Gríðarlegur vöxtru hefur orðið í vöruútflutningi frá Þorlákshöfn með tilkomu þjónustu svokallaðra RO-RO skipa Smyril Line.
Gríðarlegur vöxtru hefur orðið í vöruútflutningi frá Þorlákshöfn með tilkomu þjónustu svokallaðra RO-RO skipa Smyril Line. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjómannadagurinn hefur verið einn af þessum stærstu hátíðisdögum ársins allt frá ég man eftir mér. Jafnvel þeir sem unnu ekki beint við sjóinn lifðu og hrærðust í þessu umhverfi og hagur eins var hagur allra

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Sjómannadagurinn hefur verið einn af þessum stærstu hátíðisdögum ársins allt frá ég man eftir mér. Jafnvel þeir sem unnu ekki beint við sjóinn lifðu og hrærðust í þessu umhverfi og hagur eins var hagur allra. Þannig að við vorum allataf öll meðvituð um hversu mikilvægt þetta var og við vorum bæði að fagna sjómönnum en líka fann maður það, en maður skildi það kannski ekki akkúrat þá, að við værum líka að þakka fyrir það þegar vel gekk og þjappa okkur saman þegar illa gekk,“ svarar Elliði spurður um hvað sjómannadagurinn merkir í huga hans, en hann er uppalinn í Vestmannaeyjum.

Hann kveðst bera mikla virðingu fyrir starfi sjómanna ekki síst þar sem hann hafi sjálfur farið nokkra túra. „Ég gerði það þegar ég var ungur maður og fann það aldrei tilhlíðandi að prufa ekki að verða sjómaður og athuga hversu góður sjómaður ég væri. Það þurfti ekki marga túra til að komast að því að ég væri arfa slakur sjómaður. Ég hygg að ég hafi gert landi og þjóð mikinn greiða með því að verða hvorki sjómaður né iðnaðarmaður,“ segir Elliði og hlær.

„Ég réri á tveimur ísfisktogurum frá Eyjum og varð afskaplega sjóveikur. Það eru gamlir sjómenn sem gauka því að mér ef við setjumst niður yfir krús á þjóðhátíð eða goslok, að fyrsta skiptið sem ég kom á dekk var ég með gallann girtan ofaní stígvélin. Það var kannski vísbending um hversu mikið ég vissi, en ég er ánægður með að hafa öðlast þessa reynslu.“

Byggðin verður til á grundvelli sjómennsku

Þorlákshöfn þar sem Elliði nú býr er bundin sjósókn sterkum böndum. „Þorlákshöfn byggist upp út frá útræði öráfi alda og var ein helsta fiskihöfn landsins um hundruð ára, bæði Selvogur og Þorlákshöfn. Byggðin verður til á grundvelli sjómennsku og eflist enn frekar þegar Kaupfélag Árnesinga byggir hér höfn og fiskvinnslu. Þetta er alveg innprentað í erfðaefni samfélagsins á svæðinu.“

Það sem af er yfirstandandi fiskveiðiári hefur verið landað rúmlega átján þúsund tonnum í Þorlákshöfn, þar af meira en níu þúsund tonn af þorski, rúmlega þrjú þúsund tonn af ýsu og tæplega tæp 2.800 tonn af ufsa.

Elliði viðurkennir þó að sjósókn er ekki lengur stundið í jan miklum mæli nú og áður. „Þó að útræði hafi hér breyst eins og víðast hvar, þá er þetta enn mjög sterkur útgerðarstaður. Til viðbótar fer drjúgur hluti af sjávarafurðum Íslendinga um höfnina vegna fraktflutninganna sem hér eru svo sterkir í dag. Ég held það eigi við um alla þá staði sem enn þrífast í skjóli sjávarútvegsins að það séu þeir staðir sem hafa aðlagast þeim breytingum sem hafa orðið í greininni.“

Finnst þér starf sjómannsins metins jafn mikils nú og áður?

„Sjómaðurinn er svo sannarlega metins jafn mikils og hann hefur alltaf verið, en auðvitað eru störfin í kringum fiskveiðar beint ekki jafn hátt hlutfall og var fyrir einhverjum áratugum og er það saga sjávarútvegsins um land allt. Hér myndi ég segja að samfélagið væri mjög meðvitað um mikilvægi starfs sjómanna, en þó störfum sjómanna hafi fækkað hefur störfum sem tengjast greininni fjölgað hratt og fjöldi þeirra starfa hafa blessunarlega orðið til hér.“

Hátíðardagskrá verður sjómannadagshelgina í Þorlákshöfn.