Efstaleiti Þátturinn Lestin er á Rás 1.
Efstaleiti Þátturinn Lestin er á Rás 1. — Morgunblaðið/Eggert
Enn fer lítið fyrir fagmennsku Rúv. Stutt er síðan reynt var að þagga niður í umfjöllun Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur um lóðabrask Reykjavíkurborgar. Í aðdraganda forsetakosninga hefur Rúv aftur sýnt undarleg vinnubrögð

María Margrét Jóhannsdóttir

Enn fer lítið fyrir fagmennsku Rúv. Stutt er síðan reynt var að þagga niður í umfjöllun Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur um lóðabrask Reykjavíkurborgar. Í aðdraganda forsetakosninga hefur Rúv aftur sýnt undarleg vinnubrögð.

Menningarþátturinn Lestin sá ástæðu til þess að kryfja umdeildan pistil Auðar Jónsdóttur til mergjar út frá kenningum um völd, elítu og femínisma. Auður færir í orð það sem margir hugsuðu um framboð Katrínar Jakobsdóttur sem hlýtur að teljast hlutverk blaðamanns. Berglind Rós Magnúsdóttir háskólaprófessor var kölluð til og taldi umræðuna um framboðið andfemíníska.

Í pistlinum nefnir hún vináttu sína og Auðar en láist hins vegar að nefna að hún er einnig vinkona og stuðningsmaður Katrínar. Á Facebook má finna fjölmargar færslur þar sem hún lýsir yfir aðdáun sinni á Katrínu. Setja má spurningarmerki við þessi vinnubrögð fræðimanns sem kemur fram undir formerkjum háskólaprófessors. Þá er líka ófaglegt af ríkisfjölmiðli að huga ekki að jafnvægi í umræðum. Þarna bregst Rúv. og ég reyndar skil ekki af hverju ég er hissa á því. En í ljósi umræðu um hagsmuni og elítu skal tekið fram að ég þekki bæði Auði og Katrínu. Ég er frjálshyggjumaður á móti ríkisfjölmiðlum. Og ég er líka kona, en kona má víst ekki gagnrýna konu.