Baráttan um jörðina Um er að ræða mjög sterka mynd sem fékk undirritaða til að gráta oftar en einu sinni“.
Baráttan um jörðina Um er að ræða mjög sterka mynd sem fékk undirritaða til að gráta oftar en einu sinni“.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bíó Paradís Bastarden / Bastarðurinn ★★★★· Leikstjórn: Nikolaj Arcel. Handrit: Nikolaj Arcel, Anders Thomas Jensen og Ida Jessen. Aðalleikarar: Amanda Collin, Mads Mikkelsen, Simon Bennebjerg, Kristine Kujath Thorp og Gustav Lindh. 2024. Danmörk, Þýskaland, Noregur og Svíþjóð. 127 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Fátækur hermaður, Ludvig Kahlen (Mads Mikkelsen), kemur árið 1755 á heiðar Jótlands með það markmið að rækta landið. Ludvig fær leyfi frá konungshöllinni til að gera tilraun til ræktunar á jósku heiðunum en Danakonungur hefur lengi vel reynt að koma af stað ræktun þar, á landi sem talið hefur verið óræktanlegt. Kahlen samþykkir að gera það launalaust með því skilyrði að ef honum tekst að rækta landið fái hann aðalstitil og allt sem honum fylgir. Það eru hins vegar ekki allir hrifnir af þessari tilraunastarfsemi hans og hann eignast fljótt óvin, landeigandann Frederik De Schinkel (Simon Bennebjerg). Sá telur sig eiga heiðarlöndin og hagar sér því eins og frekt, ofdekrað barn þegar Kahlen ógnar stöðu hans.

Átökin milli þeirra hefjast fyrst þegar De Schinkel kemst að því að fyrrverandi þrælarnir Johannes Eriksen (Morten Hee Andersen) og kona hans Ann Barbara (Amanda Collin) leita nú skjóls hjá Kahlen. Það er ólöglegt en hann hefur ekki efni á vinnufólki og er því tilbúinn að taka áhættuna. Í því tilviki gerir hann hið rétta en það er einungis vegna þess að það hentar honum. De Schinkel gerir ýmsar tilraunir til þess að hrekja Kahlen burt. Í fyrstu reynir hann að múta honum en þegar það tekst ekki verður hefndin hrottaleg. Kahlen neyðist til þess að taka erfiðar ákvarðanir sem skaða bæði hann og fólkið í kringum hann. Hann telur sig ekki hafa val í ýmsum málum, sem er ekki rétt, þar sem hann er bara að hlýða eigin tilskipunum. Hann er að elta gamlan draum sem er ekki einu sinni lengur draumur heldur líkist frekar pest sem hann getur ekki losað sig við. Baráttan um jörðina er í forgrunni í myndinni. Raunverulega sagan fjallar hins vegar um þrjóskan karlmann sem lærir hægt og rólega hvað skiptir í reynd máli í lífinu og það er kannski ekki ný saga en leikstjórinn Nikolaj Arcel kemur henni virkilega vel frá sér.

Þetta er ekki fyrsta myndin sem Nikolaj Arcel lætur gerast í fortíðinni en eflaust kannast margir við myndina Konunglegt ástarsamband (En kongelig affære) frá árinu 2012 en sú mynd var tilnefnd til Óskarsverðlauna það ár. Það ætti því ekki að koma á óvart að Bastarðurinn er framlag Dana til Óskarsverðlaunanna í ár enda um mjög sterka mynd að ræða. Bandaríkjamenn virðast líka vera mjög hrifnir af skandinavískri eymd og volæði en það eru þær myndir sem eiga möguleika á að vera tilnefndar til Óskarsverðlauna, eins og til dæmis Volaða land (2022) eftir Hlyn Pálmason sem var mjög nálægt því að komast inn í lokaforvalið síðast. Bastarðurinn gæti alveg eins heitið „Volaða land“ og hefði það kannski verið meira viðeigandi titill, en Hlynur varð fyrri til. Líkt og Volaða land fjallar Bastarðurinn um danskan karl í baráttu við náttúruna. Báðar eru þær mjög sterkar en helsti munurinn er sá að Volaða land er mun stílfærðari og er þannig nær því að vera listaverk á meðan kvikmyndatakan og myndheildin í Bastarðinum er gerð fyrst og fremst til þess að þjóna sögunni eða handritinu. Það er hægt að rífast um hvort er betra, en Volaða land er alla vega miklu meira höfundarverk en Bastarðurinn.

Helsti ókostur, jafnvel eini ókostur, Bastarðsins er að maður hefur séð þessa mynd áður. Í raun er þetta bara enn ein sagan af landsbyggðarkarlmanni í tilfinningakreppu þar sem þrjóskan stendur í vegi fyrir hans eigin hamingju. Kannski er það viðfangsefni ennþá mjög framandi og spennandi fyrir fólk utan Skandinavíu en þetta viðfangsefni er svo sannarlega ekki nýtt af nálinni hérlendis. Jafnvel þó búið sé að segja þessa, eða mjög svipaða, sögu áður er um að ræða mjög sterka mynd sem fékk undirritaða til að gráta oftar en einu sinni. Þó að margar persónurnar væru óviðkunnanlegar og höguðu sér stundum eins og vondar manneskjur fór maður smátt og smátt að finna til með þeim. Ein þeirra er aðalpersónan Kahlen en þrátt fyrir að taka oftar en ekki slæmar ákvarðanir höldum við með honum og er það leikstjórninni og leik Mads Mikkelsens að þakka en hann klikkar aldrei. Það var einnig ánægjulegt að sjá norsku leikkonuna Kristine Kujath Thorp í myndinni en hún leikur unnustu De Schinkels, óvinar Kahlens. Leikkonan er í miklu uppáhaldi hjá undirritaðri og leikur til dæmis aðalhlutverkið í Ninjabarni (2021) eftir Yngvild Sve Flikke og Sjúkri stelpu (2022) eftir Kristoffer Borgli. Sá sem fer hins vegar með sigurleik í þessari mynd er Simon Bennebjerg en hann leikur illmennið De Schinkel. Hann nær listavel að túlka þetta ofdekraða og freka barn í líkama fullorðins karlmanns.

Þrátt fyrir ófrumlegan söguþráð er Bastarðurinn á heildina litið mjög gott kvikmyndaverk. Myndin er vel heppnuð og vönduð. Hún sýnir hvernig hin skandinavíska þrjóska getur orðið manni að falli. Auðvelt er að setja sig í spor sögupersónanna, þrátt fyrir fjarlægan tíma og tíðaranda, og allir aðalleikarar kvikmyndarinnar leysa sín atriði vel. Bastarðurinn er ekki mynd sem mann langar að sjá aftur, en er þess virði að upplifa einu sinni enda tekur á að gráta í nánast tvær klukkustundir.