Elísabet Hauksdóttir fæddist 30. nóvember 1949 í Reykjavík. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 10. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Haukur Georgsson, f. 8. febrúar 1927, d. 12. júní 1980, og Eyrún Sigríður Sigurðardóttir, f. 28. maí 1928, d. 14. febrúar 1969. Systkini Elísabetar eru Örn Björnsson, f. 25. ágúst 1947, Valgerður Inga Hauksdóttir, f. 27. febrúar 1951, d. 5. júlí 2013, Hugrún Björk Hauksdóttir, f. 26. nóvember 1953, Sigurður Pétur Hauksson, f. 29. júlí 1955, og Hjördís Hrönn Hauksdóttir, f. 14. ágúst 1956.

Elísabet giftist hinn 20. apríl 1969 Gesti Breiðfjörð Gestssyni skipstjóra, f. 2. október 1943, d. 23. mars 2004. Börn Elísabetar og Gests eru: 1) Sigurður Haukur, f. 30. ágúst 1968. Börn Sigurðar eru Tanja Dögg, f. 7. janúar 1994. Hún er gift Bjarka Frey Magnússyni, f. 1994. Sonur þeirra er Gabríel Máni, f. 2019. Gestur Breiðfjörð, f. 2008, Styrmir Haukur, f. 2009, og Ragnheiður Sara, f. 2018. 2) Eyrún Sigríður, f. 19. október 1970. Hún er gift Gísla Þór Arnarsyni, f. 1972. Dætur Eyrúnar úr fyrri samböndum eru Vera Sif Rúnarsdóttir, f. 1993. Hún er gift Ágústi Ásbjörnssyni, f. 1980. Börn þeirra eru Indía Nótt, f. 2016, Rökkvi, f. 2018, og Máni, f. 2018. Alma Dögg Kristinsdóttir, f. 1999. 3) Gestur Breiðfjörð, f. 23. júlí 1975. Börn Gests eru Natan Smári, f. 2000, Elísabet Björk, f. 2005, Ísabella Björk, f. 2007, og Gestur Breiðfjörð, f. 2010. 4) Draupnir, f. 18. janúar 1980, d. 13. apríl 2018.

Elísabet ólst upp víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Þau Gestur hófu búskap á Freyjugötu í Reykjavík en keyptu fljótlega sína fyrstu íbúð á Hjallabraut í Hafnarfirði. Frá þeim tíma bjó Elísabet í Hafnarfirði.

Elísabet var oft í sveit á Kollabúðum á Barðaströnd hjá Sigurði afa sínum. Hún gekk ung í Húsmæðraskólann á Laugum í Þingeyjarsýslu.

Elísabet vann ýmis afgreiðslustörf en var lengstum heimavinnandi og sá um börn sín fjögur á meðan Gestur var á sjó.

Hún var mjög virk í kvenfélaginu Öldunni og var formaður þar um tíma.

Útför Elísabetar fór fram í kyrrþey að hennar ósk hinn 24. maí 2024 frá Garðakirkju.

Elsku amma, ég trúi ekki að þú sért farin, aðeins 74 ára ung. Ekki hvarflaði að mér að svona stutt væri eftir, enda varstu alltaf á leiðinni heim. Það var líka það sem var svo einkennandi fyrir þig, bara bíta á jaxlinn og áfram gakk – aldrei gefast upp. Eiginleikar sem héldu þér á floti í lífsins ólgusjó.

