Verðlaunahafarnir Þórunn Arna, Embla, Iðunn Arna og Ásta.
Verðlaunahafarnir Þórunn Arna, Embla, Iðunn Arna og Ásta. — Morgunblaðið/Anna Rún
Vorvindar IBBY voru nýverið afhentir á Borgarbókasafninu Grófinni en það er stjórn IBBY sem velur þá sem hljóta viðurkenninguna hverju sinni. Þórunn Arna Kristjánsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framlag til barnamenningar með metnaðarfullu starfi sem leikstjóri og leikgerðarhöfundur

Vorvindar IBBY voru nýverið afhentir á Borgarbókasafninu Grófinni en það er stjórn IBBY sem velur þá sem hljóta viðurkenninguna hverju sinni.

Þórunn Arna Kristjánsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framlag til barnamenningar með metnaðarfullu starfi sem leikstjóri og leikgerðarhöfundur. Segir í umsögn dómnefndar að auk þess að koma sjálf fram á sviði hafi Þórunn Arna einnig skrifað leikgerðir og leikstýrt og þar hafi hlutur barnasýninga orðið áberandi á síðustu árum. Þá hlaut Embla Bachmann viðurkenningu fyrir framlag sitt til barnamenningar en í umsögn dómnefndar segir að þessi unga kona hafi stokkið inn á íslenskan barnabókamarkað jólin 2023 með bók sinni, Stelpur stranglega bannaðar, þá aðeins 17 ára að aldri og sýnt öllum sem vilji skrifa að aldur skipti engu máli. Iðunn Arna Björgvinsdóttir hlaut einnig viðurkenningu fyrir framlag sitt til barnamenningar en í umsögn dómnefndar segir að Iðunn Arna hafi á örfáum árum skipað sér í fremstu röð myndhöfunda, hvort sem um sé að ræða yndislestrarbækur eða námsefni fyrir börn. Að síðustu hlaut bókaútgáfan Kvistur viðurkenningu fyrir framlag sitt til barnamenningar en í umsögn dómnefndar segir að frá fyrsta degi hafi bókaútgáfan lagt metnað sinn í að gefa út vandaðar, þýddar, myndríkar bækur sem séu fyrst og fremst skemmtilegar. „Kvistur hefur lagt áherslu að gefa út bókaflokka svo að lesendur hafi tækifæri til að kynnast og lesa fleiri bækur um sínar uppáhaldspersónur.“