Alexander Þór, Hannes Bridde, Lilja Rakel, Sarah og Emilía Rós sjást hér í fríi í Kaliforníu.
Alexander Þór, Hannes Bridde, Lilja Rakel, Sarah og Emilía Rós sjást hér í fríi í Kaliforníu. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mannauðsstjórinn hjá NetApp Iceland, Sarah Cushing, heldur vel utan um starfsfólk sitt sem er eitt það ánægðasta á landinu. NetApp var nýlega útnefnt Fyrirtæki ársins hjá VR, Fyrirmyndarfyrirtæki ársins og einnig Fjölskylduvænasta fyrirtækið, og það annað árið í röð

Mannauðsstjórinn hjá NetApp Iceland, Sarah Cushing, heldur vel utan um starfsfólk sitt sem er eitt það ánægðasta á landinu. NetApp var nýlega útnefnt Fyrirtæki ársins hjá VR, Fyrirmyndarfyrirtæki ársins og einnig Fjölskylduvænasta fyrirtækið, og það annað árið í röð. Stefna fyrirtækisins er að treysta fólkinu sínu og eiga í stöðugu og góðu samtali. Blaðamaður hitti Söruh í vikunni og ræddum við galdurinn á bak við gott fyrirtæki og ánægt starfsfólk. Einnig var áhugavert að heyra hvernig Söruh hefur tekist að aðlaga sig að íslensku lífi en hún er sest hér að, enda á hún hér mann og börn. Sarah hefur stundað hér þríþraut af kappi og komist þar á verðlaunapall.

Lífið fer í ýmsar áttir

Sarah er frá Nýja-Sjálandi, með háskólagráður í rekstri og stjórnun. Hún kom hingað fyrir ellefu árum og hugðist dvelja hér í nokkra mánuði áður en hún færi til Bretlands að vinna.

„Þegar ég var hér langaði mig að athuga hvort það væri möguleiki að fá hér vinnu, en var í fyrstu sagt að það myndi aldrei ganga þar sem ég talaði ekki tungumálið,“ segir Sarah og segir það ekki hafa verið raunina. Hún fékk vinnu hjá Greenqloud og þá varð ekki aftur snúið.

„Lífið fer með mann í ýmsar áttir; maður veit ekki hvar maður endar,“ segir hún og brosir.

„Ég var heppin; ég var á réttum stað á réttum tíma. Ég hafði aldrei áður unnið með sprotafyrirtæki þegar ég hóf störf hjá sprotafyrirtækinu Greenqloud. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar, enda erum við nú hluti af risastóru fyrirtæki og höfum notið velgengni. Við vorum aðeins átján starfsmenn í upphafi,“ segir Sarah og segir starf sitt hafa þróast og nú er hún mannauðsstjóri hjá NetApp Iceland, en NetApp keypti Greenqloud árið 2017. Fyrirtækið er leiðandi í gagnageymslubúnaði og gagnameðhöndlunarhugbúnaði og býður einnig upp á skýjalausnir í samvinnu við alla stærstu þjónustuaðila heims.

„NetApp er alþjóðlegt fyrirtæki með yfir ellefu þúsund starfsmenn á heimsvísu og er það eitt „Fortune 500“-fyrirtækja. Á Íslandi starfa um níutíu manns hjá fyrirtækinu,“ segir Sarah og segir þau vinna náið með stóru risunum, Google, Amazon og Microsoft.

„Íslenska teymið vinnur aðallega með Microsoft og Google og hér eru flestir starfsmenn tölvunarfræðingar eða verkfræðingar, en einnig er hér fólk í markaðsmálum og í lögfræðideild. Hér er því fjölbreyttur hópur fólks.“

Litlar þjóðir hugsa líkt

Fleira heillaði Söruh á Íslandi en landið og vinnan því hún hitti ástina sína hér, Hannes Bridde, nú eiginmann.

„Við eigum þrjú börn; sú elsta er stjúpdóttir mín og hún kallar mig mömmu, en við erum mjög nánar. Hún var fimm ára þegar við kynntumst, og svo eigum við fimm ára og tveggja ára barn,“ segir hún.

„Við náðum vel saman og ákváðum fljótlega að stofna fjölskyldu og eiga líf hér saman. Einn bróðir minn býr á Nýja-Sjálandi, annar í Bandaríkjunum og ég á Íslandi þannig að við erum dreifð um allan heim. Aumingja mamma og pabbi,“ segir hún og hlær.

