Lionshreyfingin Guðrún Björt Yngvadóttir og Patti Hill, einu kvenkyns alþjóðaforsetar hreyfingarinnar hingað til.
Lionshreyfingin Guðrún Björt Yngvadóttir og Patti Hill, einu kvenkyns alþjóðaforsetar hreyfingarinnar hingað til. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í 107 ára sögu Lionshreyfingarinnar hafa aðeins tvær konur gegnt embætti alþjóðaforseta. Sú fyrsta var Íslendingurinn Guðrún Björt Yngvadóttir en sú sem gegnir embættinu núna er dr. Patti Hill, en hún var einmitt stödd á landinu fyrr í vikunni og…

Viðtal

Drífa Lýðsdóttir

drifa@mbl.is

Í 107 ára sögu Lionshreyfingarinnar hafa aðeins tvær konur gegnt embætti alþjóðaforseta. Sú fyrsta var Íslendingurinn Guðrún Björt Yngvadóttir en sú sem gegnir embættinu núna er dr. Patti Hill, en hún var einmitt stödd á landinu fyrr í vikunni og gaf sér tíma til að setjast niður með blaðamanni Morgunblaðsins.

Spurð af hverju aðeins tvær konur hafi gegnt þessu hlutverki segir Hill að í raun sé engin ein ástæða. Þó hafi það spilað inn í að konur fengu ekki rétt til að vera í Lionshreyfingunni fyrr en 1987, fram að þeim tíma hafi þetta verið karlahreyfing.

Þá hafi þær báðar, Guðrún og hún sjálf, fengið boð um að bjóða sig fram til embættis alþjóðaforseta. Þegar Guðrún tók við embættinu hafi margar konur verið komnar í hreyfinguna og öðlast mikla reynslu. Þá hafi meðlimir farið að kalla eftir því að sjá konu í svona stóru hlutverki.

Mikil reynsla greiði veginn

Til að eiga möguleika á að gegna slíku hlutverki innan Lions þarf mikla reynslu, ásamt því að vinna kosningar. Hill byrjaði sem meðlimur og vann sig upp stigann til þess að komast á þann stað sem hún er á núna.

Spurð hvað hafi kveikt áhuga hennar á að ganga svona langt í þágu starfsins segir hún að Lionshreyfingin hafi gert mjög mikið fyrir samfélag hennar í Kanada. Hún vann sem kennari og sérhæfði sig í kennslu fólks með námsörðugleika og fór þaðan að kenna heyrnarlausum og þeim sem eiga erfitt með heyrn.

Ár hvert leggur hreyfingin mesta áherslu á eitt af átta meginmálefnum, en í ár voru það málefni umhverfisverndar. Hefur Hill þá skorað á yfir 50.000 klúbba í öllum löndum að vinna í þágu málefnisins.

„Ég verð heima í 15 daga á þessu ári,“ segir Hill þar sem embættinu fylgja mikil ferðalög.

Lionsklúbburinn hafði samband við Hill vegna þess að hann hafði verið fenginn til að útvega ákveðinn búnað til að aðstoða hana í kennslu. Hafi klúbburinn leitað til hennar um hvort búnaðurinn væri ekki örugglega réttur svo segja má að áður en Hill gekk í klúbbinn hafi hún verið ráðgjafi hans, því þetta var ekki eina tilfellið sem hún veitti slíka ráðgjöf.

Mikilvægt að fólk viti hvað Lionsklúbbar gera

Aðspurð segir Hill verkefni Lions mörg. Megináherslur starfsins eru þó átta: Barátta gegn sykursýki og blindu, umhverfisvernd, barátta gegn krabbameini barna, málefni ungmenna, aðstoð vegna náttúruhamfara og ýmis önnur mannúðarverkefni.

Spurð hvort starfsemi Lionsklúbba sé almennt viðurkennd segir Hill svo ekki vera og sé það ákveðið vandamál. „Lions sér fyrir alls kyns búnaði sem mörgum þykir sjálfsagt að sé fyrir hendi, en hann birtist ekki af sjálfu sér.“ Oft er þetta búnaður sem þjónar heilbrigðisgeiranum, t.d. hefur klúbburinn fest kaup á lyftum sem koma fólki í hjólastól ofan í sundlaugar og alls kyns öðrum búnaði sem þörf er fyrir á mörgum sviðum.

