Strandveiðibátur leggst að bryggju á Arnarstapa. Kjartan Páll Sveinsson segir strandveiðarnar hafa verið vítamínsprautu fyrir margar byggðir.
Strandveiðibátur leggst að bryggju á Arnarstapa. Kjartan Páll Sveinsson segir strandveiðarnar hafa verið vítamínsprautu fyrir margar byggðir. — Morgunblaðið/Alfons Finnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjartan Páll Sveinsson segir stjórnvöld ekki enn hafa gert nauðsynlegar breytingar á strandveiðikerfinu, þótt öll rök hnígi að því að lagfæra og uppfæra kerfið í samræmi við tillögur sjómanna. Kjartan er formaður Strandveiðifélags Íslands og segir…

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Kjartan Páll Sveinsson segir stjórnvöld ekki enn hafa gert nauðsynlegar breytingar á strandveiðikerfinu, þótt öll rök hnígi að því að lagfæra og uppfæra kerfið í samræmi við tillögur sjómanna.

Kjartan er formaður Strandveiðifélags Íslands og segir hann kröfurnar ekki flóknar: „Það sem við viljum er að kerfið sé þannig hannað að við getum haft lifibrauð af þessum veiðum. Það sem við höfum lagt til er að þeim sem stunda strandveiðar séu tryggðir þessir 48 veiðidagar yfir vertíðina og að ramminn utan um veiðarnar verði stækkaður úr fjórum mánuðum í sex, þ.e. frá apríl út september. Þá er löngu tímabært að leggja niður svæðaskiptingu strandveiða og að bæði veiðar og pottur séu eitt svæði fyrir landið allt, svo að trillusjómenn geti gert eins og þeir hafa gert kynslóð fram af kynslóð: ferðast umhverfis landið til að fiska á þeim stöðum þar sem fiskurinn gefur sig hverju sinni,“ segir Kjartan en bent hefur verið á að kerfið í núverandi mynd henti mjög illa fyrir þá sem mega veiða á svokölluðum B- og C-svæðum norður og austur af landinu.

„Ég hef mikla samúð með þeim sem eru bundnir við þessi veiðisvæði því reynslan hefur sýnt að þegar fiskurinn færir sig loksins norður og aðstæður þar verða heppilegar til veiða, þá er búð að tæma allan pottinn. Lausnin á þeim vanda er ekki að skipta pottinum líka upp á milli veiðisvæða heldur einfaldlega gera miðin um hverfis Ísland að einu veiðisvæði með einn pott og sjá til þess að hann dugi út vertíðina.“

Hafa fyrir tekjunum

Til upprifjunar fyrir lesendur þá hefjast strandveiðar 2. maí og eru heimilar í fjóra mánuði. Hver bátur má vera við veiðar tólf daga í mánuði, og aðeins frá mánudegi til fimmtudags. Þá má að hámarki koma með 774 kg af óslægðum afla í land á sólarhring. Stjórnvöld ákvarða heildarkvóta fyrir strandveiðarnar allar og eru veiðar stöðvaðar þegar kvótinn er fullnýttur.

Nú gætu sumir lesendur hafa tekið fram reiknistokkinn, og fengið það út að strandveiðimenn geti vel við unað ef gott verð fæst fyrir aflann og veiðarnar ganga vel – og það með vinnu sem nær aðeins yfir nokkra mánuði á ári. Kjartan kannast við þannig umræðu en segir veiðidagafjöldann og söluverð aflans ekki gefa rétta mynd af þeim tekjum sem hafa má af veiðunum og þeirri miklu vinnu sem strandveiðarnar útheimta:

„Vinnudagarnir eru mjög langir og vinnan krefjandi, og algengt að hver róður taki um 14 klukkustundir. Svo er það ágætis þumalputtaregla að fyrir hverja tvo daga á sjó fari einn vinnudagur í landi í alls konar viðhald. Þá fer líka drjúgur tími í að undirbúa veiðitímabilið og pakka saman þegar veiðum er lokið. Þegar allt þetta er tekið með í reikninginn myndu 48 veiðidagar yfir sex mánaða veiðitímabil vera ansi nálægt ígildi 100% vinnu frá níu til fimm á ársgrundvelli. Tímakaupið er alveg ásættanlegt, kannski svipað og hjá lærðum iðnaðarmönnum, en langt í frá að vera óhóflegt.“

Tekjuhliðin segir Kjartan að geti verið mjög breytileg enda allur gangur á því hve vel fiskast og hvaða verð fæst fyrir aflann, en frá tekjunum þarf síðan að draga rekstrarkostnað bátsins og þá fjárfestingu sem lögð hefur verið í bátinn og veiðarfærin.

Fleiri störf og betra verð

Kjartan bendir á að það ætti ekki að valda öðrum útgerðum miklum búsifjum þótt liðkað væri fyrir strandveiðunum en strandveiðikerfinu er að jafnaði úthlutað á bilinu 1-2% af heildarkvóta hvers árs, eða í kringum 10.000 tonnum af fiski. „Og þessi 10.000 tonn skapa um 750 einstaklingum atvinnu, en til samanburðar þá gæti einn ísfisktogari veitt sama magn og kannski verið með 30 manns í vinnu. Mælt í störfum er strandveiðikerfið því að skila um og yfir 20 sinnum meiri atvinnu en sami kvóti myndi skapa í aðalkerfinu.“

Þá minnir Kjartan á að strandveiðikerfið hafi mikið gildi fyrir brothættustu byggðir landsins og í mörgum smærri sjávarplássum hafi strandveiðarnar verið sannkölluð vítamínsprauta. „Það má nefna bæi á borð við Patreksfjörð sem fór mjög illa út úr kvótasetningunni á sínum tíma svo að þar var á tímabili hræðilegt ástand, en strandveiðarnar hafa reynst þeim mikilvæg lyftistöng. Svipaða sögu er að segja af sjávarþorpunum á Snæfellsnesi þar sem strandveiðunum hafa fylgt mikil uppgrip fyrir lítil bæjarfélög.“

Loks segir Kjartan að strandveiðarnar hafi það með sér að smærra kolefnisspor fylgir hverju kílói af afla og hærra verð fæst fyrir vöruna á erlendum mörkuðum. „Það má færa fyrir því rök að það sé þjóðhagslega hagkvæmast að fá hærra verð frekar en lægra fyrir þessa útflutningsvöru, en á síðasta ári seldist krókaveiddur fiskur af trillu fyrir um 24% hærra verð en togaraveiddur.“

Skýringuna á veðrmuninum segir Kjartan vera að fiskurinn sé meðhöndlaður með allt öðrum hætti þegar hann er veiddur á krók og dreginn upp í smábát. „Hann verður ekki fyrir hnjaski og er hvorki marinn né kraminn, og fiskurinn er blóðgaður á innan við mínútu eftir að hann hefur verið dreginn úr sjó. Þá er hann settur strax í krapa og kældur niður í hálfa selsíusgráðu, og landað sama dag,“ útskýrir Kjartan. „Ég veit ekki hvort hinn almenni neytandi á erlendum mörkuðum myndi geta greint muninn ef hann fengi á diskinn þorsk úr íslenska strandveiðikerfinu en samt sem áður er það í dag reglan, t.d. í breskum matvöruverslunum, að fiskurinn þar er merktur eftir veiðarfærum og fólk er tilbúið að borga meira fyrir krókaveiddan fisk. Fyrir utan gæðin erum við heldur ekki að hrófla við sjávarbotninum, meðafli er lítill sem enginn, við skiljum nánast ekkert plastrusl eftir okkur, og mætti fullyrða að strandveiðarnar væru mikilvægar fyrir jákvæða ásýnd íslensks sjávarútvegs.“

Bíða eftir viðbrögðum

Ekki er að heyra á Kjartani að hann sé mjög bjartsýnn á að stjórnvöld verði við óskum strandveiðimanna. „Það er rosalegur hiti í mönnum og okkur finnst við ekki vera að biðja um mikið. En stórútgerðin virðist þrýsta á stjórnmálamennin af mikilli festu, og þó er skerfur strandveiðikerfisins af heildarkvótanum minni en þær sveiflur sem vænta má á milli ára í ráðgjöf Hafró. Greinin hefur hingað til náð að lifa af sveiflur sem eru mun stærri en það brot sem er látið renna til strandveiða,“ segir hann. „Ég held að vandamálið sé kannski það að við erum að sýna fram á að það er þrátt fyrir allt hægt að stunda arðbærar og hagkvæmar fiskveiðar á vistvænan og félagslega ábyrgan máta.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson