Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hyggst ekki auka notkun gervigreindar til að veita læknisfræðilegar ráðleggingar. Í sumum löndum er það fyrirkomulag en þar eru læknar að benda fólki á að notast við gervigreindina þar sem hún geti svarað sumu betur en læknar

Drífa Lýðsdóttir

drifa@mbl.is

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hyggst ekki auka notkun gervigreindar til að veita læknisfræðilegar ráðleggingar. Í sumum löndum er það fyrirkomulag en þar eru læknar að benda fólki á að notast við gervigreindina þar sem hún geti svarað sumu betur en læknar.

„Við erum ekki komin þangað að láta gervigreindina svara alfarið fyrir okkur,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við Morgunblaðið.

Þá segir hún heilsugæsluna notast við gervigreind upp að vissu marki, þá helst til að hjálpa við flokkun erinda og gera feril þeirra skilvirkari.

Spurð hvort áhugi sé fyrir því að prófa slíkt kerfi segist Sigríður fylgjast með allri þróun gervigreindar á þessu sviði og vilji sjá hvert þetta leiði. Svona fyrirkomulag geti reynst varasamt.

Sigríður segir lítið sem ekkert vitað um ábyrgðina eða hvar gervigreindin sæki upplýsingar sínar. Vill hún frekar að fólk notist við upplýsingasíður heilsugæslunnar þar sem hægt er að finna staðreyndar uppýsingar frá fagfólki.

„Ég held að rafrænar lausnir komi ekki nokkurn tímann alfarið í staðinn fyrir manninn,“ segir Sigríður. Þó notar heilsugæslan gervigreind til að flokka erindi og veita fólki ráðleggingar á frumstigi. Einstaklingur sendir spjallmenni á Heilsuveru skilaboð um áverka eða slíkt og gervigreindin flokkar málið eftir aldri og tegund áverka og veitir ráðleggingar upp að vissu marki. Síðan eru einstaklingar áframsendir til hjúkrunarfræðings sem veitir þeim skilvirkari ráð.

„Gervigreindin kemur, við þurfum bara að velja hvernig við nýtum hana,“ bætir Sigríður við.