„Lions vinnur að því að fylla í eyðurnar. Við gerum þessa hluti hljóðlega og ekki margir taka eftir þeim. Þá kunna margir að njóta afraksturs vinnu okkar án þess að vita að þar séum við á ferð.

Lionsklúbbar um heim allan gegna góðum störfum, en sjálfboðaliðarnir verða þreyttir og velta fyrir sér hvort það sé einhver sem meti þeirra vinnu,“ segir Hill og bendir á að hluti af hlutverki hennar og hinna leiðtoganna sé að hvetja Lionsmeðlimi til dáða og veita þeim stuðning.

„Við sækjumst ekki eftir viðurkenningunni og einhverju lofi, en okkur finnst þó mikilvægt að fólkið í samfélaginu viti hvaðan mikið af þeim búnaði sem nýtist þeim kemur. Þá sé mikilvægt að starf okkar sé þekkt þar sem við þjónum sjálfboðastarfi í þágu samfélagsins.“

Spurð hvort hreyfingin geri eitthvað til að reyna auka vitundarvakningu segir Hill að hún hafi rætt við stjórnarmeðlimi sem sjái um nýliðun og markaðssetningu. Úr því kom að vinna er hafin í samstarfi við markaðssetningarfyrirtæki og vilji þau að skilaboðin komist til skila um mikilvægi Lions. Hún bætir við að margir hafi heyrt á nafnið minnst áður en viti ekki fyrir hvað það stendur.

Lions á Íslandi og heimsókn til forseta lýðveldisins

„Lionshreyfingin er meira en bara myndin,“ segir Hill og vísar til kvikmyndarinnar Stellu í orlofi þar sem íslenskur Lionsklúbbur fór á kostum. „Lionsklúbbar vinna að þörfum samfélaga og alþjóðlegum málefnum en ég sé þá nú ekki beint eins og klúbburinn kemur fram í myndinni,“ bætti Hill við.

Þegar Hill lætur af embætti alþjóðaforseta 1. júlí næstkomandi stígur hún þó ekki til hliðar heldur tekur við embætti formanns alþjóðasjóðs Lionshreyfingarinnar. Í því embætti mun hún hafa yfirsjón með öllum framlögum sem stjórnin úthlutar klúbbum víðs vegar um heiminn. Mun hún því einnig hafa umsjón með því að styrkir Lions fari til þeirra sem mest þurfa á að halda.

Á dögunum hitti Hill forseta Íslands og ræddu þau samstarfið á milli stjórnvalda og Lionshreyfingarinnar. Þar sem kosningar eru á næsta leiti taldi hún ekki tilefni til að ræða áframhaldandi samstarf í þessari heimsókn, en það verði skoðað með nýjum forseta. Þá hafi þau einnig rætt um það sem Lions hefur gert og sagðist Guðni Th. Jóhannesson forseti hafa rætt við lækni sem einmitt notaðist við búnað sem Lionsklúbbur hafði útvegað.

„Þetta eru þöglu áhrifin“

Á Íslandi eru 76 Lionsklúbbar en fyrsti klúbburinn hóf hér störf árið 1951. Mættu yfir 100 klúbbmeðlima á fund Hill á mánudagskvöld. Hér á landi eru 1.780 meðlimir Lionsklúbba og samkvæmt gögnum hafa sjálfboðaliðar Lions á Íslandi unnið um 25.000 vinnustundir og hjálpað og þjónað meira en 12.000 manns. „Þetta eru þöglu áhrifin,“ segir Hill.

Hill bendir á að þrátt fyrir að markmið Lions sé alls ekki að vera í sviðsljósinu eða guma af verkum sínum, þá séu afköst Lionsklúbbanna mikil þótt þau séu ekki endilega í brennidepli.

Margir í dag viti ekki hvert hlutverk hreyfingarinnar sé og haldi að meðlimir séu aðeins eldri borgarar. Staðan sé önnur því til er ungliðahreyfing á vegum Lions, sem nefnist Leos, fyrir börn 12 til 18 ára, segir Hill. Hún bendir á mikilvægi þess að ungt fólk gangi í starfið þar sem það sjái heiminn í öðru ljósi.

Höf.: Drífa Lýðsdóttir