brosi sínu í hvert skipti sem hún hitti þau. Alltaf töfraði hún eitthvað fram handa þeim, þeim til mikillar gleði. Nú er amma fallin frá. Ég, ásamt Eddý Benjamín og Stellu, heimsótti ömmu tveimur dögum fyrir andlát hennar og náðum við því að kveðja elsku ömmu okkar.

Ég mun seint gleyma því augnabliki þegar mér var tilkynnt andlát ömmu. Um leið og tilkynningin var eitthvað svo óraunveruleg kom á sama tíma upp í hugann ólýsanlegt þakklæti fyrir allt sem hún hafði gert og fyrir það sem hún hafði verið. Þá komu líka upp í hugann ýmis brosleg atvik sem skiptir máli að rifja upp á slíkum stundum. Hún má vera stolt af því lífi sem hún lifði og því sem hún skilur eftir sig, ég er svo óendanlega stolt af henni.

Ég á eftir að sakna þín mikið og ég mun hugsa til þín á hverjum degi. Þú átt alltaf stóran stað í hjarta mínu og ég mun aldrei gleyma hvað ég átti góða ömmu. Farðu í friði elsku amma; þú ert svo sannarlega búin að skila þínu. Takk fyrir allt, amma mín, sofðu rótt.

Þín

Rakel Ösp og barnabarnabörnin þín Ismael Aron, Ilyas Birgir, Samira Soffía og Yassin Aran.

Margt er það og margt er það

sem minningarnar vekur

og þær eru það eina

sem enginn frá mér tekur.

(Davíð Stefánsson)

Elsku Klara, það er svo skrítið að þú skulir vera farin. Allar bernskuminningar mínar og flestar minningar frá æskuárunum eru bundnar leikjum okkar og samveru. Allt frá því við mokuðum saman í sandkassanum og þar til við fórum að gera gagn á heimilunum voru leikirnir alltaf úti. Heima hjá þér bjuggu ýmist tvær eða þrjár fjölskyldur í sömu íbúðinni. Þar var eitt eldhús með tveimur eldavélum. Við tókum að okkur uppvaskið á kvöldin fyrir alla. Við vorum lengi að og skemmtum okkur vel, m.a. við leik þar sem þvottaburstinn var karl og þvaran kona og leirtauið hafði líka sitt hlutverk. Við þekktum ekkert lífskjarakapphlaup og unga fólkið var ekki farið að láta sig dreyma um eigið húsnæði, það kom ekki fyrr en eftir stríð.

Á heimili þínu voru listir í hávegum hafðar. Ævar Kvaran frændi þinn bjó þar og hann kom stundum fram með gítarinn á kvöldin og söng fyrir okkur og með okkur í eldhúsinu. Hann hafði mikið dálæti á þér, þú varst svo falleg og fínleg með óvenjulega og skýra rödd. Hann dreymdi um að þú yrðir leikkona og við trúðum því að það yrði. Ævar lék með Leikfélagi Reykjavíkur og við fengum að fylgjast með æfingum og fara á leiksýningar þegar aðsókn minnkaði. Pabbi þinn var einnig listamaður, hann hafði lært ljósmyndun og vann við það, litmyndirnar voru handmálaðar, sem var mikið vandaverk. Kvikmyndataka var þó hans aðaláhugamál og fjölskyldan varð að láta margt á móti sér svo hann gæti keypt vélar og efni til hennar, enda var ekki um styrki eða lán að ræða í þá daga. Þér brá fyrir í myndum hans, t.d. lékst þú álfkonuna í Síðasta bænum í dalnum. Þið Ævar lásuð og fóruð með ljóð eftir Tómas Guðmundsson frænda ykkar, sem gaf ykkur ljóðin jafn óðum og þau komu út. Ljóðasafn Tómasar er ein kærasta gjöfin sem ég á frá þér.

Þú varst fjórtán ára þegar fimmta barna foreldra þinna hún Randý fæddist. Mér fannst þú næstum upplifa þig í móðurhlutverki gagnvart henni og hún var mjög ung þegar þú fékkst að hafa hana hjá þér í herbergi. Á átján ára afmælisdaginn þinn veiktist Randý og fór á sjúkrahús, hún var mjög þungt haldin og dó sex dögum síðar. Það var skammt stórra högga á milli í fjölskyldunni því um haustið veiktist Óskar bróðir þinn níu ára gamall og barðist við veikindin í ár áður en hann dó. Þessi áföll breyttu öllu, ekkert var eins og áður. Á þessum tíma hafðir þú kynnst Ásgeiri og eignast Edith Randý stuttu áður en Óskar dó. Foreldrar þínir eignuðust síðan sjötta barnið, Óskar, en þau höfðu fjarlægst hvort annað og þau skildu þegar hann var eins árs.

Samskipti okkar minnkuðu á tímabili, þegar ég flutti norður í land. Þegar ég flutti suður aftur tíu árum síðar varst þú orðin átta barna móðir, áttir áttunda barnið árið sem þú varst þrítug. Vinátta okkar hélst til síðasta dags þó samverustundir væru ekki margar á seinni árum. Við töluðum hins vegar oft saman í síma í gegnum árin og hittumst af og til eftir að við hættum að vinna. Allar minningarnar sem tengjast þér eru mér dýrmætar. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín vinkona,

Helga Karlsdóttir.