[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hin svokallaða nýlenska hefur þegar valdið gríðarlegu tjóni og glundroða, jafnvel málótta í samfélaginu. En nú er von, því að landsmönnum er nóg boðið. Rifjum aðeins upp: Örsmáum þrýstihóp tókst fyrir nokkrum árum að smeygja sér inn í sjálft…

Tungutak

Baldur Hafstað

hafstad.baldur@gmail.com

Hin svokallaða nýlenska hefur þegar valdið gríðarlegu tjóni og glundroða, jafnvel málótta í samfélaginu. En nú er von, því að landsmönnum er nóg boðið.

Rifjum aðeins upp: Örsmáum þrýstihóp tókst fyrir nokkrum árum að smeygja sér inn í sjálft Ríkisútvarpið, okkar helgasta vé, og fá nokkra starfsmenn þar til að taka upp mál sem enginn Íslendingur hafði talað áður. Þeir stærðu sig síðan í öðrum miðlum af þessari nýjung sinni. En útvarpsstjóri stóð álengdar og hafðist ekki að meðan undirmenn hans þverbrutu reglur tungumálsins og ógnuðu íslensku málkerfi.

Þessir fréttamenn á okkar helstu menningarstofnun fóru sem sagt að gera tilraunir með móðurmálið sitt og hrærðu saman hinum málfræðilegu kynjum með hipsum-haps-aðferðinni: „Íbúðir fyrir öldruð en margir fá neitun.“ Og enn er brosað í laumi að frétt RÚV: „Þrjú voru handtekin í Þýskalandi fyrir tilraun til hryðjuverkaárásar“. Þetta voru allt karlar. Fréttin var því röng. Hvers áttu konur að gjalda? Minnisstætt er líka þegar einn fréttamaður spurði annan í beinni útsendingu: „Eru mörg á gosstöðvunum?“ Hinn svaraði: „Það eru margir hérna.“

Allt kemur þetta til af því að „fréttabörnin“ skildu ekki muninn á málfræðilegu kyni og líffræðilegu. Málfræðilegt karlkyn hefur auðvitað ekkert með jafnréttisbaráttu að gera.

Sannarlega er það sorglegt að sjálft Ríkisútvarpið skyldi hafa sett það á stefnuskrá sína að allt væri leyfilegt í málfari þar á bæ. Það gekk gráðugt í lið með málfræðingnum sem Þórarinn Eldjárn kvað um í vísunni Manífestó málfræðings:

Frjálslyndið hef ég í forgang sett

og finnst aldrei gengið of langt.

Á íslensku tel ég að allt sé rétt,

einkum það sem er rangt.

En hvað gerðist? Auglýsingadeild RÚV reis upp og neitaði að gera atlögu að tungumálinu og úthýsti m.a. málleysunni „Öll velkomin“. Þessi hallarbylting virkaði svo vel að hinar deildirnar tóku við sér og allmargir fréttamenn sem villst höfðu af vegi náðu áttum á ný. En ekki allir. Ekki enn. Kannski að auglýsingadeildin gæti boðið þeim í kaffi?

Svo var það um daginn að lítil grein birtist á visir.is þar sem mótmælt var happa- og glappastefnu Ríkisútvarpsins og hernaðinum gegn sjálfu tungumálinu. Viðbrögðin við þessari grein urðu slík að fáheyrt hlýtur að teljast. Við skulum gleðjast: Fólkið í þessu landi hefur loksins fengið dýrmætan stuðning og kjark til að tala það mál sem okkur er svo kært. Það er loksins orðið ljóst að almenningur ætlar ekki að láta nýlenskuherinn rústa okkar viðkvæma málkerfi.

Ég hef sannspurt að stúdentar séu að vakna. Og íslenskukennarar framhaldsskólanna eru loksins að taka við sér.

Hlustum á rödd hjartans en ekki á ráðgjafa RÚV.

Megi nýr forseti og nýr útvarpsstjóri úthýsa nýlensku. Látum ekki verða rof í menningu okkar!