Heimildaleikhús Karin McCracken heldur utan um verkið Yes Yes Yes.
Heimildaleikhús Karin McCracken heldur utan um verkið Yes Yes Yes. — Ljósmynd/Megan Goldman
„Við höfum mikla ástríðu fyrir því að rannsaka kynbundið ofbeldi og kynferðisofbeldi og höfum báðar unnið í forvarnarverkefnum í tengslum við það utan leikhússins,“ segir nýsjálenska leikkonan Karin McCracken um samstarf sitt við…

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Við höfum mikla ástríðu fyrir því að rannsaka kynbundið ofbeldi og kynferðisofbeldi og höfum báðar unnið í forvarnarverkefnum í tengslum við það utan leikhússins,“ segir nýsjálenska leikkonan Karin McCracken um samstarf sitt við leikstjórann Eleanor Bishop en verk þeirra Yes Yes Yes verður sýnt 2. og 3. júní kl. 20 í Tjarnarbíói sem hluti af Listahátíð í Reykjavík.

McCracken segir þær hafa viljað gera verk sem væri sniðið að unglingum. „Eitthvað sem við hefðum viljað sjá þegar við vorum 16 ára. Það var aldrei talað um samþykki í samhengi við kynlíf þegar ég var yngri.“

Sýningin er sögð takast á við snúin en brýn viðfangsefni á borð við heilbrigð sambönd, þrá og samþykki. „Við vildum tala við áhorfendur sem jafningja og það er ein af ástæðunum fyrir því að ég segi sögu af einnar nætur kynnum sem ég átti. Ég hefði viljað heyra svoleiðis reynslusögu þegar ég var unglingur frekar en endalaus boð og bönn. Stóra áskorunin er að hljóma ekki eins og við séum að predika,“ segir McCracken.

„Við vissum að við yrðum að vinna með ungu fólki og fórum þess vegna í skóla á Nýja-Sjálandi, unnum með leiklistarnemum og fengum álit þeirra á því sem við vorum að gera. Þar sem verkið snýst um líf ungs fólks þá vildum við vita hvort við værum á réttri leið og kynna okkur hvaða vandamál blöstu við þessari kynslóð.“

Myndbönd með viðtölum við ungt fólk eru hluti af sýningunni. „Okkur þótti mikilvægt að raddir þeirra væru hluti af verkinu,“ segir McCracken. Myndbönd með ungum Íslendingum hafa verið framleidd sérstaklega fyrir sýningarnar hér á landi og segist hún spennt að sjá hvernig þau komi út. „Það er svo verðmætt að heyra raddir úr því samfélagi sem við göngum inn í.“

Hún segir fræðslu um samþykki eiga heima í hverri kennslustofu í heiminum en tekur þó fram að í slíkum aðstæðum séu möguleikarnir takmarkaðir. Í leikhúsinu sé meira rými til þess að kafa í þær flóknu tilfinningar sem þessu tengjast.

„Við ákváðum að gera þetta að einleik af því hvað efniviðurinn er viðkvæmur. Það að ég geti skapað beint samband við áhorfendurna og þeir geti treyst mér virkar vel í þessu samhengi. Mér finnst mitt hlutverk vera að miðla frásögnunum og tryggja að öllum í salnum líði vel.“

Verkið er þátttökuverk svo McCracken er í miklum samskiptum við áhorfendur og þeim gefst tækifæri til að skapa sýninguna með henni. „Það getur verið flókið þegar við fáum frásagnir úr áhorfendabekkjum um kynferðislegt ofbeldi en ramminn í kringum verkið er þannig að allir ættu að upplifa öryggi.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir