Túnfiskurinn gerður klár fyrir uppboð í Tókýó. Einn stakur fiskur getur hæglega selst fyrir hálfa til heila milljón króna og veiðarnar eru ekki svo flóknar.
Túnfiskurinn gerður klár fyrir uppboð í Tókýó. Einn stakur fiskur getur hæglega selst fyrir hálfa til heila milljón króna og veiðarnar eru ekki svo flóknar. — AFP/Richard A. Brooks
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigmar Sveinsson vill gjarnan að Íslendingar hefji túnfiskveiðar að nýju og óttast að landið missi sinn skerf í sameiginlegum túnfiskstofni í Atlantshafi ef veiðunum er ekkert sinnt. Sigmar var á sínum tíma skipstjóri á Guðna Ólafssyni VE en skipinu var einkum ætlað að veiða þenann dýrmæta fisk

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Sigmar Sveinsson vill gjarnan að Íslendingar hefji túnfiskveiðar að nýju og óttast að landið missi sinn skerf í sameiginlegum túnfiskstofni í Atlantshafi ef veiðunum er ekkert sinnt.

Sigmar var á sínum tíma skipstjóri á Guðna Ólafssyni VE en skipinu var einkum ætlað að veiða þenann dýrmæta fisk. Tilraunin með túnfiskveiðarnar stóð þó stutt yfir og var skipið selt úr landi.

„Báturinn var smíðaður í Kína gagngert fyrir línu- og túnviskveiðar og haustið 2001 fengum við hann afhentan. Þessi bátur var 52 metra langur og með gríðarlega öflugar frystigræjur en ef ætlunin er að veiða túnfisk er lykilatrið að geta kælt hann niður í 60 gráðu frost,“ útskýrir Sigmar en að útgerðinni stóðu hann, Guðjón Rögnvaldsson og Hallgrímur Rögnvaldsson auk annarra fjárfesta.

Það varð þeim hvati til að gera túnfiskveiðarnar að veruleika að japanskir sjómenn höfðu náð góðum árangri við veiðar á Íslandsmiðum og var allt útlit fyrir að túnfiskurinn gæti gefið vel í aðra hönd. „Mig minnir að kílóverðið hafi verið í kringum 5.000 kr. á þessum tíma og hver túnfiskur á bilinu 120 til 150 kg að þyngd og því meira en hálfa milljón króna að fá fyrir hvern fisk. Höfðum við fregnir af því að Japanirnir væru að veiða á milli 20 og 30 fiska á dag,“ útskýrir Guðjón og auðvelt að reikna út að veiðarnar hefðu getað orðið mjög arðbærar hefði allt gengið að óskum.

Þá voru íslenskir sjómenn ekki með öllu ókunnugir því hvernig veiðarnar ættu að fara fram því þær kvaðir fylgdu veiðum japanskra skipa innan íslenskrar lögsögu að íslenskur eftirlitsmaður þurfti að vera um borð. Fór Sigmar sjálfur í langan túr með Japönunum og grínast hann með að það hafi verið „njósnaleiðangur“ enda fylgdist hann náið með öllu sem þar fór fram. „Til gamans má geta að skipstjórinn á japanska skipinu sagði að þrír fiskar á dag væri í lagi en ef þeir fengju sex þá væri góð veiði,“ segir Sigmar og bætir við að kúnstin felist einkum í því að bera skynbragð á hitastigið í sjónum. „Túnfiskurinn heldur sig meira í hlýrri sjó og verður að haga veiðunum eftir því. Annars fara veiðarnar fram með flotlínu þar sem fiskurinn veiðist nærri yfirborði og er smokkfiskur notaður sem beita.“

Reyndar verða skipverjar að gæta sín á því að túnfiskurinn er jafn kröftugur og hann er þungur og ekkert grín að eiga við sprækan 150 kg fisk. Segir Sigmar að yfirleitt hafi fiskurinn verið orðinn þreyttur þegar hann var kominn um borð. „En ef hann var mjög óður var settur þar til gerður hringur utan um tauminn, slakað niður á trjónuna á honum og rafmagnsstraumi hleypt á, og slappaðist hann allur við það, og okkar fyrsta verk var að mænustinga fiskinn þegar hann er kominn um borð.“

Segir Sigmar líka að nota þurfi ákveðin handtök við að skera fiskinn með þeim hætti í samræmi við það sem kaupendur eru vanir, en fiskurinn er slægður, sporðurinn skorinn af og tálknin sömuleiðis og túnfiskurinn síðan blóðtæmdur mjög rækilega og frystur í heilu lagi. „Ég veit að Vísir var með skip í túnfiskveiðum tvö eða þrjú ár og veiddist vel en ætlunin var að koma afurðinni ferskri á markað og það gekk ekki sem skyldi. Gallinn er að túnfiskurinn er viðkvæm afurð og ef hann er ekki rækilega frystur má ekkert bregða út af í flutningum.“

200 tonn sem enginn veiðir

Túnfiskveiðar Guðna Ólafssonar VE gengu mun verr en stefnt hafði verið að og segir Sigmar að þetta afskaplega vandaða og fullkomna skip hafi aðeins náð níu túnfiskum og virðist að einmitt þá hafi dregið úr mokveiðinni sem hafði verið árin á undan. „Fjárfestarnir gáfu þessu ekki meiri tíma en svo að veiðum var hætt strax um veturinn og var báturinn óðara seldur til Nýja-Sjálands og hefur verið að gera það mjög gott í Suðurhöfum.“

Sigmar bendir á að atlantshafsstofninn virðist í dag mun sterkari en hann var fyrir 20 árum og því til sönnunar nefnir hann að Íslandi hafi aðeins verið úthlutað 20-30 tonna kvóta þegar íslensku tilraunaveiðarnar fóru fram en þjóðin sitji nú á 200 tonna kvóta sem enginn nýtir. „Japanirnir eru eftir sem áður langstærstir í þessum veiðum og eru með skip sín rétt fyrir utan landhelgislínuna á haustin.“

Verðið eru líka gott og hefur bara hækkað ef eitthvað er enda mikil eftirspurn eftir túnfiski. Sigmar segir þó þurfa að taka með fyrirvara árlegum fréttum af stökum fiskum sem seljast á uppboðsmarkaðinum í Tókýó fyrir hærra verð en ítalskur ofursportbíll. „Fyrsti fiskurinn á japanska uppboðsmarkaðinum í ár vó um 240 kg og seldist á jafnvirði 108 milljóna króna, en það skýrist af því að sú hjátrú er útbreidd hjá kaupendum að mikil gæfa fylgi þeim sem kaupir fyrsta fisk ársins.“

Sigmar telur að vel ætti að vera gerlegt að breyta sumum skipunum í íslenska flotanum til að henta vel til túnfiskveiða og aðallega að þurfi að vera hægt að laga frystibúnaðinn að hráefninu. „Það er synd að ekkert af þessum öflugu sjávarútvegsfyrirtækjum sem við eigum skuli ekki reyna að gera aðra tilraun með veiðar á túnfiski en þarna er á ferðinni auðlind sem ætti að geta skilað eins og einum milljarði inn í þjóðarbúið.“