„Nýja-Sjáland er eins langt í burtu frá Íslandi eins og hægt er! En foreldrar mínir vildu bara að ég væri hamingjusöm. Með tækninni í dag er auðvelt að tala saman,“ segir Sarah og segir þau heimsækja Nýja-Sjáland á þriggja ára fresti, enda mjög dýrt fyrir fimm manna fjölskyldu að fljúga þvert yfir heiminn.

„Ísland og Nýja-Sjáland eru í raun lík; bæði fólkið og landslagið. Við erum lítil þjóð og hugsum eins og þið, að við ætlum að gera stóra hluti. Og reynið bara að stöðva okkur!“ segir hún og brosir.

„Þarna er svipaður hugsunarháttur og hér og við erum meira að segja með frasa sem er eins og ykkar „þetta reddast“. Við segjum „she'll be right“,“ segir Sarah og segist tala ágæta íslensku.

„Hún mætti vera betri. Ég tala ensku við börnin en skil allt á íslensku en mætti bæta talmálið.“

Frábær vinnustaðamenning

Fyrirtækið NetApp ákvað í fyrra, í fyrsta sinn, að taka þátt í könnun VR. Sarah segir þau ekki hafa átt von á að vera valin eitt besta fyrirtækið og það í þremur flokkum. Þau endurtóku svo leikinn í ár.

„Við fengum ekki bara viðurkenninguna fyrirmyndarfyrirtækið, heldur vorum líka valin fyrirtæki ársins, sem og það fjölskylduvænasta. Það gerir okkur sýnilegri og við erum virkilega stolt af því að fá þessa viðurkenningu á því hvernig við störfum og hvernig vinnustaðamenning er hér við lýði,“ segir hún.

„Að vinna í fyrra mætti líta á sem heppni en að vinna annað árið í röð staðfestir að við erum að gera eitthvað rétt,“ segir Sarah en niðurstöður VR eru fengnar með því að heildareinkunn fyrirtækja er reiknuð út frá viðhorfi starfsfólks til ólíkra þátta starfsumhverfis. Spurt er um stjórnun, launakjör, starfsanda, jafnrétti, starfsánægju og fleira.

„Hér er frábær vinnustaðamenning. Hér hugsum við vel um okkar fólk; þau eru mjög mikilvæg og þetta eru ekki bara orðin tóm. Við reynum að skilja þeirra þarfir og hvernig við gerum þeim kleift að ná árangri. Við hugum að því að skapa leiðtoga sem eru sannir og sýna samhygð, en á sama tíma viljum við vera með bestu afköstin. Við viljum að fólkið okkar njóti velgengni og vaxi í starfi þannig að við höfum væntingar en einnig traust. Við treystum okkar fólki til að vinna sína vinnu á sama tíma og það hefur frelsi og sveigjanleika,“ segir Sarah og segir engar reglur um kaffi- eða matartíma og ef fólk þarf að skreppa að sinna erindum á vinnutíma er því frjálst að gera það. Annað sem starfsfólkið kann að meta er að það fær kauprétt að hlutabréfum í fyrirtækinu.

„Það er traust á báða bóga; við treystum þeim og þau okkur sem stjórna. Mannauðsstjórnun snýst ekki um stefnur eða skriffinnsku. Auðvitað er það hluti af því, en fyrir mér snýst þetta um manneskjuna. Við vinnum náið með okkar deildarstjórum og sjáum til þess að þeir starfi vel með sínu fólki og að lítil vandamál verði ekki að stórum,“ segir Sarah og segir það ekki skipta máli að mannauðsstjórinn sé ekki Íslendingur.

„Við erum alþjóðlegt fyrirtæki og enska er tungumálið sem við notum í öllum samskiptum við kúnna og samstarfsaðila erlendis,“ segir Sarah, en höfuðstöðvar NetApp eru í Kaliforníu.

„Yfirstjórnin er að sjálfsögðu ánægð með þennan árangur NetApp á Íslandi. Fyrirtækið er yfirhöfuð með góða stefnu í mannauðsmálum.“

Þríþraut og móðurhlutverk

Í frítíma sínum, þegar Sarah er ekki með fjölskyldunni, stundar hún þríþraut af kappi.

„Ég æfði sund til nítján ára aldurs. Svo fór ég í háskólann og eftir að honum lauk ákvað ég að koma mér aftur í form og prófaði þríþraut. Þegar ég flutti hingað gekk ég til liðs við þríþrautarklúbb og ég get sagt með sanni að það hafi hjálpað mikið við að aðlagast hér og eignast vini. Íslendingar tilheyra allir litlum vinahópum og eiga oft vini sem þeir hafa átt síðan í barnaskóla. Það er mjög erfitt að komast inn í slíka hópa, eins og saumaklúbba. Þess vegna var svo gott að fara í þríþrautina og tilheyra þeim hópum og eignast þar vini,“ segir hún.

„Ég fór líka að þjálfa og sat í stjórn Þríþrautarsambands Íslands í fjögur ár og þar voru lagðar línurnar um hvernig hægt væri að efla íþróttina hér á landi. Að sumu leyti var sú vinna lík vinnu minni sem mannauðsstjóra,“ segir hún.

„Það var mjög skemmtilegt að vera hluti að þessu,“ segir Sarah en hún náði frábærum árangri og var valin þríþrautarkona Íslands árið 2015. Hún var einnig tilnefnd sem Íþróttamaður ársins sama ár.

Sarah segist hafa tekið sér hlé frá íþróttum þegar hún eignaðist börnin sín.

„Þríþrautin er krefjandi og tímafrek og mig langaði að einbeita mér að því að vera mamma,“ segir Sarah og nefnir að það hafi tekið verulega á andlega að fyrsta barnið fæddist tíu vikum fyrir tímann. Það var því nokkurt áfall en allt fór vel að lokum og er stúlkan alheilbrigð.

„Ég er aðeins byrjuð aftur nú þegar börnin eru orðin stærri. Það er svo frábært að hreyfa sig og anda að sér fersku lofti og oft gufa þá vandamál dagsins upp,“ segir hún.

„Vinnan er auðvitað ekkert alltaf auðveld, enda er fólk flókið,“ segir hún og hlær.

„Nú er ég í garpasundi, sundæfingum fyrir fólk yfir 25 ára,“ segir
hún og bætir við að keppt sé í íþróttinni.

„Ég náði þar að slá tvö met, í 200 metra og 800 metra skriðsundi. Það kom mér á óvart,“ segir hún.

„Ég er að komast aftur í gang og eiginmaðurinn styður mig í því að gera það sem ég elska. Mig langar að sýna fólki að það er alveg hægt að taka sér sex ára hlé, sem er það sem ég gerði, og koma svo til baka. Það er hægt að vera mamma, vera í krefjandi starfi og stunda íþróttir, en allt í góðu jafnvægi. Mig langar að hvetja aðra og vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín, að vera heilbrigð og geta hlaupið á eftir þeim,“ segir hún og brosir.

Leið eins og að koma heim

Sarah unir sér vel á Íslandi og bíður nú þess að fá íslenskan ríkisborgararétt.

„Það er í ferli en ég mun þá vera með tvöfalt ríkisfang, íslenskt og nýsjálenskt. Það er mér mikilvægt að halda í Nýsjálendinginn í mér á sama tíma og ég tek fagnandi á móti íslenska ríkisborgararéttinum,“ segir Sarah.

„Að flytja í nýtt land er rússíbanareið; stundum er allt frábært og stundum ekki. Það er mikilvægt að vera með opinn huga og fagna breytingum,“ segir hún og brosir.

„Sem útlendingur getur maður einangrast, en ég trúi því að hver sé sinnar gæfu smiður. Maður getur ekki ætlast til að hlutirnir komi sjálfkrafa til manns,“ segir hún og segir Íslendinga hafa tekið sér mjög vel.

„Maður þarf að sanna sig og skapa sér nafn og mér hefur tekist það vel, bæði í vinnunni og í einkalífinu. Ég elska vinnuna mína og líka landið. Í fyrra fór ég til Nýja-Sjálands og þegar við komum aftur, þá í fyrsta sinn síðan ég flutti hingað leið mér eins og ég væri að koma heim. Það var svo sterk upplifun og ég gat ekki beðið eftir að komast heim. Það tók tíu ár, en það gerðist!“