Sjómannsstarfið er nógu krefjandi án eineltis og áreitni. Mikilvægt er að gott starfsumhverfi sé til sjós.
Sjómannsstarfið er nógu krefjandi án eineltis og áreitni. Mikilvægt er að gott starfsumhverfi sé til sjós. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Norska siglingastofnunin, Sjøfartsdirektoratet, ákvað á síðasta ári að árið 2024 yrði helgað svokölluðu sálfélagslegu vinnuumhverfi á sjó. Kom ákvörðunin í kjölfar þess að sérstök könnun stofnunarinnar, sem náði til rúmlega átta þúsund einstaklinga…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Norska siglingastofnunin, Sjøfartsdirektoratet, ákvað á síðasta ári að árið 2024 yrði helgað svokölluðu sálfélagslegu vinnuumhverfi á sjó. Kom ákvörðunin í kjölfar þess að sérstök könnun stofnunarinnar, sem náði til rúmlega átta þúsund einstaklinga sem starfa til sjós, sýndi að tæplega 27% svarenda sögðust hafa orðið fyrir einelti eða áreitni á vinnustað undanfarna 12 mánuði.

Athygli vekur að hlutfallið virðist hafa verið nokkuð svipað eftir tegund sjófara sem einstaklingarnir starfa á. Sögðust 26,2% þeirra sem störfuðu á fiskiskipum hafa orðið fyrir einelti eða áreitni á vinnustað, 26,07% þeirra sem störfuðu á flutningaskipum og 29,08% þeirra sem störfuðu á farþegaskipum.

Þá sögðust 2% hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á tímabilinu en af 400 konum sem svöruðu könnun stofnunarinnar sögðust 15% hafa orðið fyrir kynferðilegri áreitni.

Áhrif á öryggi

Siglingastofnunin norska fullyrðir að niðurstöðurnar sýni fram á ótvírætt samhengi milli slæms anda á vinnustað og slakrar stöðu öryggismála, að aukin hætta sé á slysum og næstum slysum meðal þeirra sem upplifi einelti og áreitni.

„Þetta eru mjög alvarlegar tölur sem allur sjávarútvegurinn verður að taka á,“ sagði Knut Arild Hareide forstjóri siglingamálastofnunarinnar í tilkynningu á síðasta ári þegar niðurstöðurnar voru kynntar. Hefur í kjölfarið verið hrint af stað aðgerðum til að bæta bæta sálfélagslegt umhverfi á sjó, meðal annars með námskeiðum og leiðbeiningum sem beint er sérstaklega að smærri útgerðum og skipafélögum. Þá hafa Danir þegar farið í sambærileg verkefni og sagðist Hareide í samtali við Kystens Næringsliv í vetur vona að hægt yrði að afla þekkingar á málaflokknum á grundvelli reynslu þeirra.

Auk þess að stuðla að aukinni vitundarvakningu hefur stofnunin einnig komið upp sérstökum vef fyrir ábendingar.

Stéttarfélag norskra sjómanna og farmanna, Sjømannsforbundet, hefur fagnað því að reynt sé að bregðast við í málaflokknum og telur nauðsynlegt að sjómenn hafi leið til að kvarta undan aðstæðum um borð sérstaklega á smærri bátum. „Á litlum báti, þar sem skipstjórinn er oft einnig útgerðarmaður – hjá hverjum ættir þú að leita aðstoðar ef þú ert kvalinn eða áreittur, jafnvel þótt útgerðin hafi komið sér upp starfsreglum?“ hefur Kystens Næringsliv eftir Jahn Cato Bakken varaformanni norsku samtakanna.

Á ábyrgð atvinnurekenda

En hvað er sálfélagslegt vinnuumhverfi?

Á vef Vinnueftirlitsins segir um hugtakið: „Atvinnurekendur þurfa að tryggja öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks með því að greina áhættuþætti í vinnuumhverfinu sem tengjast skipulagi, stjórnun og samskiptum. Margir þættir falla undir sálfélagslegt vinnuumhverfi og er skipulag vinnustaðarins ákveðinn hornsteinn þess en ekki síður það vinnulag sem myndast vegna samstarfs og samskipta sem samstarfsfólk þarf að eiga vegna starfa sinna.

Mikilvægt er að stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu en þar er átt við þau gildi, venjur og viðhorf sem ríkja í vinnuumhverfinu og starfsfólk tileinkar sér í samskiptum, samvinnu og við lausn mála. Vinnustaðamenning leggur grunn að öryggi og vellíðan starfsfólks og þess vegna er svo mikilvægt að meta þá þætti í vinnuumhverfinu sem hafa áhrif á menninguna og þar með á líðan starfsfólks.“

Jafnframt segir: „Stjórnendum ber að gera áhættumat og forvarnaráætlun sem tekur meðal annars mið af félagslega vinnuumhverfinu þar sem samskipti og líðan fólks er metin og áhersla er á að hvers kyns áreitni eða ofbeldi á vinnustað sé ekki látið viðgangast.“

Einnig á Íslandi?

Erfitt er þó að meta hvort þær aðgerðir og þau úrræði sem nú er beitt á vinnustöðum til sjós séu að skila sér þar sem engin könnun hefur verið framkvæmd nýlega á líðan íslenskra sjómanna og farmanna. Nýjasta dæmið um slíka könnun hér á landi er að finna í meistararitgerð Salóme Rutar Harðardóttur frá árinu 2015 við íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild Háskóla Íslands.

Rannsóknin sem fjallað er um í ritgerðinni snéri að því að kanna starfsumhverfi, lífsánægju og heilsutengd lífsgæði sjómanna. Einnig að kanna hvort sálfélagslegir þættir í starfsumhverfi sjómanna hefðu áhrif á heilsu og líðan þeirra.

Alls tóku 132 sjómenn á aldrinum 21 til 70 ára þátt og sögðust 38,9% þeirra hafa upplifað eða lent í einelti og/eða áreitni á síðastliðnum sex mánuðum. Meðal þessa hóps mátti einnig sjá minni lífsánægju og heilsutengd lífsgæði.

Ekkert í gangi

Eftir því sem blaðamaður kemst næst eru engin verkefni í gangi hvað varðar að kanna í hve miklum mæli íslenskir sjómenn og farmenn verða fyrir einelti og áreitni á vinnustað, en vitað er – miðað við niðurstöður meistararitgerðarinnar – að málið kann að snerta verulega marga einstaklinga.

„Við höfum ekki orðið vör við að mikið sé um slík mál meðal okkar félagsmanna, en þetta er kannski eitthvað sem menn eru ekki endilega að vekja mikla athygli á sjálfir,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands. Hann segir vel geta verið tilefni til að rannsaka hver staðan er á íslenskum skipum en segir sambandið ekki hafa neina möguleika til að láta framkvæma slíka rannsókn.

Það er skiljanleg óvissa tengd því hver ætti að fjármagna könnun á þessu sviði þar sem það er á ábyrgð atvinnurekenda að tryggja gott vinnuumhverfi, stéttarfélaga að standa vörð um hagsmuni skjólstæðinga sinna og Samgöngustofu að hafa eftirlit með að vinnulöggjöfinni sé framfylgt á sjó.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson