Samstæða Þórsmerkur ehf. var rekin með 209 milljóna króna tapi árið 2023, en 244 milljóna króna tap var af rekstrinum árið á undan. Samstæða Þórsmerkur samanstendur af fjölmiðlafyrirtækinu Árvakri hf., útgefanda Morgunblaðsins, mbl.is og K100,…

Samstæða Þórsmerkur ehf. var rekin með 209 milljóna króna tapi árið 2023, en 244 milljóna króna tap var af rekstrinum árið á undan. Samstæða Þórsmerkur samanstendur af fjölmiðlafyrirtækinu Árvakri hf., útgefanda Morgunblaðsins, mbl.is og K100, prentsmiðjunni Landsprenti ehf., dreifingarfyrirtækinu Póstdreifingu ehf. og fasteignafélaginu Ári og degi ehf.

Tekjur Þórsmerkur drógust saman um rúmar tvö hundruð milljónir króna frá fyrra ári og námu 4,8 milljörðum króna. Sá samdráttur stafar af gjaldþroti Fréttablaðsins og brotthvarfi þess úr dreifikerfi Póstdreifingar en á móti komu að hluta til fyrst og fremst hærri auglýsingatekjur og áskriftartekjur fjölmiðla Árvakurs.

Afkoma samstæðunnar fyrir fjármagnsliði og afskriftir, EBITDA, var í fyrra 98 milljónir króna en var 217 milljónir króna árið áður. Launahækkanir hafa vegið þungt á undanförnum árum og gerðu það einnig í fyrra auk þess sem dreifingarkostnaður jókst verulega.

„Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla er áfram erfitt eins og mörg undanfarin ár og stafar það ekki síst af mikilli samkeppni við ríkisfyrirtæki og í seinni tíð erlenda tæknirisa,“ segir Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri og ritstjóri, um afkomuna. „Auk þess litast afkoman mjög af áhrifum verðbólgunnar á lán samstæðunnar og þeim kostnaði sem við lentum í við skyndilegt brotthvarf Fréttablaðsins í byrjun síðasta árs.“

Sóknarhugur

Haraldur segir að þrátt fyrir neikvæða afkomu í fyrra ríki sóknarhugur innan fyrirtækisins. „Eins og fólk hefur til dæmis séð af hringferð okkar um landið, borgarafundum og annarri umfjöllun um forsetakosningarnar þá er kraftur í fjölmiðlum Árvakurs og þeim sem þar starfa. Fram undan eru frekari nýjungar af ýmsu tagi með aukinni þjónustu við landsmenn. Fjölmiðlar Árvakurs hafa verið leiðandi í 110 ár og verða það áfram til langrar framtíðar,“ segir Haraldur Johannessen.