Sérfræðingur Maria Fiskerud þróar rafknúnar flugvélar hjá sænska fyrirtækinu Heart Aerospace.
Sérfræðingur Maria Fiskerud þróar rafknúnar flugvélar hjá sænska fyrirtækinu Heart Aerospace. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Raunhæft er að hefja rafknúið innanlandsflug innan fárra ára á Íslandi. Til þess þarf að byggja upp innviði og undirbúa flugið á margvíslegan hátt, ekki síst m.t.t. öryggis.

Þetta segir Maria Fiskerud, þróunarsérfræðingur hjá sænska flugvélaframleiðandanum Heart Aerospace, en fyrirtækið vinnur að þróun rafknúinna flugvéla fyrir innanlandsflug.

Fiskerud leiðir jafnframt norræna rafmagnsflugvélaverkefnið (Nordic Network for Electric Aviation (NEA)) sem ætlað er að hraða innleiðingu rafknúinna flugvéla á Norðurlöndunum.

Annar áfangi hafinn

Verkefninu var ýtt úr vör í október 2019 og rann fyrsti hluti sitt skeið í júní 2022. Nú er annar hluti verkefnisins í gangi og felur meðal annars í sér undirbúning áfangastaða fyrir rafknúnar flugvélar með því að kortleggja nauðsynlegar breytingar á innviðum.

Dótturfélag Isavia, Isavia innanlandsflugvellir, kom inn í verkefnið í öðrum áfanga. Isavia er aðili að verkefninu ásamt flugvallarrekendunum Avinor í Noregi, Finavia í Finnlandi, Swedavia í Svíþjóð og Kaupmannahafnarflugvelli. Þá tekur Icelandair þátt í verkefninu ásamt flugfélögunum SAS og BRA í Svíþjóð. Loks eru fyrirtæki sem leggja áherslu á orkuskipti og flugvélaframleiðendur þátttakendur í verkefninu. Þau eru Green Flyway, Elfly Group, Heart Aerospace og NISA (Nordic Initiative for Sustainable Aviation), að því er segir í tilkynningu frá Isavia.

Fundahöld á Íslandi

Síðastliðinn fimmtudag fundaði Fiskerud með fulltrúum íslenskra stjórnvalda og hagsmunaaðila um verkefnið. Á fundinum voru meðal annars fulltrúar ráðuneyta, Samgöngustofu, Vegagerðarinnar, flugfélaga og hagaðila í flugrekstri. Málin eru í skoðun og liggur ekki fyrir hvernig og í hvaða áföngum rafknúið innanlandsflug verður innleitt á Íslandi.

Spurð hvernig innviði þurfi á Íslandi til að gera rafknúið innanlandsflug að veruleika segir Fiskerud að byggja þurfi upp innviði á flugvöllum en þeir geti jafnframt nýst öðrum samgöngutækjum. Rætt sé um að fyrir hvern rafknúinn hreyfil þurfi sem svarar einni Tesla-hraðhleðslustöð.

Meðal þeirra fyrstu

Spurð um flugþolið segir hún að árið 2030 verði sennilega hægt að fara í klukkustundarlangt flug með rafknúinni flugvél. „Við erum jafnframt að skoða millilendingar en það gæti verið lausn þar til rafhlöður bjóða upp á meiri drægni,“ segir Fiskerud.

Hún rifjar svo upp að Icelandair hafi verið meðal fyrstu flugfélaga í heimi til að skrifa undir samning við Heart Aerospace um samstarf. Sænska fyrirtækið sé nú að þróa flugvélina ES-30 sem gangi fyrir tveimur orkugjöfum en hún muni geta flogið 200 km á rafmagni eingöngu og um 450 km á sjálfbæru flugvélaeldsneyti. Með sjálfbæru flugvélaeldsneyti er átt við lífeldsneyti sem framleitt er úr lífmassa á sjálfbæran hátt með notkun endurnýjanlegra orkugjafa. En fjöldi farþega og farangur/frakt getur haft áhrif á flugþolið.

Mun auka drægnina

Flugvélin ES-30 verður 30 sæta og segir Fiskerud að jafnframt sé verið að þróa 9 til 12 sæta rafknúna flugvél frá Elflys, sem nefnist Noemi og muni geta lent á sjó og landi. Gert sé ráð fyrir framförum í smíði rafhlaðna, sem muni skila meiri drægni, og að hægt verði að endurnýja rafhlöður í flugvélum.

Fram kom á flugvefnum FlightGlobal í vor að borist hafi 250 pantanir í ES-30 og að skrifað hafi verið undir kauprétt á 120 vélum til viðbótar. Þá hafi verið undirritaðar viljayfirlýsingar vegna kaupa á 191 vél.

Horft til ársins 2030

Fiskerud segir að í yfirlýsingu sem kennd er við norsku borgina Fredrikstad, og undirrituð var í nóvember 2022, hafi ráðherrar Norðurlandanna sammælst um að árið 2030 verði komin að minnsta kosti ein rafknúin flugleið í innanlandsflugi í hverju landi. Þá hafi Norðmenn sett sér það markmið að árið 2040 verði rafknúið flug í boði á öllum flugleiðum innan Noregs.

Með því að taka höndum saman geti Norðurlöndin unnið hraðar að innleiðingu rafknúins flugs en ríkin geti gert hvert í sínu lagi. Löndin séu smá en samanlögð myndi þau 12. stærsta hagkerfi heims.

Vetni í lengra flugi

Hér er fyrst og fremst horft til rafknúins innanlandsflugs. En skyldi verða hægt að fljúga rafknúnum flugvélum milli Norðurlandanna, þar með talið til Íslands og Grænlands?

Fiskerud segir að í fyrirsjáanlegri framtíð henti rafknúnar flugvélar betur fyrir innanlandsflug en millilandaflug. Hins vegar muni vetnisknúnar flugvélar bjóða upp á möguleika í millilandaflugi. Það verði um langa framtíð þörf fyrir jarðefnaeldsneyti á lengri flugleiðum en í tímans rás geti sjálfbært flugvélaeldsneyti komið þess í stað. Hún rifjar svo upp að í árdaga flugsins hafi flugmenn millilent á leiðinni yfir Atlantshafið. Sagan kunni að endurtaka sig við umbreytinguna yfir í nýja orkugjafa og Ísland orðið stór flughöfn fyrir til dæmis vetnisknúnar flugvélar. Horfur séu á að flugvélaeldsneyti verði dýrara í framtíðinni og að rafknúnar flugvélar verði ódýrari valkostur í innanlandsflugi en hefðbundnar flugvélar.

Höf.: Baldur Arnarson