Amma var rúmlega fertug þegar hún greindist fyrst með krabbamein. Afi var skipstjóri á frystitogara og því varð að taka ákvörðun, annaðhvort myndi afi hætta að vinna eða við mamma flyttum til þeirra á meðan amma væri í krabbameinsmeðferð. Úr varð að ég og mamma fluttum til þeirra í Gulahúsið, mamma rúmlega tvítug, einstæð móðir sem hafði nýlega opnað eigin rekstur, og ég þriggja ára. Í Gulahúsinu úthlutaði amma mér ýmsum verkefnum, svo sem að vökva blómin og gefa gullfiskunum, að ógleymdu því allra erfiðasta, að vekja Draupni. Ósjaldan sátum við amma saman niðri í eldhúsi, hún með morgunbollann og eina sígó að leggja kapal, og ég hringjandi úr dyrasímanum frá eldhúsinu sem var beintengdur í vegginn við rúmgaflinn hjá Draupni. Ég minnist ekki ömmu sem sjúklings á þessum tíma, þótt ég viti í dag að henni hafi ekki verið gefnar háar lífslíkur og geislameðferðin hafi tekið virkilega á, enda kenndi amma sér aldrei meins.

Amma var mikill fagurkeri, elskaði að klæðast fallegum fötum, skóm og skartgripum frá einhverjum fínum merkjum og fór aldrei út úr húsi án þess að setja upp andlit eins og hún orðaði það sjálf. Amma var líka listræn, skapandi og handlagin. Hún saumaði til að mynda brúðarkjólinn sinn sjálf og töfraði fram ótal fallega glermuni sem við erum svo heppin að hafa fengið að njóta góðs af. Amma bakaði líka bestu kökurnar og sá til þess að ekkert skorti á jólum, áramótum eða í afmælum. Hún var líka matgæðingur mikill og þótt hún hafi búið meira og minna ein frá því að afi lést árið 2004 hikaði hún ekki við að gera vel við sig í mat og drykk. Hún kunni svo sannarlega að njóta.

Heimili ömmu var alltaf opið, hvað sem á dundi, en hjá henni var líka svo gott að vera. Sjálf ákvað ég að flytja til ömmu um tíma, á hápunkti gelgjunnar, löngu búin að úrskurða alla aðra vonlausa og afskiptasama. Ég veit að það var ekki auðvelt að búa með mér á þessum tíma en einhvern veginn kom okkur ömmu alltaf vel saman. Hún hlustaði á það sem maður hafði að segja og lét mann svo nákvæmlega vita hvað henni fannst, enda ekki þekkt fyrir að liggja á sínum skoðunum. Amma var einnig ávallt sannkallaður haukur í horni sinna nánustu og svo einkennandi hve þétt hún stóð við bakið á sínu fólki. Það var eiginlega alveg sama hvað eitthvert okkar gerði eða í hvaða aðstæður við komum okkur, aldrei var við hennar fólk að sakast, ekki í hennar bókum.

Elsku amma, mikið er erfitt að geta ekki hringt og spjallað eins og við vorum vanar að gera allavega einu sinni á dag. Hver á núna að kenna börnunum mínum að blóta? Eða kýla Gústa í öxlina þegar hann stríðir of mikið? Ég hugga mig þó við þá tilhugsun að vita af þér loksins í faðmi afa, Draupnis og allra hinna sem biðu eftir þér í sumarlandinu. Góða ferð, elsku amma mín, þangað til næst.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Presthólum)

Þín

Vera Sif Rúnarsdóttir.

Elsku Elsa mín, ég trúi því ekki ennþá að þú sért farin og komir ekki aftur.

Ég man svo vel þegar ég hitti þig fyrst, þér leist alls ekkert á mig svona mikið eldri en hún Vera þín og fékk ég sko að heyra það að ég skyldi sko koma vel fram við hana eða hafa verra af.

Það sem einkenndi þig var hvað þú varst filterslaus, sagðir hlutina bara nákvæmlega eins og þér fannst þeir vera, sem ég hafði svo ofboðslega gaman af.

Svo var það svo ríkt í þínu eðli að passa upp á fólkið þitt. Ég er svo ánægður að hafa fengið að kynnast þér og fengið að vera einn af þínum. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til þín hvort sem það var í mat eða kaffi, þá var alltaf hugsað fyrir öllu. Svo græjaðirðu ísinn á gamlárskvöld, marengskökurnar í afmælin og allar sortirnar af smákökum um jólin og þá passaðir þú líka að allir fengju sína uppáhaldssort, alveg sama þótt enginn annar borðaði hana.

