Alfredo-líkanið var hengt upp fyrir þremur áratugum og hefur það hjálpað nemendum að skilja hvernig troll virka.
Alfredo-líkanið var hengt upp fyrir þremur áratugum og hefur það hjálpað nemendum að skilja hvernig troll virka.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erling Arnar, oft kallaður Arnar, var einn þeirra nemenda við Stýrimannaskólann sem útskrifuðust árið 1993 en hann hafði lengi haft áhuga á sjávarútvegi og netagerð. Arnar ólst upp á Ísafirði sem þótti mikið sjávarpláss á þessum árum en hann…

Friðbjörn Óskar Erlingson

skrifar

Erling Arnar, oft kallaður Arnar, var einn þeirra nemenda við Stýrimannaskólann sem útskrifuðust árið 1993 en hann hafði lengi haft áhuga á sjávarútvegi og netagerð. Arnar ólst upp á Ísafirði sem þótti mikið sjávarpláss á þessum árum en hann starfaði við netagerð og byrjaði að leysa af til sjós þegar hann var 16 ára gamall. Hann áttaði sig fljótlega á því að sjómennskan lá vel fyrir honum, hann var metnaðarfullur í þeim verkefnum sem honum voru gefin hvort sem það tengdist veiðarfærum eða vinnslu á fiskafurð.

Arnar fór í Stýrimannaskólann 20 ára gamall með sitt annað barn á leiðinni og stóð sig vel og eignaðist góða vini á námsleiðinni. Það sem hann skildi eftir sig að námi loknu var vel ígrundað og vandað líkan af fiskveiðitrolli sem var svo sett upp í anddyri Stýrimannaskólans við Háteigsveg. Trollið var búið til sumarið 1992 milli bekkja í skólanum og var gert um borð í Ými HF-343 en líkanið er nákvæm eftirlíking af Alfredo-trolli sem var notað á frystitogaranum Ými á þessum tíma. Vélstjórarnir um borð hjálpuðu Arnari með þetta metnaðarfulla verkefni en þá má sérstaklega nefna Agnar Ásgrímsson vélfræðing sem smíðaði eftirlíkingu af hlerum trollsins ásamt öðru því tengdu. Hugmyndafræði Arnars á bak við þessa sköpun var einfaldlega sú að á þessum árum höfðu fæstir séð fiskveiðitroll eins og það virkaði djúpt niðri í hafinu beint fyrir framan nefið á sér. Með líkaninu gat áhöfn skipsins áttað sig á uppsetningu trollsins og kennt öðrum skipverjum netagerð.

Rúmum 30 árum síðar hangir líkan Alfredo-trollsins enn þá í byggingunni við Háteigsveg en skólinn sameinaðist Tækniskólanum, skóla atvinnulífsins, árið 2008. Kennarar skólans hafa kennt nemendum netagerð í kringum trollið alveg til dagsins í dag. Eitt árið komu kanadískir skólafulltrúar hingað til lands í heimsókn til Skipstjórnarskólans og sýndu þeir Alfredo-líkaninu mikinn áhuga en þá var ákveðið að gera nákvæma eftirlíkingu af líkaninu sem gjöf fyrir kanadíska vini, þeir höfðu ekki erindi sem erfiði og var ákveðið að hætta við framkvæmdina viku eftir að hún hófst. Arnar segir sjálfur frá að um 200 vinnustundir hafi farið í líkanagerð á sínum tíma en verkefnið var einungis knúið áfram af áhuga á veiðarfærum. Arnar hefur starfað fyrir Nesfisk síðan fyrirtækið keypti Rán HF-42 af Stálskipum og gaf togaranum nýtt nafn, Baldvin Njálsson GK-400, árið 2005.

Fyrsti stýrimaður um þrítugt

Um þrítugt hóf hann störf á Baldvin sem 1. stýrimaður, hann leysti af sem skipstjóri og var á þessum tíma talinn yngsti maður flotans til þess að gegna skipstjórahlutverki á frystitogara. Eldri Baldvin Njálsson GK-400 var smíðaður árið 1991 og var margt komið til ára sinna um borð, þá sérstaklega á millidekki skipsins þar sem vinnslan fer fram eins og á öðrum frystitogurum, allt frá hausun, flökun, snyrtingu og pökkun og loks að frystingu afurðanna í kassa niðri í frystilestinni, sem þá eru tilbúnar fyrir veitingastaði víðs vegar um heiminn.

Á milli þess að sigla á ný mið og sjá vinnslunni fyrir fiski notaði Arnar tímann vel til að hugleiða betrumbætur á millidekkinu til þess að bæta vinnuaðstöðu og auka afköst. Hugmyndir hans hugnuðust útgerðarstjóra Nesfisks vel á þessum árum og var farið í endurbætur á millidekki skipsins. Viðbætur og þróun á gamla Baldvin spannaði langt tímabil og undir hans stjórn og hugmyndafræði tókst að auka starfsánægju og framleiðslugetu skipsins verulega.

Það má nefna að Arnari finnst skemmtilegt að fá sér kaffi í netagerðinni í frítíma sínum til þess að ræða veiðarfæri og hvernig megi bæta þau. Eftir farsælan feril gamla Baldvins var ákveðið að fara í nýsmíði en Arnar tók þátt í og hafði mikil áhrif á hönnun og smíði nýja Baldvins Njálssonar GK-400. Allt frá því skipið var á teikniborðinu og þar til hann sigldi því heim frá Vigo á Spáni fyrir um þremur árum en hann var búsettur á Spáni til þess eins að fylgja nýsmíðinni eftir. Baldvin Njálsson þykir gott sjóskip með fágaðan tæknibúnað ásamt aflmikilli vél sem hefur minna kolefnisspor en önnur sambærileg skip.

Grein þessi birtist fyrst í Aski, tímariti Tækniskólans.