Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð: Á biki ótt mig áfram ber, upp úr skóla bestur fer. Baggar tveir af töðu er, teygður svo á móti hér. Lausnarorðið er hestur segir Úlfar Guðmundsson: Minn hjólhestur oft léttir leið

Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Á biki ótt mig áfram ber,

upp úr skóla bestur fer.

Baggar tveir af töðu er,

teygður svo á móti hér.

Lausnarorðið er hestur segir Úlfar Guðmundsson:

Minn hjólhestur oft léttir leið.

Lestrarhestur af öðrum ber.

Töðu hestur í forða fer.

Fræknum hesti er hleypt á skeið.

Lausnin datt svona inn segir Helgi R. Einarsson:

Burður, reið í heimi hér,

hjól og auk þess lestur.

Allt að sama brunni ber,

bæta skal við HESTUR.

Guðrún Bjarnadóttir svarar: Hvorki ferskeytlan né raunsæið fengust til að gleypa lausnarorðið, en:

Úr sæti á hjólhesti,

hrifist af námshesti,

á töðuhest tvílesti

tveim böggum, þá besti

tölthesturinn teygði sig með gesti.

Sigmar Ingason leysir gátuna:

Hjólhestur á malbiki fer mikið vel.

Í menntaskóla námshestinum
gengur vel.

Töðubagga báru hestar býsna vel.

Blesi sig á skeiðsprettinum teygði vel.

Páll Jónasson skýrir gátuna:

Á nýjum hjólhest nú ég er,

námshestur sá mikill er,

hundrað kíló hestur er,

hestur á skeiði teygður er.

Þá er ný gáta eftir Pál:

Í Djúpinu ég fjallið fann,

fljúga nemar yfir hann.

Mælistika afls hann er,

áður leikfang barna hér.

Allir þekkja stöku Páls Ólafssonar:

Eg hef selt hann yngra Rauð,

er því sjaldan glaður.

Svona er að vanta veraldar-auð

og vera drykkjumaður.

Páll orti um Gránu Benedikts eldra á Kolstöðum:

Harla nett hún teygði tá,

tifaði létt um grundir;

fallega spretti þreif hún þá

þegar slétt var undir.

Hér yrkir Páll um Glófaxa í tamningu. Glófaxi eða Glói var gjöf frá Guðmundi Eiríkssyni frá Hoffelli:

Ó, hvað mín er lundin létt

að leika mér á Glóa,

þá hann tekur sprett á sprett

sporar grund og móa.