Þú sást til þess að öllum liði vel en hlúðir kannski minnst að sjálfri þér. Líf þitt var svo sannarlega ekki alltaf dans á rósum og hvert áfallið á eftir öðru, en alltaf stóðst þú eins og klettur sem ekkert bar á.

Ég veit að þú ert komin í sumarlandið til allra sem biðu þín þar, alveg pottþétt með hlaðborð fullt af kræsingum og skálar í góðu rauðvíni.

Þangað til næst, elsku Elsa mín, og mun ég gera mitt allra besta til þess að passa upp á fólkið þitt.

Elska þig, þinn

Ágúst (Gústi).

Vorið 1983 fluttum við ásamt börnum okkar í Norðurbæ Hafnarfjarðar; fallegt og vinalegt hverfi.

Eins og gengur voru börnin voru fljót að finna sér nýja leikfélaga og vart var fyrsti dagur liðinn er Elvar, eldri sonur okkar, kom með átta ára jafnaldra sinn – hann Gest sem bjó rétt hjá. Einlæg vinátta þeirra félaga hefur staðið óhögguð til þessa. Í framhaldinu kynntumst við foreldrum hans, þeim Gesti og Elsu eins og hún var alltaf kölluð.

Það er erfitt að skilgreina vináttu sem er sambland af væntumþykju, trúnaði og virðingu og hvernig svo sem það æxlaðist myndaðist fljótt einlæg vinátta við þau Elsu og Gest – svo og börn þeirra sem haldist hefur alla tíð. Fyrir þau kynni erum við þakklát. Við minnumst matar- og veisluboða, áramótafagnaða, sumarferðar í Þórsmörk og margra fleiri samverustunda. Þá sem alltaf nutum við návistar þeirra að ógleymdum innlitum hvers til annars og daglegu spjalli.

Elsa fór í Húsmæðraskólann á Laugum og námið nýttist henni vel við heimilishaldið. Hún var bæði handlagin og vandvirk, saumaði á krakkana og óspör á að lána fatasnið þegar svo bar undir. M.a. saumaði hún íslenskan upphlut á Eyrúnu dóttur sína sem vitnar um listilegt handbragð. Þá hafði hún gaman af allri matseld og bakstri og alltaf var hægt að leita ráða hjá henni. Elsa stýrði heimilinu og á henni, sjómannskonunni, hvíldi að mestu leyti uppeldi barnanna. Gestur var langdvölum á sjó, aflasæll og vinsæll skipstjóri á frystitogurum. Í fríum reyndi Elsa að sjá til þess að Gestur gæti verið sem mest með fjölskyldunni.

Ófyrirséð og mikið áfall reið yfir þegar Gestur skipstjóri varð bráðkvaddur úti á sjó 2004. Draupnir var þá háseti hjá pabba sínum og hélt honum í örmum sér alla leið í land. Þetta var erfið lífsreynsla fyrir ungan mann. Annað áfall dundi svo yfir Elsu og fjölskyldu þegar Draupnir lést langt fyrir aldur fram, aðeins 38 ára gamall. Þá sem áður stóðu börnin eins og klettur við bak móður sinnar og hafa gert fram á þennan dag.

Elsa bognaði við þessa lífsreynslu en brotnaði ekki. Barnabörn og barnabarnabörn hennar fæddust hvert af öðru og voru þau sannkallaðir sólargeislar sem hún var stolt af og naut þess að hafa þau hjá sér. Hún var góð amma.

Með þessum fáu orðum viljum við og börn okkar öll af alhug þakka Elsu okkar fyrir samleiðina og vináttu í gegnum árin. Elskulegum börnum hennar og fjölskyldunni allri sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guð blessi Elsu og gefi henni sinn eilífa frið.

Kristjana og Níels Árni.