Brúin Alda Hún mun tengja saman Reykjavík og Kópavog. Hér er horft yfir í Kársnes. Brúin er ætluð borgarlínu sem og gangandi og hjólandi.
Brúin Alda Hún mun tengja saman Reykjavík og Kópavog. Hér er horft yfir í Kársnes. Brúin er ætluð borgarlínu sem og gangandi og hjólandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Vegagerðin áætlar að vinna við landfyllingar fyrir brú í Fossvogi hefjist í haust.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Vegagerðin áætlar að vinna við landfyllingar fyrir brú í Fossvogi hefjist í haust.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu sl. laugardag hefur Reykjavíkurborg veitt leyfi fyrir framkvæmdinni.

Beðið er eftir framkvæmdaleyfi hjá Kópavogsbæ en stefnt er að því að afgreiða leyfið fyrrihluta júní, samkvæmt upplýsingum G. Péturs Matthíassonar upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.

Einnig þarf að liggja fyrir útboðsheimild frá Betri samgöngum sem er eigandi verkefna samgöngusáttmálans og Fossvogsbrú fellur þar undir. Þegar öll leyfi eru komin í hús verður hægt að bjóða út framkvæmdiir.

Stefnt er að útboði sjálfrar Fossvogsbrúar með haustinu.

Verktíminn lengist

Í tilkynningu á heimasíðu Vegagerðarinnar í ágúst 2023 kom fram að framkvæmdir við landfyllingar Fossvogi myndu taka átta mánuði.

Nú er talað um að framkvæmdin taki lengri tíma og endanleg verklok verði mögulega 2026. Því er ljóst að þessi áform um landfyllingar hafa tekið töluverðum breytingum frá því í fyrra.

Áætlað er að hefja verkið í Kársnesi í Kópavogi í ágúst nk., ljúka þar landfyllingu í byrjun janúar á næsta ári og í framhaldi hefja brúargerðina þar, upplýsir G. Pétur.

Fyrstu verkliðir brúargerðar verða landstöpull á Kársnesi og síðan millistöplar í Fossvoginum. „Fylling við Kársnes er innan við 10% af heildarfyllingarmagninu, þess vegna er best að ljúka henni fyrst svo væntanlegur brúarverktaki getið hafið þar vinnu. Einnig þarf að komast sjóleiðina að millistöplunum og vænlegasta tengingin sjóleiðina er frá hafnarsvæðinu á Kársnesi,“ segir G. Pétur.

Vinna við landfyllingar vegna brúarinnar Reykjavíkurmegin hefst í ágúst og lýkur um áramótin 2025-2026.

Landfylling Reykjavíkurmegin er annars vegar fyllingin meðfram flugvallarendanum og fyrir landtöku brúarinnar. Að beiðni Reykjavíkurborgar verður bætt við útboðið landfyllingu í Skerjafirði sem er nærri tvöföldun á fyllingarmagni þeim megin.

G. Pétur segir að í fyrri áætlunum hafi verið gert ráð fyrir að fyllingarefni yrði dælt frá skipi í land. Þar sem aðeins einn aðili á Íslandi hefur rétt til efnistöku úr sjó var ekki talið ásættanlegt að hafa svo þröng skilyrð. Nú gerir útboðslýsing ráð fyrir að það sé valkvætt hvort efni verði flutt sjó- eða landleiðina á fyllingarsvæðin.

Verktími hafi því einnig verið lengdur til að auðvelda efnisflutninga á landi.