Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Ég gef kost á mér í embætti forseta því að mér þykir óendanlega vænt um land og þjóð.

Katrín Jakobsdóttir

Í dag fögnum við lýðræðinu þegar þjóðin velur sér forseta. Við fögnum lýðræðinu því að þessi réttindi eru ekki gefin og því miður búa ekki allar þjóðir við þessi lýðræðislegu réttindi.

Það skiptir máli að rækta lýðræðið, hlusta eftir sjónarmiðum annarra og virða þeirra skoðanir og sýn. Það er öllum til góða í stað þess að ala á skautun, hatri og ótta. Víða um heim er grafið undan lýðræðinu. Á sama tíma höfum við séð bakslag í jafnréttis- og mannréttindamálum og fleiri stríðsátök en um langt skeið.

Ég er sannfærð um að rödd Íslands skiptir máli í samfélagi þjóðanna, langt umfram landfræðilega stærð og íbúafjölda. Forsetinn á að nota rödd sína hér heima og að heiman til að tala hátt og skýrt fyrir þeim gildum sem við Íslendingar erum flest sammála um; lýðræði, mannréttindum, jafnrétti og friði.

Ég er sannfærð eftir kosningabaráttu undanfarinna vikna að við eigum gnótt tækifæra hringinn í kringum landið og að íslenskt samfélag er bæði samheldið og traust. Þar getur forseti gert gagn með því að hvetja til samfélagslegrar þátttöku á öllum sviðum hjá öllum kynslóðum.

Ég er sannfærð um að forseti getur gert gagn til að næra rætur okkar sem felast í íslenskri menningu, sögu og tungu í sinni breiðustu mynd. Þar má draga fram allt það góða starf sem unnið er víða um land í íslenskukennslu fyrir þau sem ekki hafa íslensku að móðurmáli en ekki síður efna til raunverulegrar umræðu um stöðu íslenskunnar á öllum sviðum samfélagsins.

Ég gef kost á mér í embætti forseta því að mér þykir óendanlega vænt um land og þjóð sem ég hef kynnst vel. Hér hef ég búið og starfað og verið svo heppin að fá að hlusta á fólk um land allt í fyrri störfum.

Ég trúi því að mín reynsla og þekking, hugrekki og heilindi, styðji mig í því að þjóna íslenskri þjóð til framtíðar.

Til hamingju með daginn kæru landsmenn og nýtum öll kosningaréttinn!

Höfundur er í framboði til embættis forseta Íslands.

Höf.: Katrín Jakobsdóttir