Eftir jafntefli Austurríkis og Íslands í Ried í gær, 1:1, er komin upp sú staða að hvert einasta mark í öllum leikjunum sem liðin eiga eftir getur ráðið úrslitum um hvort þeirra kemst beint í lokakeppni EM 2025

Eftir jafntefli Austurríkis og Íslands í Ried í gær, 1:1, er komin upp sú staða að hvert einasta mark í öllum leikjunum sem liðin eiga eftir getur ráðið úrslitum um hvort þeirra kemst beint í lokakeppni EM 2025.

Tvö efstu lið riðilsins fara beint í lokakeppnina en hin tvö liðin sem enda í þriðja og fjórða sæti fara í umspil með liðum úr B- og C-deildum undankeppninnar í haust.

Þýskaland er með EM-sætið í höndunum eftir sigur á Pólverjum í Rostock í gærkvöld, 4:1, og er með níu stig eftir þrjá leiki. Það þarf mikið að ganga á til að Þýskaland verði ekki annað tveggja liðanna sem fara beint áfram.

Ísland og Austurríki eru nánast hnífjöfn í öðru og þriðja sæti riðilsins með fjögur stig hvort og eitt mark í plús. Austurríki er fyrir ofan sem stendur á fleiri skoruðum mörkum.

Mikilvægi seinni leiks liðanna á Laugardalsvellinum á þriðjudagskvöldið er orðið enn meira því sigurliðið þar verður í kjörstöðu um að verða annað tveggja liða riðilsins til að fara beint á EM.

Í tveimur síðustu umferðunum í júlí á Ísland heimaleik við Þýskaland og útileik við Pólland á meðan Austurríki á heimaleik við Pólland og útileik við Þýskaland.

Ef liðin gera aftur jafntefli á þriðjudag verða þau hnífjöfn í öðru sætinu og þá myndi heildarmarkatala þeirra ráða úrslitum ef þau myndu ljúka keppni í riðlinum með jafnmörg stig. Þá verður spennan gríðarleg til síðustu mínútu.