Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hefur farið á sjó með föður sínum á yngri árum en aldrei stóð til að gerast sjómaður. Örlögin lágu í aðra átt.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hefur farið á sjó með föður sínum á yngri árum en aldrei stóð til að gerast sjómaður. Örlögin lágu í aðra átt. — Morgunblaðið/Þorgeir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mér hefur alltaf fundist sjómannadagurinn sameiningartákn bæði sjómannastéttarinnar og fjölskyldna þeirra. Ég er nú sjómannsdóttir þannig að þetta var alltaf mikill hátíðisdagur þegar ég var stelpa og hefur alla tíð verið

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Mér hefur alltaf fundist sjómannadagurinn sameiningartákn bæði sjómannastéttarinnar og fjölskyldna þeirra. Ég er nú sjómannsdóttir þannig að þetta var alltaf mikill hátíðisdagur þegar ég var stelpa og hefur alla tíð verið. Það er mjög stór hátíð heima í Ólafsfirði á hverju ári. Það má með sanni segja að dagurinn skipti mig miklu máli,“ segir Bjarkey.

Hún segir daginn einnig til þess fallinn að minna á baráttu sjómanna. „Þetta er stétt sem hefur barist talsvert mikið fyrir réttindum sínum og fáir sem hafa fengið á sig jafn oft lög. Þetta lýsir kannski samstöðu sjómanna, þeir gefa ekkert eftir.“

Hefurðu sjálf farið á sjó?

„Já, já. Sigldi bæði til Danmerkur og Þýskalands og steig ölduna í Norðursjó.“

Migið í saltan sjó

Má þá fullyrða að ráðherrann hafi migið í saltan sjó?

„Það er alveg óhætt að segja það en ég var hins vegar mjög lítil og á mér var haldið þegar það gerðist,“ svarar Bjarkey og hlær. Hún útskýrir að hún hafi fengið að fara á sjó með föður sínum Gunnari Ásgeiri Hilmarssyni vélstjóra sem barn og unglingur.

Hún segir hins vegar að henni hafi aldrei dottið í hug að fylgja í fótspor föður síns. „Örlögin hafa valdið því oft á tíðum hvar maður lendir á hverjum tíma. Ég fór alveg óvart að leysa af sem kennari og ákvað síðan að læra kennslu og náms- og starfsráðgjöf. Tilviljanir hafa kannski ýtt manni þá leið sem maður hefur farið.

Sjómennskan var aldrei þannig að mig langaði að starfa við hana. Ég vann í frystihúsi og í Sigló síld. Maður vann við þetta í landi en það var heldur ekkert mikið um það á þessum árum, þegar ég var að ákveða hvað ég ætlaði að læra, að konur væru um borð, fyrir utan að maður fékk að flækjast með sem unglingur.“

Stór mál biðu afgreiðslu í matvælaráðuneytinu þegar Bjarkey tók við því og líklega ein umfangsmesta heildarendurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni sem unnin var í stefnumótunarverkefninu „Auðlindin okkar“ í tíð Svandísar Svavarsdóttur.

Bjarkey segir ljóst að ný heildarlög um fiskveiðar verði ekki til afgreiðslu á núverandi þingi enda lýkur þinghaldi um miðjan júní. „Það hefur verið unnin gríðarleg vinna í kringum „Auðlindina okkar“ og vinnan í sjálfu sér stendur á sterkum og góðum grunni. Það er búið að vanda til verka í öllu ferlinu að mínu mati. Málið kom úr samráðsgátt með töluverðan fjölda athugasemda og ég er kominn með það á mitt borð að fara yfir þær athugasemdir.

Að fenginni reynslu getur verið snúið að ná samkomulagi því greinarnar innan fiskveiðikerfisins eru ekki endilega sammála hver fyrir sig. Það er ekkert launungarmál að fyrri tilraunir til breytinga á fiskveiðilöggjöfinni á undanförnum áratugum hafa ekki gengið vel. Þess vegna var ákveðið að fara þessa leið, að vinna þetta með opnum, þverfaglegum og gagnsæjum hætti þar sem mjög margir komu að.“

Stefnir að breytingum á næstu vertíð

Fiskast hefur vel á strandveiðum sumarsins og bendir flest til þess að aflaheimildir veiðanna klárist á snemma í júlí. Spurð hvort líkur séu á því að einhverjar breytingar verði gerðar á yfirstandandi strandveiðivertíð til að tryggja strandveiðisjómönnum fleiri veiðidaga svarar Bjarkey:

„Ég hef hug á því að gera betur bæði með byggðakvótakerfin og strandveiðarnar en það þurfa nánast allar breytingar að fara í gegnum Alþingi. Mér hafa borist margar tillögur um alls konar útfærslur og lausnir til umbóta á kerfinu en það verður ekki gert með reglugerð heldur með lagasetningu. Það gefst bara ekki tími til þess á þessum fáu dögum sem eru eftir af þinghaldi.“

Hún kveðst ekki ætla að leggja til frjálsar handfæraveiðar en segist stefna að því að leggja fyrir Alþingi tillögu að umbótum á strandveiðikerfinu fyrir næstu vertíð.

Spurð hvort þurfi í lögum að veita ráðherra rýmri heimildir til að stýra strandveiðunum með reglugerð til að auka sveigjanleika, svarar Bjarkey því ekki afdráttarlaust. „Síðasta breyting [á strandveiðikerfinu] njörvaði þetta mjög fast niður og ég tel að það sé skynsamlegt að einhverju leyti sé hægt að hafa sveigjanleika. En á móti kemur að það er gott að lagaumhverfið sé skýrt þannig að allir viti að hverju þeir ganga. Þetta er einn af þeim þáttum sem ég á eftir að skoða nánar.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson