Meginverkefni Sjómannadagsráðs er rekstur Hrafnistuheimilanna og er Aríel Pétursson formaður ráðsins vongóður um að senn geri stjórnvöld löngu tímabærar breytingar sem munu liðka til muna fyrir byggingu fleiri hjúkrunarheimila.
Meginverkefni Sjómannadagsráðs er rekstur Hrafnistuheimilanna og er Aríel Pétursson formaður ráðsins vongóður um að senn geri stjórnvöld löngu tímabærar breytingar sem munu liðka til muna fyrir byggingu fleiri hjúkrunarheimila. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sú breyting verður á sjómannadeginum í Reykjavík þetta árið að hátið Grindvíkinga, Sjóarinn síkáti, verður haldin þar samhliða. Aríel Pétursson er formaður Sjómannadagsráðs og segir hann að Grindvíkingar hafi tekið mjög vel í hugmyndina

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Sú breyting verður á sjómannadeginum í Reykjavík þetta árið að hátið Grindvíkinga, Sjóarinn síkáti, verður haldin þar samhliða. Aríel Pétursson er formaður Sjómannadagsráðs og segir hann að Grindvíkingar hafi tekið mjög vel í hugmyndina. „Samhugur okkar er með Grindvíkingum og þótti okkur tilvalið að bjóða Sjóaranum síkáta um borð þar til hátíðin getur aftur farið fram í Grindavík. Munu gestir geta fengið að upplifa fasta liði úr hátíð Grindvíkinga á borð við kajakróður og flekahlaup, en kvöldið fyrir sjómannadaginn verður haldið sérstakt bryggjuball fyrir Grindvíkinga.“

Tilgangurinn með þessu segir Aríel að sé ekki síst að leyfa Grindvíkingum að halda bæjarandanum lifandi en fljótlega eftir rýmingu bæjarins kom í ljós hve miklu það skipti fyrir bæjarbúa að geta komið saman við hátíðleg tækifæri og var t.d. nýlega haldið mjög vel heppnað þorrablót fyrir hópinn.

Að öðru leyti verður dagskráin með hefðbundnu sniði: Haldin verður minningarathöfn um týnda og drukknaða sjómenn í Fossvogskirkjugarði kl. 10 og í framhaldinu messað í Dómkirkjunni kl. 11. Sjómenn verða heiðraðir fyrir störf sín við hátíðlega athöfn í Hörpu kl. 14 og um svipað leyti hefst skemmtidagskráin við Reykjavíkurhöfn. Hátíðarsvæðið verður opnað kl. 11 en skemmtiatriði hefjast kl. 13.

Að vanda er viðburðurinn samstarfsverkefni Sjómannadagsráðs, Brims og Faxaflóahafna.

„Við erum með stútfulla dagskrá og mörg stór númer en meðal þeirra sem stíga á svið eru drengirnir í VÆB sem vöktu mikla lukku í Söngvakeppninni, auk þess sem Prettyboytjokkó og Herra Hnetusmjör munu láta ljós sitt skína, og Una Torfadóttir mun syngja með barnakór Grindavíkur,“ segir Aríel.

Á litla sviðinu, sem einkum er ætlað yngstu gestunum, verða íbúar Latabæjar í aðalhlutverki og að vanda verða furðufiskarnir á sínum stað og alls kyns bryggjusprell. Þá munu eflaust margir hafa gaman af að fylgjast með fræknum kempum gera sér það að leik að stökkva ofan í sjóinn af háum palli sem reistur verður við bryggjuna. Því miður verður ekki í boði þetta skiptið að fara í útsýnisferð á skipi Landhelgisgæslunnar en þess í stað kemur björgunarþyrla á svæðið og sýnir björgun úr sjó.

Aríel minnir á að gestir gefi sér góðan tíma til að njóta dagsins og noti vel þau bílastæði sem finna má víðs vegar um miðborgina. „Það eru stæði úti á Grandanum en þeir sem leggja næst hátíðarsvæðinu geta búist við að lenda í smávegis umferðarteppu á leiðinni heim og hvetjum við gesti til að leggja lengra í burtu og koma gangandi til hátíðarinnar, eða hjóla niður í miðbæinn en Eimskip mun útbúa sérstakt hjólastæði fyrir viðburðinn.“

Breytingar sem liðka fyrir fjölgun hjúkrunarheimila

Meginverkefni Sjómannadagsráðs er að sinna velferðarmálum sjómanna en félagið er að auki leiðandi í öldrunarþjónustu og rekur Hrafnistuheimilin sem nú eru orðin átta talsins. Undanfarin ár hefur mátt greina vaxandi áhyggjur af framtíð öldrunarþjónustu í landinu og málsmetandi aðilar varað við yfirvofandi skorti á rýmum og ört hækkandi kostnaði við að þjónusta hvern skjólstæðing.

Aríel segir nýja skýrslu stjórnvalda gefa tilefni til bjartsýni en skýrslan, sem hefur fengið jákvæð viðbrögð hjá heilbrigðisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu, leggur til breytingar á þeirri umgjörð sem hefur verið í kringum byggingu og rekstur hjúkrunarheimila. „Núgildandi reglur setja það á herðar ríkis og sveitarfélaga að reisa og reka þær fasteignir sem hýsa hjúkrunarheimili, en reynslan hefur sýnt að hið opinbera er ekkert sérstaklega góður fasteignaeigandi né skilvirkt þegar kemur að framkvæmdum, og auk þess lengi að bregðast við vaxandi þörf. Hefur þetta fyrirkomulag virkað hamlandi á uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma,“ útskýrir Aríel.

Verði tilmælum nýju skýrslunnar fylgt myndi ríkissjóður bera einn ábyrgð á fjármögnun og rekstri húsnæðis undir hjúkrunarþjónustu og myndi það opna fyrir þann möguleika að óhagnaðardrifin félög eins og Sjómannadagsráð reistu slík hús fyrir ríkið á grundvelli leigusamnings.

„Að hafa þann háttinn á myndi draga mjög úr flækjustiginu í kringum þessi verkefni og m.a. þýða að ekki þyrfti að standa fyrir löngum arkitektasamkeppnum eða útboðum sem tafið gætu framkvæmdir. Myndum við einfaldlega gera leigusamning til þetta 30-40 ára og reisa þá hjúkrunarheimili með hraði, og sjá svo um daglegan rekstur samkvæmt samningi við heilbrigðisyfirvöld.“

Aríel bendir á að Sjómannadagsráð hafi náð mjög góðum árangri þegar félagið hefur byggt hjúkrunarheimili. „Við reistum t.d. einstaklega fallegt og vel byggt hús við Sléttuveg þar sem íbúum og starfsfólki líður vel, og nam kostnaðurin 450.000 kr. á fermetra. Á sama tíma byggði hið opinbera hjúkrunarheimli á Selfossi sem kostaði tvöfalda þá upphæð.“

Aríel segir líka miklu skipta að húsnæðið sé hannað og innréttað af fólki með mikla þekkingu á þörfum hjúkrunarheimila og geta alls kyns smáatriði ýmist hækkað eða lækkað rekstrarkostnaðinn, en þegar litið er marga áratugi fram í tímann vegur daglegur rekstur mun þyngra en framkvæmdakostnaðurinn og er starfsmannakostnaður um 80% af kostnaðinum við rekstur Hrafnistuheimilanna.

Það getur líka breytt miklu ef einkaaðili á húsið: „Við urðum vör við leka í húsgafli á Hrafnistu í Laugarási, þar sem við erum eigendur fasteignarinnar, og innan viku var búið að gera bráðabirgðaviðgerð til að koma í veg fyrir frekari skemmdir og fór ítarlegri viðgerð fram eftir að snjóa tók að leysa,“ segir Aríel. „Í annarri fasteign þar sem við höfum starfsemi, en hið opinbera er húseigandinn, kom í ljós leki út frá tveimur gluggum. Það tók þrjú ár, kallaði á nokkrar úttektir og verkfræðiskýrslur, og mikið karp að fá úr því skorið hvaða stofnun bæri ábyrgð á að leysa vandann. Þegar var svo loksins hægt að ráðast í framkvæmdir þurfti að skipta út klæðningunni á heilum húsgafli vegna uppsafnaðra skemmda af leka í þrjú ár.“