Háskóli Háskólinn í Reykjavík kynnir börnum háskólanám.
Háskóli Háskólinn í Reykjavík kynnir börnum háskólanám. — Morgunblaðið/Eggert
Viðburðurinn „Stelpur, stálp og tækni“ var haldinn í Háskólanum í Reykjavík nýverið og var hann fjölsóttur af stúlkum í 9. bekk unglingaskóla, en aðeins þeim var boðin þátttaka en ekki drengjum

Viðburðurinn „Stelpur, stálp og tækni“ var haldinn í Háskólanum í Reykjavík nýverið og var hann fjölsóttur af stúlkum í 9. bekk unglingaskóla, en aðeins þeim var boðin þátttaka en ekki drengjum. Svo var einnig í fyrra; strákarnir sátu eftir í unglingaskólanum á meðan stúlkurnar kynntu sér tækninám í háskólanum með leiðsögn leiðbeinenda.

Samkvæmt upplýsingum frá Ásthildi Gunnarsdóttur samskiptastjóra Háskólans í Reykjavík er viðburðurinn „Stelpur, stálp og tækni“ að erlendri fyrirmynd og haldinn til að auka áhuga og efla stelpur í tæknigreinum. Þær greinar hafa verið minna sóttar af stúlkum hingað til. Hugmyndina segir hún vera að kynna tæknigreinar sem kenndar eru í skólanum og auka áhuga stúlkna á þeim, ásamt náms- og starfsmöguleikum á þessu svið.

Hún segir að almennt sæki drengir frekar í tæknigreinar en stúlkur og viðburðurinn sé til þess ætlaður að auka áhuga stúlkna á því fræðasviði.

Hugmyndin sé ekki sú, að sögn Ásthildar, að skilja strákana eftir og því verði haldinn sérstakur viðburður í haust fyrir stráka, en kveðst kannast við gagnrýni á að drengir séu skildir út undan.

Áformaður sé viðburðurinn „Strákar, kvár og háskóli“ í haust og hugsaður sem viðbragð við því. Þannig vilji skólinn leggja sitt lóð á vogarskálarnar til ná betra jafnvægi á milli kynja.