Útskriftarnemar 2. stigs Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum 1989. Aftari röð frá vinstri: Ómar Steinsson, Óskar Þór Kristjánsson, Gylfi Viðar Guðmundsson, Elías Kristinsson, Óli Hans Gestsson, Sigurjón Guðmundsson, Sigurður Ingi Ólafsson, Bergur Guðnason, Vignir Traustason. Fremri röð frá vinstri: Unnar Jónsson sem er látinn, Ástþór Jónsson, Valdimar G. Hafsteinsson, Gunnar Kristjánsson og Gunnar Þór Friðriksson. Sigurð Þór Hafsteinsson vantar á myndina.
Útskriftarnemar 2. stigs Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum 1989. Aftari röð frá vinstri: Ómar Steinsson, Óskar Þór Kristjánsson, Gylfi Viðar Guðmundsson, Elías Kristinsson, Óli Hans Gestsson, Sigurjón Guðmundsson, Sigurður Ingi Ólafsson, Bergur Guðnason, Vignir Traustason. Fremri röð frá vinstri: Unnar Jónsson sem er látinn, Ástþór Jónsson, Valdimar G. Hafsteinsson, Gunnar Kristjánsson og Gunnar Þór Friðriksson. Sigurð Þór Hafsteinsson vantar á myndina. — Ljósmynd/Sigurgeir Jónasson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frá skólaslitunum er sagt í Fréttum 23. maí þar sem segir: „Gildi skólans fyrir útgerð og sjómennsku í Vestmannaeyjum eru óvéfengjanleg. Hann hafa sótt menn alls staðar af landinu. Sumir sest hér að og eru margir meðal dugmestu skipstjóranna á Eyjaflotanum

Ómar Garðarsson

skrifar frá Vestmannaeyjum

Frá skólaslitunum er sagt í Fréttum 23. maí þar sem segir: „Gildi skólans fyrir útgerð og sjómennsku í Vestmannaeyjum eru óvéfengjanleg. Hann hafa sótt menn alls staðar af landinu. Sumir sest hér að og eru margir meðal dugmestu skipstjóranna á Eyjaflotanum. Hvernig útgerð væri í Vestmannaeyjum ef skólans nyti ekki við er erfitt um að segja, en þó er örugglega hægt að segja að hún hefur notið góðs af Stýrimannaskólanum. Bara það eitt að skólinn er hér hefur gert mönnum kleift að sækja hingað nám. Menn sem eru komnir með fjölskyldu hefðu ekki átt þess kost að sækja námið nema vegna þess að skólinn er hér. Hafa nælt sér í vinnu með skólanum og á þann hátt framfleytt fjölskyldunni.“ Orð að sönnu, en allt hefur sinn tíma og það hafði Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum.

Hjónabandsmiðlun

Þeir sem útskrifuðust 1989 voru Ómar Steinsson, Óskar Þór Kristjánsson, Gylfi Viðar Guðmundsson, Sigurður Ingi Ólafsson, Bergur Guðnason, Unnar Jónsson sem látinn, Gunnar Kristjánsson, Sigurður Þór Hafsteinsson og Ástþór Jónsson, allir frá Vestmannaeyjum, Elías Kristinsson Strandamaður, Óli Hans Gestsson frá Norðfirði, Sigurjón Guðmundsson frá Reykjavík, Vignir Traustason Seyðfirðingur frá Akureyri, Valdimar G. Hafsteinsson Vestfirðingur og Gunnar Þór Friðriksson frá Keflavík. Flestir urðu fengsælir skipstjórar en aðrir fóru til annarra starfa þegar frá leið. Stýrimannaskólinn var öflug hjónabandsmiðlun, t.d. náðu Valdimar, Gunnar Þór, Vignir og Sigurjón sér í konur árin tvö í Stýrimannaskólanum. Flestir búa í Vestmannaeyjum.

Morgunblaðið hitti þrjá úr hópnum í spjall um ferðaklúbbinn og samheldnina sem hefur haldist í þau 35 ár sem liðin eru frá því þeir útskrifuðust, þá Óskar Þór, Sigurð og Valdimar. „Upphafið að ferðaklúbbnum var þegar við héldum upp á fimm ára útskriftarafmælið okkar hér í Eyjum. Þá var ákveðið að leggja í sjóð sem yrði notaður til að borga ferðalög, bæði þegar við hittumst hér á landi og í utanlandsferðir,“ segir Óskar Þór.

Í land eftir meira víni

„Fyrsta ferðalagið var til Marmaris í Tyrklandi 2004, ógleymanleg ferð og mikið gaman. Við fórum tvisvar til Tyrklands, sigldum í Karíbahafinu og um Miðjarðarhafið, fórum til Parísar, leigðum okkur báta og sigldum um Bourgundy-héraðið í Frakklandi og til Calpe á Spáni síðasta haust,“ segir Sigurður. „Fyrst voru fimm ár á milli en nú er þetta komið niður í þrjú ár,“ segir Valdimar. „Við byrjuðum í Vestmannaeyjum og á Akureyri og fórum til útlanda, fyrst árið 2004,“ segir Valdimar. „Þetta hafa allt verið alveg frábærar ferðir og margt minnisstætt eins og þegar vínið kláraðist á skútunni sem við leigðum í Tyrklandi. Þurftum að fara í land og ná í meira,“ segir Óskar Þór.

„Nú erum við Bergur að skipuleggja næstu ferð sem verður haustið 2025,“ segir Valdimar. „Enn hefur ekkert kvisast út hvert verður farið eða hvað á að gera. Gæti orðið eitthvað skrýtið,“ segir Sigurður.

Strax samheldinn hópur

„Strax þegar við byrjuðum í skólanum myndaðist mikil samstaða. Tókum þessu eins og hverri annarri vinnu. Lærðum, hjálpuðum hver öðrum og samheldnin kom eins og af sjálfu sér. Ég man að kennararnir töluðu um þetta. Sögðu ekki algengt að bekkjarfélagar næðu svona vel saman. Það var eitthvað sem tikkaði inn,“ segir Sigurður.

„Við gátum líka ruglað hver í öðrum út í eitt en vorum svo bestu vinir á eftir. Rosaflottur hópur,“ segir Valdimar og ekki voru konurnar síðri. „Þær fylgdu með og fljótlega var kvenfélagið stofnað. Það var nefnt eftir Aldísi Karlsdóttur, konu Vignis, og úr varð Kvenfélagið Aldís og Ferðafélagið Vignir. Þær láta alltaf meira til sín taka, sýna sjálfstæði og halda sína fundi innanlands. Maður hefur fundið fyrir meiri áhrifum þeirra síðustu árin. Er svona hæg og kvenleg yfirtaka,“ segir Sigurður og Óskar Þór grípur boltann á lofti. „Fyrst litli puttinn og svo fylgir allt hitt á eftir áður en maður veit af,“ segir Óskar Þór.

„Við sameinumst svo öll í Ferðafélagi Aldísar og Vignis,“ segir Valdimar og fyrirkomulagið er einfalt. „Í hverri ferð eru tveir settir í ferðanefnd og þeir stjórna næstu ferð. Á bak við tikkar söfnunin. Óli Hans á Norðfirði, aðalreiknimeistari og gjaldkeri, sér um að halda utan um sjóðinn sem við leggjum í mánaðarlega,“ segir Valdimar.

Neisti sem lifir

„Framlagið hækkar aðeins, heldur í við verðbólguna og stýrivexti Seðlabankans. Líka vegna þess að styttra er á milli ferða. Hugmyndin sem kviknaði á fimm ára afmælinu lifir enn,“ segir Óskar Þór.

Til að krydda tilveruna er búningaþema í hverri ferð og vekur hópurinn oft mikla athygli fyrir frjótt ímyndunarafl. „Þetta eflir hópinn og gerir ferðirnar eftirminnilegri. Já, það er oft gaman og lífið hefði verið fátæklegra hefði maður ekki verið svo heppinn að hitta á öflugasta bekkinn í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum,“ segir Valdimar.

„Auðvitað er það aldrei svo að allir komist með og ekkert við því að gera,“ segir Óskar Þór sem sjálfur varð að sleppa úr ferð vegna veikinda sonarins. „Í haust hittumst við svo hér í Eyjum og höldum upp á 35 ára útskriftarafmælið. Sama hvað Viggi segir,“ segir Sigurður og þar eru þeir allir sammála.

Höf.: Ómar Garðarsson