Eftir allt havaríið ætlar Landsbankinn að klára kaupin á TM

Margir voru furðu lostnir þegar tilkynnt var að Landsbankinn hygðist kaupa tryggingafélagið TM. Eigendur Landsbankans munu vera um 900, en þar er hins vegar einn stærstur. Ríkið á 98,2% hlut í bankanum. Landsbankinn er því ríkisbanki.

Stefna núverandi ríkisstjórnar er ekki að auka umsvif ríkisins í atvinnulífinu. Það var því augljóst að þessi áform, hvernig sem þau eru rökstudd (gamla samlegðaráhrifalumman er þar örugglega ofarlega á lista), ganga þvert á vilja og stefnu eigandans.

Það er ráðgáta hvernig stjórnendum Landsbankans datt í hug að efna til þessara kaupa. Þau hefðu ekki átt að hvarfla að þeim.

Hinum áformuðu kaupum var mótmælt harkalega. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var þá fjármálaráðherra og sagðist ekki myndu samþykkja kaup ríkisbanka á tryggingafélagi í einkaeigu nema um leið yrði hafist handa við að selja bankann. Svo er ekki.

Bankasýsla ríkisins mótmælti einnig og gerði athugasemdir við að hún hefði ekki verið upplýst um þessar fyrirætlanir. Í kjölfarið var bankaráð Landsbankans sett af á aðalfundi og nýtt tók við í staðinn.

Í fyrradag var tilkynnt að fulltrúar Kviku banka og Landsbankans hefðu undirritað samning um kaup Landsbankans á TM. Þetta er skrítin lending og vandræðaleg.

Hún er einnig afleit vegna þess að ríkisbanki á ekkert með færa út kvíarnar með þessum hætti og þrengja að einkarekstri. Ríkið á þvert á móti að leita leiða til að draga úr umsvifum sínum, halda að sér höndum og láta vera að skekkja samkeppni.