Hásteinn hefur landað fjölbreyttum afla, s.s. skarkola, þykkvalúru, steinbít og sandkola. Sumir fiskarnir eru stærri en aðrir.
Hásteinn hefur landað fjölbreyttum afla, s.s. skarkola, þykkvalúru, steinbít og sandkola. Sumir fiskarnir eru stærri en aðrir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hljóðið er gott í Vilhelmi Henningssyni þegar Morgunblaðið nær af honum tali við veiðar suður af landinu. Vilhelm er skipstjóri á Hásteini ÁR 8 en skipið var smíðað í Svíþjóð árið 1984 og er núna með þeim elstu í íslenska flotanum

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Hljóðið er gott í Vilhelmi Henningssyni þegar Morgunblaðið nær af honum tali við veiðar suður af landinu. Vilhelm er skipstjóri á Hásteini ÁR 8 en skipið var smíðað í Svíþjóð árið 1984 og er núna með þeim elstu í íslenska flotanum.

Það var faðir Vilhelms, Henning Frederiksen, sem stofnaði útgerðina árið 1981 eftir að hafa fest kaup á 50 tonna eikarbáti. „Hann hóf reksturinn með tveimur félögum sínum sem síðar fóru úr útgerðinni um miðjan 9. áratuginn svo að 1987 var félagið alfarið í hans eigu. Hann hafði áður verið meðeigandi í tveimur útgerðum á móti hraðfrystihúsi en það hafði ekki gengið upp því frystihúsið ákvað verðlagninguna á aflanum,“ útskýrir Vilhelm. „Það sem vakti fyrir honum föður mínum var fyrst og fremst að hafa vinnu fyrir sig og sína, en því er ekki að neita að þetta var erfitt í byrjun en hafðist að lokum, og útgerðarfélagið hefur staðið af sér allar þær skerðingar og breytingar sem gerðar hafa verið á fiskveiðikerfinu undanfarna fjóra áratugi.“

Þjónar hlutverki sínu vel en vantar sjónvarpskrók

Útgerðin keypti skipið sex ára en Hásteinn ÁR 8 hefur aðsetur í Þorlákshöfn þó að heimahöfnin sé á Stokkseyri og segir Vilhelm að skýringin sé sú að ólíkt eikarbátnum hafi nýja stálskipið verið of stórt til að komast inn í Stokkseyrarhöfn, en fleyið er nærri 25 metrar á lengd, rösklega sjö metrar á breidd og 4,7 metrar á dýpt, 113 rúmlestir og ríflega 180 brúttótonn.

Þó svo að skipið sé núna 40 ára gamalt er ekki að heyra á Vilhelm að honum liggi á að skipta Hafsteini út fyrir nýtt fley. „Við höfum íhugað það að endurnýja skipið en sú upphæð sem vantar til að dæmið gangi upp er nokkurn veginn jöfn veiðigjöldunum sem við þurfum að greiða. Ég vil síður rugga bátnum með mikilli skuldsetningu enda hafa menn farið fram úr sér með þannig ákvörðunum. Við höfum þó gert okkur ferð til að skoða tvo kosti, en beðið með að stíga skrefið til fulls og notum þá frekar umframsvigrúm í rekstrinum til að kaupa kvóta,“ segir hann en að Henning látnum tóku Vilhelm og bræður hans við félaginu en vel menntuð frænka þeirra annast bókhaldið.

Er heldur ekki eins og Hásteinn þjóni ekki hlutverki sínu vel. „Þetta er góður bátur og hagkvæmur, en ef við endurnýjum hann myndi ég vilja skip sem væri ögn stærra án þess að kalla á breytingar á mönnun og réttindum áhafnarinnar. Erum við á höttunum eftir breiðara og dýpra skipi með það fyrir augum að geta bætt vinnuaðstöðuna um borð. Svo þætti mér gaman að geta bætt aðbúnaðinn fyrir áhöfnina og er ég þá ekki að tala um að innrétta líkamsræktarstöð heldur einfaldlega notalegan krók þar sem væri kannski hægt að horfa á sjónvarp. Eins og báturinn er skipulagður í dag felst lífið um borð í því að vera annað hvort við matarborðið, liggjandi uppi í koju eða að störfum.“

„Eins og öll fiskabókin“

Hásteinn veiðir í dragnót og má heyra á Vilhelm að það fiskast ágætlega. Aflinn er mjög fjölbreyttur: þorskur og ýsa eru vitaskuld á sínum stað en einnig veiðir Hásteinn töluvert af skarkola, þykkvalúru, sandkola, steinbít og löngu, og gantast Vilhelm með að löndunartölurnar séu nánast eins og öll fiskabókin.

Nóg er af fiski í sjónum þó að vitaskuld megi greina breytingar á stærð og hegðun stofna á milli ára, og hefur Vilhelm átt svo auðvelt með að veiða þorsk að það hefur stundum valdið honum vandræðum vegna kvótaskorts. „Það hefur verið ótrúlega gott af þorski í sjónum í mörg ár svo að ég hef stundum þurft að færa mig á aðrar veiðislóðir til að fá minna af honum. Í fyrra olli það t.d. vandræðum við veiðar á löngu hve mikill þorskur kom með í netin. Talað er um að þorskurinn haldi sig innar og í grynnri sjó en oft áður, og tómur grátur yfir því hjá þeim sem veiða utan togaralínunnar.“

Vilhelm hefur tekið eftir fleiri áhugaverðum breytingum á hegðun þorsksins, m.a. að hann virðist orðinn gráðugur í sólkola nú þegar erfiðara er fyrir hann að finna loðnu. „Í maí var ég að reyna að veiða sólkola og kom óþarflega mikið af þorski sem meðafli, en það merkilega var að þorskurinn var stútfullur af sólkola. Í einum 6 kg þorski töldum við sjö sólkola þar sem þrír voru alveg splunkunýir og fjórir langt komnir í meltingu.“

Ágætis verð fæst fyrir aflann en hefur þó gefið nokkuð eftir að undanförnu. „Verðið var svakalega gott í fyrra en það er einkum samband framboðs og eftirspurnar sem ræður verðinu og er eins og það magn af þorski sem veiðist stýri því hvernig verðið á öðrum tegundum þróast, og gefur t.d. verðið eftir þegar strandveiðikerfið fer í gang.“

Vilhelm hefur yfir fáu að kvarta en eftir um það bil þriggja áratuga feril sem skipstjóri segist hann þó orðinn þreyttur á neikvæðri umræðu um íslenskan sjávarútveg og hringlandahætti með stjórnun fiskveiða. „Maður verður stundum pínu kjaftstopp yfir þessu, og undarlegt að fólk skuli setjast inn á þing í sín fjögur ár og leggja sig fram við að umturna heilli atvinnugrein.“