Kjörfundur Sjálf kosningin er aðeins hluti gangverks lýðræðisins, það kostar sitt að bjóða sig fram og kynna sig og sín mál fyrir kjósendum.
Kjörfundur Sjálf kosningin er aðeins hluti gangverks lýðræðisins, það kostar sitt að bjóða sig fram og kynna sig og sín mál fyrir kjósendum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kosningabaráttan er á enda og þjóðin hefur fengið að kynnast forsetaframbjóðendunum tólf og sjónarmiðum þeirra með ýmsum hætti. Á fundum, viðtölum og félagsmiðlum, auk beinharðra auglýsinga. Allt kostar það peninga, hvað sem öllum sjálfboðaliðum líður

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Kosningabaráttan er á enda og þjóðin hefur fengið að kynnast forsetaframbjóðendunum tólf og sjónarmiðum þeirra með ýmsum hætti. Á fundum, viðtölum og félagsmiðlum, auk beinharðra auglýsinga. Allt kostar það peninga, hvað sem öllum sjálfboðaliðum líður.

Sem getur vakið spurningar, því alls staðar má hafa réttmætar áhyggjur af fjármálum í kringum kosningar. Þá bæði vegna ótta við að einhverjir geti haft frambjóðendur í veskisvasanum, að unnt sé að kaupa kosningar, nú eða að það sé ekki á færi annarra en auðmanna að bjóða sig fram með myndarbrag.

Til að fyrirbyggja slíkt voru sett lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda árið 2006. Þau bera með sér að vera samin í samráði við stjórnmálaflokkana og miðast mikið við alþingiskosningar, þó þau nái til annarra kosninga og prófkjöra. Þar á meðal til forsetakosninga.

Hófleg útgjöld nú

Almenningi vex kostnaður framboða oft í augum, finnst mögulega margt vera skrum og sérstaklega hjá öðrum framboðum en „sínu“. Ekki er þó víst að það standist skoðun. Helstu framboð hafa verið innt eftir kostnaðinum, en þó að hann liggi tæplega allur fyrir – og ekki óþekkt að hann fari úr böndunum á lokametrunum – er ekki hægt að segja að hann sé ótæpilegur.

Þannig telur kosningastjórn Höllu Tómasdóttur að hann fari ekki yfir upphaflega áætlun um 20-25 milljónir króna, í herbúðum Baldurs Þórhallssonar er talað um að hann fari ekki langt yfir 20 milljónir, kosningateymi Höllu Hrundar telur að hann muni reynast rúmar 20 milljónir, en á kosningaskrifstofu Katrínar Jakobsdóttur er talið að hann muni reynast nær 40 milljónum þegar upp er staðið.

Um slíka aura munar sjálfsagt flesta, en það þykja engin ósköp í snarpri tveggja mánaða markaðsherferð um land allt.

Einnig er vert að hafa í huga að lög mæla fyrir um hámarkskostnað í slíkri baráttu, sem miðast við fjölda á kjörskrá. Það hámark er tæpar 75 milljónir og fyrrnefndar útgjaldaáætlanir allra frambjóðenda eru þar langt undir.

Til samanburðar má líka líta til fortíðar. Árið 1996 kostaði kosningabarátta Ólafs Ragnars Grímssonar þannig 42 milljónir króna, en núvirt ræðir þar um 162 milljónir króna. Árið 2015 kostaði kosningabarátta Guðna Th. Jóhannessonar 25 m.kr., sem núvirt stendur í 36 m.kr. Í því samhengi er kosningabarátta helstu frambjóðenda nú ekkert bruðl.

Kostnaðurinn er að vísu ekki sá sami og áður. Fjölmiðlum hefur fækkað og baráttan á sér aðallega stað á félagsmiðlum fram að síðustu 1-2 vikunum, en þeir eru ódýr auglýsingamiðill, þó deilt sé um hversu áhrifaríkir þeir séu.

Erfið tekjuöflun

En það þarf að eiga fyrir þessum kostnaði og framboðin hafa búið sér til ýmsar tekjulindir, en mestu munar um fjárframlög einstaklinga; lögaðilar munu tregari til. Þeir styrkir til forsetaframbjóðanda mega að hámarki nema 400.000 kr. á hvern gefanda.

Og það þýðir ekki að senda reikningana annað, taka við styrkjum í formi vöru eða þjónustu, nú eða láta fyrirtæki úti í bæ sjá um auglýsingabirtingar. Allt slíkt þarf að meta til fjár og þar gildir sama 400.000 kr. hámarkið, en ríkisendurskoðandi fer í saumana á því öllu eftir kosningar.

Þessar þröngu skorður við tekjuöflun eru ástæður styrkja til stjórnmálaflokka, sem á liðnu ári námu alls 692 milljónum kr. Forsetaframbjóðendur fá enga slíka styrki og geta ólíkt flokkunum ekki fengið endurgreiðslu vegna kostnaðar, virðisaukaskatts eða ámóta.

Það þrengir mjög að frambjóðendum, enda hefur komið í ljós að sumir forsetaframbjóðenda nú standa straum af baráttunni með því að ganga á sparifé, taka lán eða ámóta. Morgunblaðið hefur þannig áreiðanlegar heimildir fyrir því að einn af efstu frambjóðendunum muni þurfa að bera vel ríflega þriðjung kostnaðarins persónulega.

Það hlýtur að vekja spurningar um hvort lögin þjóni lýðræðinu vel ef ekki er óhætt að bjóða sig fram af alvöru nema menn þoli slíkan skell.

Fjármál framboða

Ýtarleg lög og reglugerðir gilda um fjármál framboða.

Forsetaframbjóðendur mega þiggja mest 400.000 kr. í styrk frá einstaklingi eða lögaðila.

Önnur framlög þarf að meta til fjár skv. sömu reglum.

Útgjöld mega að hámarki vera tæpar 75 milljónir króna.

Forsetaframboð njóta engra ríkisstyrkja eða ívilnana.