Koddaslagur og róðrarkeppni Það var greinilega auðvelt að falla fyrir þessari og spurning hvort konurnar á árabátnum séu að koma manninum til bjargar.
Koddaslagur og róðrarkeppni Það var greinilega auðvelt að falla fyrir þessari og spurning hvort konurnar á árabátnum séu að koma manninum til bjargar. — Morgunblaðið/Haraldur Jónasson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Reykjavík verður sjómannadagshátíðin haldin með Grindvíkingum sem hafa haldið daginn hátíðlegan í rúman aldarfjórðung undir nafninu Sjóarinn síkáti. Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkur, segir að formaður…

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Í Reykjavík verður sjómannadagshátíðin haldin með Grindvíkingum sem hafa haldið daginn hátíðlegan í rúman aldarfjórðung undir nafninu Sjóarinn síkáti.

Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkur, segir að formaður Sjómannadagsráðs hafi boðið Grindvíkingum að halda hátíðina í Reykjavík að þessu sinni.

„Snemma árs fengum við hjá Grindavíkurbæ símtal frá formanni Sjómannadagsráðs þar sem hann bauð okkur um borð, ef svo má að orði komast, þar sem ljóst var að ekki gæti orðið af hátíðarhöldum í bænum okkar. Við þurftum ekki langan umhugsunarfrest og þáðum boðið og því geta Grindvíkingar og landsmenn allir notið Sjóarans síkáta í ár eins og undanfarin 26 ár,“ segir Eggert Sólberg í samtali við Morgunblaðið.

Aríel Pétursson formaður Sjómannadagsráðs segist fagna því að fá Sjóarann síkáta til Reykjavíkur. „Við ætlum að tjalda öllu til og taka vel á móti heiðursgestum sjómannadagsins 2024, Grindvíkingum, sem nú fá heimaskjól fyrir Sjóarann síkáta við höfnina á Granda. Þegar þeir þáðu boðið hlýnaði mér um hjartarætur enda hafa þeir gert sjómannadeginum einstaklega hátt undir höfði í fjölda ára og haldið veglega þriggja daga veislu í bænum, sjómönnum til heiðurs,“ segir Aríel Pétur.

Sjómannadagurinn er fyrsta sunnudag í júní ár hvert, nema ef hvítasunnu ber upp á þann dag, þá er hann næsta sunnudag þar á eftir. Hann er hátíðisdagur allra sjómanna. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði en frá upphafi 20. aldar tíðkaðist að halda sérstakar sjómannamessur í kirkjum áður en þilskipin héldu til veiða eftir vetrarlægi, sem var yfirleitt 3. eða 4. sunnudag eftir þrettánda. Árið 1987 var dagurinn lögskipaður frídagur sjómanna.

Hátíðarmessa sjómannadagsins verður í Dómkirkjunni kl. 11. Sr. Sveinn Valgeirsson þjónar til altaris og Kristján Björnsson vígslubiskup flytur predikun.

Morgunblaðið óskar sjómönnum um allt land og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar.