Jóhann Rúnar Björgvinsson
Jóhann Rúnar Björgvinsson
Verður ekki ágóðahvötin yfirsterkari vaxtabremsunni í skortstöðu á markaði?

Jóhann Rúnar Björgvinsson

Ekkert verður til úr engu! Að baki skrifum um þjóðarsátt á árunum 1987 og 1988 liggur ákveðin hagfræðisýn sem byggist meðal annars á reynslu höfundar af hinum efnahagslega veruleika, sérstaklega á Íslandi á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldar, sem reynst hafði erfitt að útskýra á viðunandi hátt út frá hinum hefðbundnu hagfræðikenningum, sem iðulega einfölduðu mjög starfsemi hagkerfisins með einföldum forsendum, svo notast mætti við aðferðafræði náttúruvísinda við smíði þeirra. Ef til vill er eðli hagaðilanna, hegðun og samskipti greinilegri á ójafnvægistímum, vegna meiri óvissu, sterkari hvatninga, brostinna væntinga, meiri árekstra milli hagaðila, og svo framvegis. Hagfræðisýnin var tilraun til að túlka betur eða skýra reynslu höfundar af efnahagsstarfsemi þess tíma.

Hún byggist á hinni almennu kenningu J.M. Keynes frá 1936, en er almennari þar sem hún fjallar ekki að sama skapi um hið almenna jafnvægi; hún hefur aðrar áherslur varðandi hina virku eftirspurn, aðra skilgreiningu á peningum, annað sjónarhorn á eftirspurn peninga og á vaxta- og fjárfestingarákvarðanir, og á hlutverk vaxta. Að auki leggur hún aðrar áherslur á skammtímavæntingar, á mikilvægi mismunandi kostnaðar, og á þátt hins opinbera sem innri þátttakanda í starfsemi hagkerfisins, svo hið helsta sé nefnt.

Hagfræðikenningin var að mestu samin á árunum 1982-1984 með styrk frá Uppsalaháskóla og birtist í ritinu „Hagfræðiþankar frá Uppsalaárum“. Hún lýsir hegðun og samskiptum hagaðila í hagkerfi þar sem óvissan um framtíðina er snar þáttur og óumflýjanleg staðreynd; hún er ekki of almenn og ekki of einföld, heldur tilraun til að einfalda veruleikann. Í hagkerfi raunveruleikans, þar sem vitneskjan um framtíðina er takmörkuð, er líklegt að efnahagslegt ójafnvægi sé hið almenna ástand, og því hið áhugaverðasta frá sjónarhorni hagvísindanna, ásamt þeim þáttum sem þar liggja að baki. Markmið hagvísindanna er ekki að setja efnahagsveruleikanum skilyrði, heldur að lýsa honum og skilyrðum hans. Í þeim veruleika starfar t.d. hið opinbera sem hagaðili meðal annarra hagaðila.

Við efnahagsráðgjöf er mikilvægt að finna hinn gullna meðalveg, þ.e.a.s. að beita ekki hagfræðikenningum byggðum á forsendum sem lítið hafa með hinn efnahagslega veruleika að gera eða kenningum svo almennum að þær hafa litið til málanna að leggja. Oft er togstreita milli kenninga um tilvist framtíðaróvissu; sé óvissan enginn verður tíminn enginn eða m.ö.o. allt er vitað í núinu og hægt er að beita lógík stærðfræðinnar til hins ýtrasta (félagsvísindi vs. raunvísindi). Miklu skiptir að vera með raunsanna spegilmynd af hinum efnahagslega veruleika því feiknamikið er undir fyrir velferð samfélagsins og á það við um Seðlabankann sem og aðra.

Höfundur er fv. starfsmaður AGS.